21.10.1980
Sameinað þing: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

337. mál, málefni Flugleiða

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þar sem ekki mun ætlunin að halda þessum umr. áfram í kvöld - vegna tilmæla, að því er mér skilst, ýmissa þm. — þykir mér rétt á þessu stigi að taka til máls og leiðrétta nokkur atriði sem hér hafa komið fram og kannske svara öðrum.

Ég stend fyrst og fremst upp til að leiðrétta og lýsa furðu minni á þeirri endaleysu sem streymdi úr síðasta hv. ræðumanni, Vilmundi Gylfasyni, hér í ræðustólnum rétt áðan. Hann fór þar með hvert atriðið eftir annað rangt og ætla ég að leiðrétta nokkur. Í fyrsta lagi fullyrðir hann að í því frv., sem nú liggur fyrir, sé ekki staðið við loforðin frá 16. sept. Þetta er atrangt. Í samþykkt ríkisstj., sem ég fór með til Lúxemborgar, var samþykkt að veita 3 millj. dollara bakábyrgð. Við þetta er fyllilega staðið og meira en það, því að það er meira að segja gert ráð fyrir því, að þetta fjármagn verði greitt út yfir vetrarmánuðina, sem var aldrei lofað, og var ekkert um það rætt í Lúxemborg. Auk þess er í samþykktinni frá 16. sept. gert ráð fyrir því, að ríkissjóður auki hlut sinn í 20%. Við það er fyllilega staðið og kemur fram í frv. Öðru var ekki lofað í þeirri samþykkt sem gerð var 16. sept.

Hér hefur nokkuð borið á góma aðstoð við starfslið, og verð ég að lýsa furðu minni á því sem þar kemur fram. Það er misskilningur hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni, að ekki sé á þetta minnst í skýrslunni. Það er á það minnst í skýrslunni á bls. 12, þar sem skýrt er frá því, að samþykkt hafi verið 2. okt. að beina því til Seðlabankans að aðstoða viðskiptabanka starfsliðs við fyrirgreiðslu í þessu sambandi. Þetta var að sjálfsögðu ekki bundið við neina einstaka starfshópa, alls ekki um það að ræða, heldur að gera viðskiptabönkum starfsliðs, sem þess óskaði, kleift að inna af hendi þær skyldur sem þeim í raun og veru ber. Menn verða að athuga það, að þessir starfshópar eiga margir hverjir mjög mikið fjármagn inni í sumum bönkum, t.d. í Verslunarbankanum og í Sparisjóði vélstjóra. En vegna þess þaks, sem sett hafði verið á útlán, áttu þessir sjóðir erfitt með að greiða út það fjármagn sem þetta starfslið vildi fá til að geta aukið hlut sinn í Flugleiðum. Og ég verð að viðurkenna það að mér þykir undarlegt þegar menn lýsa því yfir hér annars vegar að rétt sé að auka hlut starfsliðs í félaginu, en leggjast svo gegn því, að viðskiptabönkum þessa sama starfsliðs sé gert kleift að koma því til leiðar. Og ég kannast ekki við það, að nokkrum starfshópi hafi verið neitað. Ég hafði engin afskipti af því — ekki nokkur. Þetta var algerlega almennt ákvæði. Mér er hins vegar kunnugt um það, að sumir starfshópar, t.d. flugvirkjar skráðu sig fyrir 140 millj. í Flugleiðum. Mér er líka kunnugt um það, að Loftleiðaflugmenn skráðu sig fyrir 422 millj. og fleiri starfshópa gæti ég nefnt. Og satt að segja finnst mér að þegar félag er í fjármagnssvelti, eins og Flugleiðir eru, og hafa verið með á boðstólnum 240–250 millj. kr. í hlutabréfum sem ekki hafa selst, þá ætti að fagna því að starfslið vilji taka þannig aukinn þátt í starfsemi félagsins. Og mér skilst reyndar að hv. þm. Friðrik Sophusson sé þessu sammála. Hann vill aukna aðild starfsliðs að félaginu og erum við þar á sama máli.

