26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

12. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er út af þessum aths. hv. síðasta ræðumarins sem ég ætla aðeins að segja nokkur orð.

Það er auðvitað alltaf spurning um það, hversu mikill þáttur kennslufræði og uppeldisfræði á að vera í menntun kennara. En ég vil benda á það, eins og reyndar kom fram í ræðu hv. þm., að í lögum um embættisgengi kennara, sem samþ. voru fyrir tveimur árum, er gert ráð fyrir að 30 einingar séu grundvöllur undir það að kennari teljist fullgildur til skipunar í starf. Þessi lög voru sett fyrir tveimur árum og að sjálfsögðu hefur reynt á framkvæmd þeirra og því er ekki að leyna, að ýmsum þykir að þarna sé of í lagt.

En ég vil þó jafnframt benda á og undirstrika það, að ég held að það sé alveg brýn nauðsyn að í kennaramenntun sé veruleg áhersla lögð á kennslufræði og uppeldisfræði. Ég vil benda á að þessi krafa hefur verið uppi hjá kennarastéttinni, held ég, í 70 ár eða svo, reyndar allt frá því að skipulegt kennaranám hófst hér á landi. Ég hygg að það sé ljóst, að kennarastéttin hefur alla tíð talið það vera kannske hvað mest einkenni á sér fram yfir aðra, sem hæfir eru til kennslu út af fyrir sig í sérgreinum, að það, sem markar þá frá öðrum starfsstéttum, sé einmitt þekking á kennslufræði og uppeldisfræði. Að þessu leyti held ég að það sé alveg nauðsynlegt, að lögð sé þung áhersla á að þessar námsgreinar séu ævinlega verulegur þáttur í námi kennara. Hitt er auðvitað alltaf fær leið að breyta lögum og er ekkert við því að segja. Ég tel samt að rétt sé að kanna þetta mál mjög rækilega og ræða á ýmsum vettvangi áður en gengið verður í það að breyta þessu lagaákvæði sem sett var fyrir tveimur árum.

Það er að vísu rétt, að þetta er nokkuð þung skylda, 30 einingar, í þessari námsgrein. Eigi að síður er hægt að framkvæma þetta. Það er reynt að framkvæma þetta þannig að gefa þeim kennurum, sem ekki hafa hlotið þessa menntun, tækifæri til þess að öðlast þessa þekkingu með sérstökum námskeiðum. Slíkri námskeiðsstarfsemi hefur verið haldið uppi undanfarin ár og er reyndar enn.

Ég ætla ekkert að þrátta um hvort ákvæðið, sem komst í lög um þessa aukningu kennslufræðinnar og uppeldisfræðinnar, sé rétt eða ekki. Þetta er í lögunum og einhver ástæða mun hafa verið til þess, að svo var gert. Það er út af fyrir sig ekkert á móti því, að þessi mál séu tekin til umræðu og rædd, en ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þau séu rædd á nokkuð víðum vettvangi meðal skólamanna. Þetta er eins og margt fleira, sem við fjöllum um hér faglegs eðlis, að hyggilegt er af alþm. að kynna sér þær ástæður, sem liggja þarna að baki, en hrapa ekki að því að breyta lögum án verulegrar athugunar og án þess að menn hafi kynnt sér hvað að baki liggur.