27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að þakka flm. fyrir að hafa flutt þessa till. til þál. og skiptir mig þá engu máli hvaðan upphafið er, hvort það er frá enskumælandi Þjóðverja eða hvaða mál eru töluð þar úti í heimi. Í raun og veru ætti ekki að þurfa að flytja þáltill. um svona sjálfsagt mál, vegna þess að þetta ætti að vera framkvæmdaatriði hjá hverju fyrirtæki um sig, hvort sem það eru ríkisfyrirtæki eða önnur fyrirtæki. Þetta er svo sjálfsagt að um það ætti ekki að þurfa að flytja tillögu.

Þm. hafa staðið hér upp og lýst sig samþykka þessum tillöguflutningi og eins ætla ég að gera. Hv. þm. Árni Gunnarsson talaði um að það væri e.t.v. ástæða til að færa till. út þannig að þessi athugun næði örlítið víðar en till. gerir ráð fyrir og þar væru kallaðir til umsagnar fleiri aðilar. Tel ég að það væri mjög til bóta ef þarna væri farið inn á víðara svið, svo sem að umsagnir verkalýðsfélaga og atvinnurekenda kæmu inn í þessa könnun.

Slíkur breytilegur vinnutími getur örugglega þýtt kjarabót fyrir allt starfsfólk, hvort sem eru konur eða karlar, og ég hygg að þetta gæti í ýmsum tilvikum verið ákaflega hagkvæmt fyrir hin ýmsu fyrirtæki. Ég er þess fullviss, að svo gæti verið, án þess að ég ætli að lýsa því hér frekar vegna þess að ég tel það óþarft.

Fyrirtækin eru margvísleg, eins og við vitum, og ýmsar hættur kynnu að leynast, eins og hér hefur lítillega verið minnst á. En að mínu mati mætir allt með því, að þessi athugun fari fram þannig að síðar liggi það ljósar fyrir ríkisfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum, hverjir kostir, hverjir gallar og hverjar hættur kynnu að leynast í þessu. — En mitt erindi hingað er að lýsa stuðningi við þessa tillögu.