Hv. þm. sagði einnig að ég hefði veitt Iscargo einkaleyfi til ferða til og frá Amsterdam. Það er alrangt eins og fleira. Þar er ekki um neitt einkaleyfi að ræða — alls ekki. Þetta hefur dálítið borið á góma. Menn tala um stefnubreytingu og menn tala um umsókn Arnarflugs á sínum tíma. Arnarflug sótti árið 1976 um leyfi til að fljúga til Amsterdam. Það var tekið fyrir í flugráði í jan. 1977 og fékk umsóknin eitt atkvæði, mitt atkvæði. Ég sat þá í flugráði og ég greiddi því atkvæði að Arnarflug fengi þetta leyfi, því að Amsterdamfluginu var ekki sinnt af Flugleiðum. Og þetta var tilkynnt Arnarflugi þannig að ég sé ekki betur af skjölum ráðuneytisins en að þessi umsókn hafi fengið alla þá meðferð sem gera verður kröfu til. Umsókn Iscargos hlaut fjögur atkvæði í flugráði og einn maður sat hjá. Þar hefur því tvímælalaust orðið stefnubreyting. Sá maður, sem sat hjá, er rekstrarstjóri Flugleiða, sem þekkir manna best hvaða áætlanir flugfélagið hefur um flug, og hann sá ekki ástæðu til þess að gera athugasemd eða láta bóka eftir sér neitt við þá afgreiðslu. Iscargo rekur núna fraktflug frá Amsterdam og tetur sig geta sameinað frakt- og farþegaflug. Það tel ég skynsamlega stefnu. Þeir ræddu að vísu líka um heimild til farþegaflugs til Kaupmannahafnar og London, en það var alls ekki veitt. En að þetta boði stefnubreytingu, því vil ég mótmæta. Þótt þetta félag fái leyfi á einn stað, sem það rekur í dag verulegt flug til, það boðar ekki stefnubreytingu. Og meginástæðan fyrir því að þetta var veitt, er vitanlega einróma samþykki flugráðs við þessu og sú staðreynd, að félagið rekur fraktflug þangað í dag. Sameinað frakt- og áætlunarflug er að mínu mati — og líklega flugráðs þá líka — skynsamleg lausn og skynsamleg breyting á starfsemi þessa félags.

Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, að flugmálastefnuna þarf sannarlega að taka til endurskoðunar og að því mun verða unnið í samráði við flugfélögin. Það er rétt hjá hv. þm., að í mjög mörgum löndum er eitt félag um áætlunarleiðir til annarra landa. Það er hins vegar alls ekki svo, að allt flug til annarra landa sé bundið við eitt félag. Ég kannast ekki við neitt land þar sem svo er. Í þessum löndum flestum, ef ekki öllum eru starfandi félög sem hafa mjög víðtæka leiguflugsstarfsemi, — mjög víðtæka. Hér var starfandi félag með slíka leiguflugsstarfsemi, sjálfstætt félag utan við Flugleiðir. Flugleiðir keyptu meiri hluta í því félagi. Í dag er þess vegna allt flug með farþega til og frá landinu á einni hendi. Ég hef ekki farið leynt með það, að ég tel það vera ranga stefnu. Og ég get skýrt mönnum frá heimsókn fulltrúa ferðaskrifstofa hér á landi til mín, sem þeir staðfestu síðan bréflega, þar sem þeir bera sig mjög upp undan því, að þeir hafi í ekkert hús að leita með leiguflug t.d. annað en til Flugleiða eða til erlendra leiguflugfélaga. Og staðreyndin er sú, að flug erlendra leiguflugfélaga hefur mjög aukist hingað til lands upp á síðkastið. Ég er þess vegna mjög sammála um að þessa flugmálastefnu beri að taka til endurskoðunar. Ég er þeirrar skoðunar, að reynslan hafi kennt okkur að ekki sé hyggilegt að hafa öll eggin í einni körfu með utanlandsflugið í heild sinni. Ég tel að eitt sterkt flugfélag þurfi að hafa allar megináætlunarleiðir til og frá landinu, það séu þá algerar undantekningar ef leiguflugfélög fá eina eða tvær leiðir til þess að tengja á einhvern máta betur saman starfsemi sína að öðru leyti. En það á að vera alger undantekning. En þetta er mál sem sannarlega á eftir að vinna mjög mikið í.

Ég get tekið undir ýmislegt sem kom fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal. Ég er honum t.d. alveg sammála um það, að það er vægast sagt vafasamt að eitt stórt flutningafélag eigi jafnmikið í öðru eins og hér er. Ég tel þetta vera rangt. Ég er einnig sammála honum um það, að útþensla Flugleiða hefur verið óeðlilega mikil og að ég tel ekki fyrirtækinu til góðs. Þau tök, sem eitt félag hefur t.d. á meiri hlutanum á hótelrými hér í bæ, eru að mínu mati ákaflega vafasöm og þarf að endurskoða slíkt og fleira.

