27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

57. mál, takmörkun aðgangs erlendra herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja hér fáein orð í tilefni af ummælum hv. 2. þm. Reykn., sem nú hefur yfirgefið þennan stól. Hann leggur á það áherslu, að það verði að skoða málin raunhæft, og það held ég að sé nákvæmlega það sem við gerum. Við þurfum að skoða þau raunhæft, hvaða hætta okkur stafar af vopnaskaki stórveldanna hér í Norður-Atlantshafinu, og við þurfum þess vegna að leggja á það áherslu, að Ísland lýsi því yfir að hér sé um að ræða kjarnorkuvopnalaust svæði og að við friðlýsum Norður-Atlantshafið. Af þessari ástæðu, vegna þess að við Alþb.-menn skoðum málin raunhæft setjum við fram kröfur okkar í þessum efnum.

Menn hafa væntanlega áttað sig á því, eftir þær upplýsingar sem komið hafa fram nú undanfarin misseri, að með áframhaldandi þróun bandarísku herstöðvarnar í þá átt sem Ameríkumenn ætla henni er gert ráð fyrir því að gera Ísland að eins konar miðpunkti í kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjamanna. Slíkt leiðir hættu, stórfellda hættu yfir okkar þjóð, eyðingarhættu, útrýmingarhættu, og ég held að það sé raunhæft að horfast í augu við þá hættu. En það er óraunhæft að setja sig í þær stellingar í þessum efnum, að ekki megi hrófla við þessu vegna þess að það raski einhverju jafnvægi milli Bandaríkjamanna og Rússa. Með því að lýsa þeirri skoðun, að einhliða ákvörðun skapi óróa, eins og hv. 2. þm. Reykn. gerði áðan, er hann að lýsa því yfir að við megum ekkert gera hér, við eigum að biða eftir því sem þeirra hátignir, Leonid Brésnév og Ronald Reagan, semja um. Við eigum að bíða. Smáþjóðirnar í heiminum eiga ekkert hlutverk tengur, vegna þess að einhliða ákvörðun þeirra, Íslendinga, Dana eða hverra annarra — Tékka og Slóvaka mundi skapa óróa. Auðvitað mundi það skapa óróa í Moskvu og Washington, að þessar smáþjóðir rifu af sér þann klafa sem stórveldin reyna að leggja þeim á herðar. En það væri lóð á vogarskál heimsfriðar, það er ég sannfærður um. Þessi vopnaði friður, sem hv. þm. talar hér fyrir, er sú hætta sem blasir við lífi okkar Íslendinga hvern einasta dag. Hverjum einasta heilskyggnum manni hér í landinu hlýtur að vera ljóst hvaða háska slíkt hefur í för með sér.

En ástæðan til þess, að ég kem hér upp, er kannske ekki fyrst og fremst sú að segja jafnsjálfsagða hluti og ég hef hér rakið, vegna þess að þeir liggja öllum í augum uppi sem vilja hugsa þessi mál heiðarlega. Ástæðan til þess, að ég kem hér upp, er kannske fyrst og fremst sú, að það hefur enn þá einu sinni verið staðfest hér á hv. Alþingi, að Alþfl. vill í rauninni ganga miklu lengra í þessum efnum en nokkrir aðrir. Hann vill leggja örlög íslensku þjóðarinnar í hendurnar á Könum og Rússum. Það er sú niðurstaða sem blasir við eftir yfirlýsingu hv. þm. um að einhliða ákvörðun skapi óróa. — Svona mega Íslendingar ekki hugsa. Svona mega Íslendingar ekki hugsa vegna þess að þar með eru þeir að afsala sjálfstæði sínu í hendur erlendum stórveldum. Það viljum við ekki gera.