26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

129. mál, tékkar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á lögum nr. 94 frá 1933, um tékka, er lagt fram að beiðni stjórnar Reiknistofu bankanna. Þessu frv. er ætlað að stuðla að öruggari tékkaviðskiptum og auknu hagræði við vinnslu tékka hjá bönkum og sparisjóðum.

Íslenskir bankar hafa um rúmlega 5 ára skeið haft með sér samstarf um rekstur rafreiknis í Reiknistofu bankanna í því skyni að gera bönkum og sparisjóðum kleift að færa sér í nyt nútímatækni við bókun og aðra úrvinnslu tékka. Þessi tilhögun mála hefur reynst mikið framfaraskref í íslenskum bankamálum. Sérstaklega má nefna að tékkar eru nú fyrr bókaðir á hlutaðeigandi viðskiptareikning en áður var og hefur þannig tekist að koma í veg fyrir tékkakeðjumyndun sem um árabil hafði verið reynt að uppræta.

Því hagræði og öryggi, sem þessari tilhögun fylgir, eru þó takmörk sett. Þeir afgreiðslustaðir banka og sparisjóða, sem vegna fjarlægðar geta ekki komið við sendingu tékkanna sjálfra til Reiknistofunnar strax að afgreiðsludegi loknum, verða að senda tékka, sem þeir hafa tekið við á aðra banka, í pósti til höfuðstöðva bankans eða Seðlabanka Íslands. Nokkrir dagar geta því liðið frá því að banki eða sparisjóður veitir tékka viðtöku þar til tékkinn er bókaður. Þetta stafar af því, að tékkalög kveða svo á, að einungis afhending tékka til greiðslujöfnunarstöðvar jafngildir sýningu hans til greiðslu. Til að sanna megi greiðsluhlutfall á tékka með yfirlýsingu greiðslujöfnunarstöðvar verður tékkinn að hafa verið afhentur þangað. Sá dráttur, sem verður á bókun tékka á hlutaðeigandi viðskiptareikning vegna þessara lagaákvæða, veldur hættu á myndun tékkakeðju.

Á síðustu árum hefur víða rutt sér til rúms, t.d. í Danmörku og víðar, ný bókunartækni sem er m.a. til þess fallin að draga úr þessari hættu. Hér er um að ræða fyrirkomulag sem íslenskir bankamenn hafa valið heitið „skjalalaus greiðsluskipti,“ — orðalag sem ég á reyndar dálítið erfitt með að fella mig við, en það er notað. Í því felst að banki eða sparisjóður, sem tekur við tékka á annan banka eða sparisjóð, sendir greiðslujöfnunarstöð símleiðis færslu í véltæku formi til þess að stöðin geti bókað tékkann á viðskiptareikning viðkomandi reikningshafa. Tékkinn sjálfur er hins vegar geymdur á afgreiðslustað ásamt öðrum bókhaldsgögnum. M.ö.o. flýtir þessi tækni fyrir bókun tékka. Þau ákvæði tékkalaga, sem mæla fyrir um afhendingu sjálfra tékkanna, koma hins vegar í veg fyrir að íslenskir bankar og sparisjóðir geti tekið upp þetta fyrirkomulag, og með flutningi frv. er því lagt til að þessum lagaákvæðum verði breytt.

Um einstakar greinar frv., sem eru fjórar, vil ég segja örfá orð.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að 31. gr. tékkalaga verði breytt þannig að í stað afhendingar banka á tékka til greiðslujöfnunarstöðvar nægi að banki sendi stöðinni tilkynningu um tékka. Nú þegar er víða fyrir hendi hjá bönkum og sparisjóðum úti á landi tölvubúnaður til að símsenda færslur í þessu skyni til Reiknistofunnar.

Í 2. gr. frv. er samræmingarákvæði varðandi afturköllun tékka. Hér er um mjög sjaldgæf fyrirbrigði að ræða og ekki ástæða til að fara um það fleiri orðum.

Í 3. gr. frv. er lagt til að 3. tölul. 1. mgr. 40. gr. tékkalaganna verði breytt á þann veg að greiðslufall megi sanna með dagsettri yfirlýsingu greiðslujöfnunarstöðvar um að næg innistæða hafi ekki verið fyrir hendi á þeim reikningi, sem við á, þegar bókunarfærsla um tékka barst stöðinni.

Að lokum vil ég nefna það, að hér á landi eru betri aðstæður til að framkvæma „skjalalaus greiðsluskipti“ en víðast annars staðar þar sem allir afgreiðslustaðir fá bókun sína og óreiðsluuppgjör á sama stað, þ.e. í Reiknistofu bankanna. Að öðru leyti vísa ég til aths. við frv.

Það má segja að hér sé nánast um að ræða tæknilegt mál til að gera bönkum og sparisjóðum fært að hagnýta sér nýjustu tækni í sambandi við rekstur.

Ég óska þess svo, herra forseti, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjh.- og viðskn. og vil mælast til þess við hv. n., að hún hraði afgreiðslu málsins eins og hún sér sér frekast fært.