27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

57. mál, takmörkun aðgangs erlendra herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. 57 mál er till. til þál. um að takmarka aðgang erlendra herskipa og herflugvéla að 12 mílna landhelgi Íslands. Till. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa setningu nýrrar reglugerðar um aðgang erlendra herskipa og herflugvéla að 12 mílna landhelgi Íslands til að takmarka svo sem framast verður unnt þann aðgang. Reglugerðin verði í samræmi við væntanlegan hafréttarsáttmála og gefin út sem fyrst eftir að hann verður undirritaður.“

Fyrir nokkrum vikum varð það slys austur við Japan, að eldur kom upp í sovéskum kjarnorkukafbát sem var skammt undan strönd Okinawa. Kafbáturinn varð á tímabili stjórnlaus og greip um sig ótti í Japan um að geislavirkni frá honum kynni að valda tjóni á mönnum og fiskimiðum. Sem betur fer fór svo að kafbáturinn var dreginn til lands í Vladivostok og kjarnorkumengun varð engin þó að manntjón muni hafa orðið eitthvert.

Það er athyglisvert fyrir okkur, að báturinn var oft innan japanskrar landhelgi meðan þessu fór fram, og hann var það í fullum rétti samkv. alþjóðalögum.

Þetta atvik varð m.a. til þess, að fulltrúar allmargra þjóða á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf í ágústmánuði gerðu að umræðuefni rétt herskipa og herflugvéla til að fara um landhelgi annarra ríkja og mæltu fyrir breytingum í þá átt, að þessi réttur yrði takmarkaður. Þeir munu að vísu ekki hafa flutt till. í þessa átt, en mér finnst sjálfsagt að Íslendingar styðji þennan málflutning og allt sem kann að verða gert í þessa átt.

Sú regla hefur lengi gilt, að herskip annarra þjóða, sem ekki eiga í ófriði þá stundina, hafi rétt til þess sem er kallað „meinlaus sigling“ innan landhelgi ríkis. Þetta hefur til skamms tíma gilt um landhelgi, sem yfirleitt hefur verið 3 mílur, en er nú — m.a. hér hjá okkur Íslendingum — orðin 12 mílur. Það vil ég taka skýrt fram og biðja menn að gera sér fulla grein fyrir, að mál sem þetta koma ekki við 200 mílna efnahags- og mengunarlögsögu. Við og aðrir höfum mjög takmarkaðan rétt út að 200 mílum, — rétt er varðar efnahag, þ.e. auðlindir hafsins, og mengun, en hin eiginlega landhelgi er aðeins 12 mílur. Það er við hana miðað þegar rætt er um fullkomin yfirráð þjóðar yfir hafinu á sama hátt og þjóðin hefur yfirráð yfir eigin landi.

Þegar siglt er samkv. þessum gömlu reglum sem kallað er „meinlaus sigling“ mun vera átt við, þó ekki sé það nákvæmlega tiltekið í þjóðarrétti, að herskip hafi vopnabúnað sinn slíðraðan, ef svo má að orði komast, og að siglt sé viðstöðulaust. Kafbátum hefur þó verið gert og er gert að sigla jafnan á yfirborði þegar svona stendur á. Þessar reglur gilda þó ekki þegar um er að ræða þröng sund sem eru eina leiðin frá einu hafsvæði yfir til annars.

Ástæðan til þess, að ég vek athygli á þessu máli hér á Alþingi,. er sú, að ekki langt frá landi okkar eru fjölfarnar siglingaleiðir kafbáta, þ. á m. bæði kjarnorkukafbáta þeirra, sem eru knúnir með kjarnorku, og svo þeirra sem bera kjarnorkuvopn. Við þetta mætti bæta bæði herskipum og herflugvélum annarra þjóða sem tíðförult er um nágrenni okkar.

Svo vill til að fyrir örfáum dögum gerðist það fyrir vestan land, að menn á Víkingi frá Akranesi sáu ljóslausan kafbát sem sigldi á yfirborði 4 mílur frá landi. Er þarna greinilega um að ræða tilvik sem þessar reglur hlytu að eiga við. Ég gerði tilraun til þess í gær að fá upplýsingar um hvað íslensk yfirvöld vissu um þetta mál, en það reyndist ekkert vera. Var mér tjáð að Landhelgisgæslan ætlaði að taka skýrslur af áhöfninni á Víkingi, en það hefði ekki verið gert enn.

Hér er í gildi tilskipun um „aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasviði“. Þessi tilskipun var gefin út af Kristjáni X í júlí 1939 eða nokkrum vikum áður en heimsófriðurinn braust út, og er enginn vafi á að ríkisstj. Íslands hefur óskað eftir að þessi reglugerð væri gefin út. Þó að hún sé góð svo langt sem hún nær er augljóst að áður en langt líður verður að gefa út endurskoðaða reglugerð um þessi mál.

Herra forseti. Ég legg til að við frestun umr. verði till. vísað til utanrmn.