27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

57. mál, takmörkun aðgangs erlendra herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ekki átti ég von á því, að þessi till., sem fjallar um framkvæmd á mjög þröngu sviði þjóðréttar, yrði til að hleypa af stað almennum umræðum um öryggismál okkar, þó að hitt sé að sjálfsögðu rétt, að skylt sé skeggið hökunni og þetta sé nátengt.

Ég vil í fyrsta lagi geta þess, að ekkert hef ég á móti því, að um þessi mál verði sett lög, ef það verður niðurstaða nefndar og Alþingis að rannsökuðu máli að þess gerist þörf. Ég vil minna á að Alþingi hefur fyrir tiltölulega skömmu sett heildarlöggjöf um landhelgismál, um 200 mílurnar eins og þær eru. Í þeirri löggjöf færðum við sjálfa landhelgina út í 12 mílur. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt og hefur fullkomið lagagildi, að framkvæmd á landhelginni eins og fjallað er um í þeirri reglugerð sem ég legg til að verði endurskoðuð, sé gerð með reglugerð er byggist á heimild í landhelgislögunum. Við skulum sjá hver niðurstaðan verður af athugun um þetta.

Ég ætla ekki að fara ítarlega út í stærri efnisatriði sem hér hafa verið dregin fram. Ég vil fyrst taka það fram, að ég er sammála því sem hv. 2. þm. Reykn. sagði, að sambandið á milli herskipaferða og herflugvélaferða nærri landinu og varnarliðsins er ekki eins og hæstv. félmrh. sagði, að dvöl varnarliðsins auki þessa umferð, heldur hygg ég að hitt sé miklu nær sanni, að væri Ísland óvarið land mundi það freista miklu fleiri þjóða að koma nærri ströndum. Tilgangurinn með mörgum af þessum kafbátaferðum, sem eru þýðingarmestar, er að kafbátarnir komist ferða sinna án þess að andstæðingar þeirra viti af þeim. Um það snýst mikið af umsvifum sem eru hér á landi og í kringum okkur. Yrði landið hlutlaust gætum við ekki af eigin rammleik fylgst með því, hvort kafbátar sigldu við 12 mílur meðfram ströndinni. Ég held að við verðum að gera okkur þetta ljóst, hver svo sem skoðun okkar er í sjálfu sér á dvöl varnarliðsins, og þetta atriði hygg ég að ráði ekki úrslitum um afstöðu manna til þess.

Rætt er um að við lýsum því yfir, að Ísland sé kjarnorkuvopnalaust svæði. Þetta er stórmál, sem við höfum rætt sérstaklega hér á Alþingi hvað eftir annað og eigum sjálfsagt eftir að ræða. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um það frekar að öðru leyti en því, að ég ítreka þá staðföstu skoðun mína, að Ísland sé kjarnorkulaust svæði, því hafi verið í fyrsta lagi margyfirlýst af íslenskum ríkisstjórnum og þeir, sem helst hefðu áhuga á að vita hvort svo er eða ekki, viti vel um það sjálfir og hafi, eins og t.d. hefur komið fram í skálaræðum í Moskvu, fulla vitneskju um að hér sé í raun og veru kjarnorkulaust svæði. Samningar eru á þá lund, að það er ekki hægt að flytja hingað kjarnorkuvopn án leyfis íslenskra yfirvalda. Það er bannað samkv. varnarsáttmálanum, og það er einnig bannað samkv. samningnum um hindrun á dreifingu kjarnorkuvopna, sem Ísland, Sovétríkin og Bandaríkin eru aðilar að með tugum annarra þjóða.

Þá var minnst á hugmyndina um friðlýsingu Norður-Atlantshafsins. Að sjálfsögðu er hugmyndin um að friðlýsa einstök svæði hnattarins stórkostlega merkileg og væri æskilegt að hægt væri að fara inn á þá braut og tengja síðan svæðin saman þangað til þau næðu í kringum jarðkringluna. En minnst var á Indlandshafið sem fyrst var gerð samþykkt um í þessa átt af Sameinuðu þjóðunum. Sú samþykkt var gerð svo snemma, að þá höfðu stórveldin enn ekki neinn vígbúnað á þessu hafi. Tækifærið var því einstakt til að koma hugmyndinni til framkvæmda. En því miður hefur það ekki tekist. Vígbúnaður beggja risaveldanna á Indlandshafi fer stöðugt vaxandi og hafa þau sjálfsagt sínar ástæður fyrir því.

Þegar talað er um friðlýsingu eru mál örlítið flóknari en svo, að hægt sé að taka hugmyndina, sem fram kom fyrst um fjarlæg höf þar sem lítil hernaðarumsvif voru í þá tíð, og ætlast til að hún geti átt við Norður-Atlantshafið. Ég er þeirrar skoðunar, að verði unnt að fara friðlýsingarleiðina muni Norður-Atlantshafið verða síðasti hlutinn af hnettinum þar sem sú framkvæmd kæmist á. Það er ekki vegna þess að það skorti staðfestu eða vilja hjá smáþjóðum eins og okkur eða öðrum sem búa við Norður-Atlantshaf, heldur eru það eingöngu landfræðilegar ástæður sem ráða því, að þetta svæði er talið svo mikilvægt og risaveldin viðhafa svo mikið vopnaskak á þessu svæði sem raun ber vitni.

Varðandi hugmyndirnar um friðlýsingu er þó rétt að geta þess sem hæstv. félmrh. drap á, að Alþfl. varð fyrstur til að setja þær fram í þskj. Það voru almennar hugleiðingar um öryggismál Íslands til langrar framtíðar, að við gætum látið okkur dreyma um að afvopnunarmát og friðlýsing kæmust það langt að þetta svæði yrði friðlýst á vegum Sameinuðu þjóðanna, en þá væri Ísland tilvalið til þess að verða eftirlitsstöð Sameinuðu þjóðanna með afvopnun á þessu mikilvæga svæði. Ég tel áð einmitt þetta, sem hæstv. ráðh. minnti á, sé andstætt þeirri hugmynd hans að Alþfl. vilji ganga lengra í vopnaskaki en aðrir hér á landi. Það er þvert á móti, að óskir okkar í þessum efnum eru sjálfsagt hinar sömu og allra annarra, en það er mismunandi hve raunhæfum augum menn líta á veruleikann. — [Fundarhlé.]