26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

12. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38/1971, um Kennaraháskóla Ístands. Menntmn. Nd. hefur gert eina mjög smávægilega breytingu við 2. tölul. 1. gr. frv. að eitt orð í þeirri grein verði stytt nokkuð og hljóði 2. tl. því svo: „Þeir sem lokið hafa kennaraprófi eða framhaldsprófi frá Kennaraháskóla Íslands geta, ef þeir æskja þess, bætt við sig námi í Kennaraháskólanum og lokið þaðan prófi.“ Í frv. stendur: embættisprófi. Við vildum taka af allan vafa um, að þetta orð, embættispróf, yrði misskilið þannig að lesa mætti út úr lögunum að kennarar hefðu ekki próf til síns embættis.

Aðrar aths. gerði n. ekki við frv. og skrifuðu allir nm. undir nál.

Þessi afgreiðsla fór fram á fundi nefndarinnar 19. nóv. En nefndinni barst bréf frá Sambandi ísl. mynd- og handmenntakennara, sem er dags. 20. nóv. 1980, þar sem sambandið gerir nokkrar aths. við frv. Nefndin hefur á fundi sínum í morgun lítillega rætt þetta bréf, en hefur ekki tekið það að öðru leyti til afgreiðslu. Ég hygg að á síðari stigum muni n. ræða það og athuga hvort þær aths., sem þar koma fram, séu þess eðlis, að nauðsynlegt sé að athuga málið betur og gera á því enn frekari athugun.

Lögin um Kennaraháskóla Íslands eru að sjálfsögðu alltaf í athugun eða eiga að sjálfsögðu að vera til endurskoðunar eins og önnur lög. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að í aths. við lagafrv. er þess getið, að í nóvembermánuði 1972 hafi verið skipuð nefnd til að endurskoða lögin og nefndin hafi skilað áliti 1976 og frv. verið lagt fyrir Alþingi á 98. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt. Frv. var að nýju lagt fyrir Alþingi árið eftir, þ.e. 99. löggjafarþing, með nokkrum breytingum, en hlaut ekki afgreiðslu á því þingi. Sem sagt, einhvers staðar í kerfinu er heildarendurskoðun á þessum lögum, en nú er það að ósk skólastjórnar Kennaraháskóla Íslands sem þessi örfáu atriði til breytingar koma fram. Er það fyrst og fremst gert til að breyta lögunum til samræmis við ákvæði í nýrri lögum, þ.e. lögum um embættisgengi kennara og skólastjóra.

Ég hef ekki fleiri orð um nál. og óska eftir því, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 3. umr. og menntmn.