27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

58. mál, eftirgjöf á gjaldi fyrir síma elli- og örorkulífeyrisþega

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir, er flutt af mér og hv. þm. Albert Guðmundssyni. Till. þessi var flutt áður á 102. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu.

Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög byggt íbúðir fyrir aldrað fólk. Einnig rekur Sjálfsbjörg slíka byggingu fyrir öryrkja, sem eru svo mikið fatlaðir að þeir þarfnast sérstaks húsnæðis, en geta þannig að mestu séð um sig sjálfir. Íbúar þessa húss njóta niðurfellingar af síma, og hið sama gildir um íbúa þriggja af fjórum íbúðarhúsum fyrir aldraða í Reykjavík. Hið sama gildir eflaust um nokkur slík hús sem fyrirfinnast í öðrum sveitarfélögum. Í hinu fjórða, húsinu nr. 27 við Dalbraut, sem Reykjavíkurborg hefur einnig byggt, og þrem hjónahúsum, sem tengd eru við það og eru þá aðskilin hús, hefur íbúum verið synjað um þessa niðurfellingu þar sem almenningssími sé í aðalhúsinu. Hið sama er þó að sjálfsögðu að segja um öll hin húsin. Nokkru meiri þjónusta er að vísu í húsunum við Dalbraut nr. 27, en þeir, sem það geta hugsa að öllu leyti um sig sjálfir, en greiða hærri húsaleigu en gerist í hinum húsunum.

Það þarf ekki að tíunda það hér enn einu sinni, hversu mikilvægt tæki sími er hinum öldruðu. Almenningssími í einu af mörgum húsum nægir þar alls ekki til.

Ég veit ekki hvort ég þarf eða á að vera að rekja gang þessa máls hér í þingi í fyrra. Svo að þingmönnum sé ljóst, hvað hér er um að ræða, ber að geta þess, sem í reglugerð stendur, reglugerð nr. 427 frá 1978, hverjir yfirleitt hafa rétt til þess að fá niðurfellingu á síma. En um það segir, með leyfi forseta:

„Skilyrði til að ársfjórðungsgjald megi fella niður eru: a) Að viðkomandi elli- og örorkulífeyrisþegi njóti óskertrar uppbótar á elli- eða örorkulífeyri (tekjutrygging), samkv. 19. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar.

b) Að umsækjandi búi einn í íbúð, eða sé hann í hjónabandi eða öðru sambýli, þá uppfylli hver einstaklingur kröfur reglugerðar þessarar. Umsækjandi telst þó uppfylla skilyrði þessarar greinar enda þótt fólk undir tvítugsaldri dveljist á heimilinu.

c) Að ekki sé annar sími í íbúðinni.“

Það er ekkert sem bendir til þess í reglugerð að gera skuli mun á íbúum í húsum, sem sérstaklega eru ætluð öldruðum, og íbúum í öðrum sambýlishúsum. En það, sem gerst hefur við Dalbraut 27, er að flest það fólk, sem þar býr, naut þessara fríðinda áður, en missir þau þegar það kemur í þetta sérstaka hús.

Nú gætu hv. þm. sagt: Hvers vegna er verið að flytja um þetta þáltill.? Er ekki nóg að hringja í hæstv. fjmrh. eða hæstv. samgrh. og segja þeim að kippa þessu í lag?

Svar mitt við því er einfaldlega þetta: Það hefur ekki tekist og ég hlýt þess vegna að óska eftir áliti þingsins á því hvort þetta sé ekki réttlætismál.

Ég vil hins vegar geta þess, að við afgreiðslu þáltill. þessarar á s.l. vori var málinu vísað til Öryrkjabandalags Íslands sem mælti að sjálfsögðu eindregið með því. Þar er öllum ljóst að þetta er fáránlegt eins og það er. Síðan var málið sent til Póst- og símamálastjórnarinnar og í umsögn Jóns Skúlasonar segir orðrétt, að „stofnunin er því mjög mótfallin að þurfa að hafa með höndum frekari framkvæmdir hér að lútandi“.

Ég er hér með í höndunum bréf forstjóra Pósts og síma. Það var mér raunar aldrei sýnt í fyrra, og ég furða mig á að formaður allshn. skyldi ekki ræða við mig efni þessa bréfs. Ég veit ekki til að Jón Skúlason hafi verið beðinn að segja álit sitt á þessum lögum. Hann var beðinn um álit á hvort þetta félli ekki að annarri almennri afgreiðslu. Hann segir hér hins vegar, með leyfi forseta:

„Enn fremur má upplýsa, að aukið vinnuálag hjá Póst- og símamálastofnun vegna þessa verkefnis, sem í dag er unnið á þessu sviði, nálgast þrjú ársverk og er ekki á það bætandi.“

Hér er um að ræða líklega 70 íbúa, sem kynnu að eiga rétt á þessu, þó auðvitað ekki nærri allir því sumt af þessu fólki hefur ekki fulla tekjutryggingu vegna eftirlauna og þá kemur það ekki til greina.

