27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil eins og fyrri ræðumenn taka undir andann í þessari till. Ég er þeirrar skoðunar, að til nokkurs sé að vinna fyrir okkur í samfélagi þar sem við þurfum á að halda fleiri vinnandi höndum til að leysa aðkallandi verkefni, einmitt í landi þar sem auðnast hefur að halda uppi fullri atvinnu, þar sem þannig hefur verið haldið um stjórnartaumana að sneitt hefur verið hjá vandamálum atvinnuleysis, þveröfugt við það sem við ber í sumum löndum Vestur-Evrópu og þar á meðal Vestur-Þýskalandi, en þangað er upphafið að þessari formuðu hugmynd rakið, til Messerschmittfyrirtækisins í München þar sem ríkir atvinnuleysi og vandamálið er fremur að rýmt sé til fyrir fleiri vinnandi höndum við verkefni sem að því er virðist kalla ekki beinlínis að í efnahagskerfi þessara ríkja. Það er annað uppi hjá okkur. Við þurfum á fleiri vinnandi höndum að halda. Við getum rýmt til fyrir fólki sem ekki á hægt með að ganga til starfa á fastskorðuðum vinnutíma, hvorki hjá því opinbera né hjá einkafyrirtækjum.

Ég hygg að það sé gott að knýja á um að formleg athugun verði gerð á því, með hvaða hætti er hægt að stuðla að því að fjöldi fólks, sem ekki á hægt með að vinna dag hvern á tímabilinu frá 8 til kl. 4 eða 9 til kl. 5 að deginum, geti látið að sér kveða við störfin. Aftur á móti kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á ákveðnum hættum sem fólgist gætu í því að losa of mikið um okkar meira og minna óþægilegu höft í sambandi við vinnutíma opinberra starfsmanna. Við verðum að sjá til þess, að hér verði ekki fundin afsökun, að niðurstaðan verði ekki sú, að fundin verði afsökun fyrir því að fólk láti sjá sig á öðrum stöðum en á vinnustaðnum sínum á þeim tíma sem það ætti að vera að vinna.

Ég er ekki mikill aðdáandi stimpilklukkunnar, en sé þó ýmsa kosti við hana. Stimpilklukkan er ekki neitt átrúnaðargoð í minni vitund, en hún gerir að vissu leyti sitt gagn. Ég vil við þetta tækifæri rifja upp umsögn okkar góða gamla húmanista hjá Ríkisútvarpinu, Vilhjálms Þ. Gíslasonar. Þegar einhver af deildarstjórum stofnunarinnar var að kvarta yfir því, hvað margir af starfsmönnum skytu sér undan því að stimpla sig inn og út úr vinnu, sagði Vilhjálmur Þ. Gíslason þessi merkilegu sannindi um stimpilklukkuna: „Stimpilklukkan er í sjálfu sér ágæt,“ sagði hann, „hún segir til um það, hvenær menn koma og hvenær menn fara, en hún segir ekkert til um það hvað menn gera á meðan.“ — Þetta eru að mínu viti ákaflega merkileg sannindi um stimpilklukkuna.

En ef til þess kæmi að hið opinbera kæmi sér niður á vinnuform og eftirlitsform sem hentaði til þess að við gætum látið opinberar stofnanir rýma til fyrir því fólki, sem ekki hentar að vinna samkv. gömlu aðferðunum og innan gömlu markanna, og við gætum með þeim hætti fengið dugandi starfsfólk í vinnu hjá ríkinu, þá væri eftir nokkru að slægjast. Ég er aftur á móti haldinn nokkrum ugg um það, enda þótt frómur sé hugur flm. þessarar till., að ýmsir þeirra, sem líta hýru auga til þess möguleika sem skapaðist um störf hjá því opinbera með þessum hætti, hafi kannske önnur markmið en beinlínis þau sem lúta að velferð þessara stofnana eða möguleikum að því að vinna þessi störf ákaflega vel. Við eigum það á hættu, ef ekki verður rétt staðið að hinu nýja skipulagi, að enn aukist möguleikar þess fólks, sem því miður finnst nú á meðal vor, sem ekki er beinlínis vinnufúst, kannske fúsara til að taka föst laun, til þess að skjóta sér undan starfi.

Ég ítreka að ég tel ákaflega æskilegt að sú könnun, sem hér er ráðgerð, fari fram. Það dregur alls ekkert úr stuðningi mínum við þessa till. þótt Hvöt og Landssamband sjálfstæðiskvenna séu við till. orðuð.

Það er nú haldið áfram að rekja höfundarrétt á þessari till. alla leið til frú Christel Kaemmerer, sem hafði orð á þessu við Hillert nokkurn sem er starfsmannastjóri hjá fyrirtækinu Messerschmitt. Eiginlega er eina spurningin, sem ósvarað er í þessu ítarlega fskj., þessi: Er frú Christel Kaemmerer ekki mælt á þýska tungu? Hún virðist hafa gefið hugmynd sinni heitið Variable Working Hours, sem síðan er tekið upp aftur á ensku síðar í þskj. Vel má vera að hér sé um að ræða ameríska eða enska konu með þýsku nafni sem vinnur hjá þýsku fyrirtæki. Það skiptir vitaskuld ekki meginmáli og þetta rýrir ekkert gildi till. — Ég lýsi yfir fylgi við hana, en vildi gjarnan að niðurstaðan af könnuninni yrði lögð fyrir hv. Alþ. á íslensku.