27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Sem einn af meðflm. þessarar till. vil ég lýsa ánægju minni með undirtektir hv. þm., sem hér hafa talað, og finnst ágætar ábendingar bæði þeirra hv. þm. Helga Seljans, 2. þm. Austurl., og hv. þm. Árna Gunnarssonar, 6. þm. Norðurl. e., og ummæli Stefáns Jónssonar, hv. 4. þm. Norðurl. e., svo langt sem þau náðu. En orð hans urðu mér tilefni þess að standa hér upp.

Það er í sjálfur sér ágætt að frumkvæði Hvatar verður ekki til þess að letja hv. þm. Hann fann einmitt hjá sér hvöt til að standa upp og lýsa yfir fylgi við málið, en á því voru þó nokkrir fyrirvarar. Hv. þm. gerði sérstaklega þann fyrirvara, að það bæri að varast að mál þetta félli í þann farveg að það skapaði um of los á vinnutíma starfsmanna ríkisins. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur lesið alla grg. sem till. fylgir, en í niðurlagi hennar er einmitt á það bent hvernig reisa má skorður við því að slíkt los og stjórnleysi komist á vinnutímann.

Hv. þm. benti á vissa hættu sem fælist í mannlegum breyskleika eða a.m.k. breyskleika sem margir menn eru haldnir og væri fólginn í því, að e.t.v. hefðu starfsmenn ekki fyrst og fremst í huga hagsmuni þeirrar stofnunar sem þeir vinna hjá. Það má vera að hér sé um nokkur sannindi að ræða. En ég sé ómögulega hvernig það fyrirkomulag sem hér er bent á, gæti ýtt undir þennan breyskleika. Ég held þvert á móti að þeir, sem e.t.v. skila takmörkuðum afköstum miðað við þann tíma sem þeir leggja í vinnuna, gætu einmitt innt af höndum betra starf ef þeir ættu tök á því að hafa sveigjanlegan vinnutíma, m.ö.o.: fá vinnutíma sem væri betur við þeirra hæfi. Í grg. till. er bent á þá tilhögun, að sérstakur skylduviðverutími eða sérstakur kjarni fetist í vinnutímanum, en aftur á móti væru frávik annaðhvort fyrir eða eftir

þann fasta vinnutíma þar sem svo hagaði til að verið gæti um sveigjanleik að ræða. Enn fremur er bent á það atriði í lok þessarar grg., sem ég vil sérstaklega draga fram, að vinnufélagar geti e.t.v. samið um vinnutíma sín á milli. Það háttar svo til um mörg störf sem unnin eru, að þessu er vel hægt að koma fyrir án þess að afköstin verði að neinu leyti lakari. Þetta er viða framkvæmt, t.d. í sumum heilbrigðisstofnunum þar sem t.d. tveir hjúkrunarfræðingar skipta á milli sín einni viku eða þá taka sína vikuna hvor. Þessi tilhögun hefur m.a. leitt til þess, að það verður minna um forföll í viðkomandi starfi. Sams konar dæmi gæti vafalaust víða verið að finna og gætu orðið víðar en nú er.

Mér finnst gott að hér hefur komið fram að þetta mál ei ekki sérstaklega hagsmunamál kvenna, eins og oft hefur verið talað um. Vissulega er það svo að vissu marki. En það er almennt hagsmunamál þeirra sem hentar að geta sveigt vinnutíma að þörfum t.d. fjölskyldu eða annarra eininga, sem þeir vinna fyrir, eða þá að getu sinni eða heilsufari, eins og væri t.d. ef um fatlaða væri að ræða, eins og hér var bent á, eða aldraða. Þetta er að sjálfsögðu ekki einungis hagsmunamál þeirra sem störfin vinna, heldur þeirra sem störfin eru unnin fyrir, þeirrar stofnunar sem unnið er hjá, svo og hinna, sem viðkomandi þarf að sinna, eins og t.d. þegar um fjölskyldu er að ræða. Í þessu gætu falist möguleikar á því, að fjölskyldur ættu hægara með en nú er að sinna sjúkum, öldruðum og að sinna betur börnum. M.ö.o.: niðurstaðan er sú, að það hljóti að vera unnt, þannig að til hagsbóta verði fyrir alla þessa aðila, að koma málum fyrir svo sem á er bent í þessari tillögu.

Að því er varðar þýsku frúna enskumælandi vil ég gjarnan benda hv. 4. þm. Norðurl. e. á að fleiri hafa sinnt málum þessum en þeir sem eru af þýsku bergi brotnir að tala ensku sem aðalmál eða aukamál. Þessu máli hefur m.a. verið sinnt á vettvangi Norðurtandaráðs. Þar hefur mikið starf verið unnið í sambandi við möguleika þeirra sem ekki hentar að vinna fullan fastan og síákveðinn vinnutíma. Þessu vildi ég koma hér á framfæri og benda áhugamönnum um þetta efni á að til eru mörg skjöl á vegum stofnana Norðurlandaráðs sem að gagni gætu komið við athugun þessa máls.