26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

13. mál, vélstjóranám

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um breyt. á l. nr. 67/1966, um vélstjóranám. Menntmn. hefur fjallað um málið á fundi 5. nóv. og mælir með að frv. verði samþ., en fjarverandi afgreiðslu málsins voru Ólafur G. Einarsson, Friðjón Þórðarson og Vilmundur Gylfason.

Þetta frv. er mjög stutt, aðeins tvær greinar, og innihald þess er að þeir, sem lokið hafa fyllsta námi frá Vélskóla Íslands á hverjum tíma og hafa auk þess lokið sveinsprófi í vélvirkjun eða annarri málmiðnaðargrein, eigi rétt á starfsheitinu vélfræðingur.

Það er ekki mikið um þetta nál. að segja nema að n. er sammála aths. við lagafrv. Nefndinni þykir það mjög við hæfi að aðgreina þá menn, sem hafa aflað sér þessa mikla náms, frá þeim, sem minna nám hafa, og að þeir hafi annað heiti en vélstjórar sem geta haft mjög misjafnt nám, — að þeir, sem hafa fyllra námið, megi kalla sig vélfræðinga, en annarra starfsheiti sé vélstjórar.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég mæli með því, að þetta frv. hafi sinn gang.