Jafnframt segir Jón Skúlason, með leyfi forseta: „Ég tel eðlilegast að hinum öldruðu sé greitt af almannafé bæði símaafnot sem annað og að Tryggingastofnun ríkisins sé falið það verkefni sem umrædd till. til þál. felur í sér.“

Ég veit ekki til þess, að hann hafi verið beðinn um álit á þessu, og ég undrast satt að segja að formenn nefnda skuli í svona tilviki ekki ræða við flm. eða jafnvel bréfritara um að þetta sé ekki svar við því sem um var beðið.

Síðan er málið sent til umsagnar ráðuneytisstjóra samgrn. og þá tekur nú steininn úr. Svarið er hér upp á rúmar þrjár síður og fylgir löng kennsla í afgreiðslu á tekjutryggingu. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þar hef ég ekkert að læra. Ég hef unnið við það árum saman. Allt, sem um það mál stendur, er rangt, en ég hneykslast ekki á því. Ráðuneytisstjóri samgrn. hefur enga ástæðu til þess að kunna neitt í útreikningi tekjutryggingar. Hins vegar er alveg meiningarlaust að vera að senda Alþingi kennslu í slíku. Niðurstaða hans er einfaldlega sú, með leyfi forseta, — já, ég leyfi mér að lesa eina grein úr þessu bréfi, með leyfi forseta:

„Orðalag till. á þskj. nr. 196 er óljóst og þokukennt, því henni lýkur á orðunum „enda uppfylli þeir skilyrði reglugerðarinnar að öðru leyti.“ M.ö.o.: enda þótt íbúi í sérbyggðri íbúð fengi eftirgjöf á símgjaldi vofði þó yfir honum sú hætta að missa tekjutrygginguna og um leið þessa eftirgjöf á afnotagjaldi síma síns.“

Ég vil bara segja eitt um þetta. Þetta er eintómt rugl og kemur málinu ekkert við. Tryggingastofnun ríkisins fellir niður tekjutryggingu hafi lífeyrisþegi þær tekjur að hann eigi ekki rétt á henni. Póstur og sími þarf engar áhyggjur að hafa af því. Á þriggja mánaða fresti sendir Tryggingastofnun ríkisins lista unninn í tölvu stofnunarinnar um þá sem eru með fulla tekjutryggingu, og þeir eiga rétt á niðurfellingu á afnotagjöldum síma ef þeir búa einir. Þetta er einfaldasta mál til afgreiðstu sem hugsast getur. Ég verð líka að segja það hér, að mér finnst það lítilsvirðing við alþm., hver sem hann kynni að vera, að tala um að form og orðalag till. sé óljóst og þokukennt, sem hreinlega byggist á því að bréfritari skilur ekki hvað hér er verið að biðja um. Ég held að hægt hefði verið að fá þær upplýsingar svo að það væri ljóst.

Innihald þessara tveggja umsagna er sem sagt það, að Alþ. hafi haft rangt fyrir sér þegar það samþykkti að Póstur og sími felldi niður afnotagjald af síma þeirra sem hafa fulla tekjutryggingu. Um það má eflaust deila enn á ný á hinu háa Alþingi, en það er ekki mál embættismanna ríkisins að lýsa yfir því, hvort þeim finnst þau lög, sem við hér samþykkjum, rétt eða röng. Og það er harla lítil afsökun að bera því við, að þeir nenni ekki að standa í að framkvæma þau. Ég vil lýsa furðu minni á afgreiðslu þessa máls.

Ég vil segja það að lokum, að ég vænti þess, að hv. þm. skilji að hér er ekki verið að biðja um neitt annað en að þingið lýsi vilja sínum til að fólkið, sem býr í þessu húsi og þessum húsum við Dalbraut 27, njóti sömu réttinda og aðrir þeir sem svipað er ástatt um og þeirra réttinda sem þeir nutu áður. Ég hygg að ærið margir bíði mjög eftirvæntingarfullir eftir því, hvað þinginu finnst um þetta. Ég vil jafnframt taka það fram, að ef hæstv. samgrh. kynnir sér þetta mál og skrifar Póst- og símamálastofnuninni bréf og skipar henni að gera þetta er auðvitað ástæðulaust að málið sé hér til meðferðar á Alþingi. En þessi till. er flutt að þrábeiðni þessara íbúa, og ég hef ekki séð annan möguleika til þess að fá þetta mál afgreitt. Ég vænti þess, að það verði gert hér sem allra fyrst, og leyfi mér að senda það enn á ný til hv. allshn.