Hér hefur verið rætt nokkuð um sölu eigna og menn hafa talið skilyrði um sölu eigna vera vafasamt. Hvaða kröfu gera menn til fjölskyldu sem á miklar eignir og telur sig vera í fjárskorti? Er ekki gerð sú krafa að reynt sé að selja eitthvað af slíkum eignum? Er það ekki eðlileg krafa til hlutafélags — til einkafélags, að það leiti eftir leiðum til þess að lagfæra stöðu sína á annan máta en að ganga í vasa ríkissjóðs og skattborgaranna? Mín skoðun er sú, að það verði að gera þá kröfu til slíks félags, að það leiti eftir sölu á eignum. Að sjálfsögðu getur ríkissjóður eða ríkisstjórn eða Alþingi ekki haft neina milligöngu um það. Sú eina krafa sem hægt er að gera, er að eignir, sem félagið getur losað sig við, séu boðnar til sölu þegar greiðslustaðan er eins og hún er núna hjá Flugleiðum. Og það er sú eina krafa sem ég hef gert.

Ég er sammála því sem hefur komið hér fram hjá einhverjum ræðumanni, að það er vafasamt hjá félaginu að selja eignarhlut sinn í Cargolux, því að Cargolux kann að vera lykillinn að því, að halda megi uppi blönduðu frakt- og farþegaflugi á milli Lúxemborgar og Bandaríkjanna. Því undrast ég þá ályktun í bréfi frá Flugleiðum, sem birt er með skýrslunni, að komi til greina að selja einhverjar eignir, þá telji þeir hagstæðast að selja nokkrar tilteknar og þar á meðal Cargolux. En vitanlega verður það að vera ákvörðun félagsins.

Menn hafa spurt: Hvaða skilyrði á að setja? Ég vek athygli á því, að þegar ríkisábyrgð var veitt 1975, þá segir í lögunum nokkuð svipað og nú er í frv., að ríkisstj. geti sett þau skilyrði sem hún telur nauðsynleg. Hins vegar eru í grg. frá þeirri nefnd, sem fjallaði um málið, talin upp þau skilyrði, sem nefndin telur að setja þurfi, og þau eru æðimörg. Mig minnir að þau séu í tíu eða ellefu liðum eða eitthvað þess háttar. Mér sýnist að svipuð málsmeðferð kæmi vel til greina hér á hinu háa Alþingi þegar frv. er tekið til meðferðar.

Hv. þm. Friðrik Sophusson beindi til mín nokkrum spurningum. Hann gerði fyrst að umræðuefni að skýrslan hefði komið seint, og ég harma það að hún kom eftir að fundi var slitið í Ed. Hins vegar var henni dreift heim til þingmanna í Ed., a.m.k. langsamlega flestra. Mér er sagt, að það hafi tveir orðið útundan, og kannske er það hv. þm. sem hefur orðið það.

Ég hef rætt nokkuð Arnarflug o.fl., en er reiðubúinn að ræða það betur, þegar framhaldsumræða verður, til að lengja ekki mál mitt hér um of.

En svo að ég víki aftur að hinn dæmalausu ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, þá vil ég koma nánar að þessu um samstarf við starfslið og þá brotalöm sem þar er á. Það stendur hvergi og hefur hvergi heyrst, að það eigi að setja í lög að samstarf við starfslið skuli vera gott, ég hef hvergi rekist á slíka þvælu. Eitthvað á þessa leið fórust hv. þm. orð. En það mætti hins vegar, sagði hann, setja í lög eitthvað um breytta eignaraðild. Það stendur að vísu hvergi í lögum, en í samþykktinni frá 16. sept. segir í niðurlagsorðum að ríkisstj. telji nauðsynlegt m.a. að eignaraðild starfsliðs verði aukin, svo að ég hugsa að við séum þarna sammála, þó að furðulegt sé frá því að segja. Ég sé ekki betur en að einmitt sé gert ráð fyrir því og hafi verið lögð á það áhersla, a.m.k. af mér í því sem ég hef um þetta sagt, að starfsliði verði gert kleift að eiga aukna aðild að félaginu. Ég er þeirrar skoðunar, að innan félagsins þyrfti að mynda eitt starfsmannafélag. Það er ekki til í dag. Hér hefur nokkuð verið rætt um Arnarflug. Mér er tjáð að samkomulag sé um að mynda eitt slíkt stéttarfélag innan Arnarflugs. Á fjölmennum fundi um þetta mál fyrir nokkrum vikum stóð upp einn starfsmaður Flugleiða, einn flugmaður, og lýsti þeirri skoðun sinni, að slíkt væri e.t.v. það mikilvægasta sem unnt væri að gera fyrir framtíð félagsins, að sameina starfslið þess í einn hóp og auka aðild þess, eins og ég hef oft sagt, að félaginu sjálfu. Ég held að í svona flugi, svona starfsemi, þar sem áhætta er mikil, verði að leggja á það mikla áherslu, ekki með lögum um góða sambúð hjóna, heldur með þrýstingi frá ríkisvaldinu um aukna aðild starfsliðs að félaginu.