22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég get ekki neitað því, að ég varð dálítið undrandi þegar ég frétti af því núna rétt fyrir hádegið, að hv. þm. Kjartan Jóhannsson hygðist óvænt bera fram fsp. utan dagskrár um eitt atriði skattalaganna og óskaði svara á fundi Ed. í dag, þar sem vitað var að annað stórmál var hér á dagskrá, þ.e. Flugleiðamálið, og sumum þm. liggur á að komast að í þeim umr. vegna fjarveru úr þinginu næstu daga og tími virtist vera nokkuð naumur. En svo virðist vera að hv. þm. liggi nokkuð á að fá umr. um þetta mál og er þá ekkert við því að segja. — Hitt er auðvitað flestum ljóst, að umr. hefðu hugsanlega getið farið fram fyrr um þennan skatt því að nú eru 21/2 ár liðin síðan Alþ. samþykkti það ákvæði sem hér um ræðir, þ.e. að börn skuli sérsköttuð og sá skattur skuli innheimtur sér á parti.

Ég minnist þess ekki, þegar þessi ákvörðun var tekin af Alþ. fyrir 21/2 ári, að nokkur þm. gerði aths. við þetta nýja fyrirkomulag, og ég minnist þess ekki, að nein brtt. hafi verið flutt. Nú skal að vísu viðurkennt að þessi ágæti þm., Kjartan Jóhannsson, hafði ekki tekið sæti á Alþ. á þeim tíma og átti þess ekki kost að gera aths. við málið. En hann kom skömmu síðar á þing, haustið 1978, og sá vetur leið og ráðh. komu og fóru, m.a. ráðh. úr hans flokki, sem ég veit ekki til að hafi sýnt þessu máli nokkurn minnsta áhuga eða verið með bollaleggingar um að breyta þessu atriði. Skattalagabreytingar voru gerðar á liðnum vetri, þar sem málið var enn til umr., því að við gerðum sérstaka breytingu hér í þinginu einmitt á þessu atriði og tekjuskattur af tekjum barna var hækkaður úr 5% í 7% í vetur í samræmi við að frv. var ekki lengur miðað við staðgreiðslukerfi,heldur miðað við að greitt væri árið eftir. Ég man ekki heldur eftir því, að í vetur hafi orðið neinar umr. um þennan þátt málsins eða að neinn þm. gerði aths. við að þessi tilhögun væri uppi höfð.

Samkv. eldri tekjuskattslögum var meginreglan sú, að tekjur barna voru lagðar við tekjur foreldra og skattlagðar með þeim. Þetta þýddi í reynd, að í flestum tilvikum var lagður á tekjuskattur í háu skattþrepi auk útsvars á þessar tekjur og þar að auki sjúkratryggingargjald. Í þessu fólst að t.d. á árinu 1979 var algengt að tekjur barna væru skattlagðar með 50% tekjuskatti, 10–11 % útsvari og 2% sjúkratryggingargjaldi, eða samtals 62–63% skatti. Skatturinn var á lagður og síðan innheimtur með sköttum foreldranna þannig að hann var hvorki við álagningu né innheimtu sérgreindur. Færu tekjur barna fram úr vissri upphæð var að vísu hægt að fara fram á sérsköttun þeirra, en þó taldist alltaf viss hluti tekna með tekjum foreldra. Persónuafsláttur foreldranna réðst ekki á nokkurn hátt af fjölda barnanna, en námsfrádráttur barna innan 16 ára aldurs olli því, að hluti af tekjum barna slapp við skattlagningu, og hins vegar var tekið tillit til framfærslu barna með barnabótum.

En hvers vegna var þá þessi breyting gerð þegar nýju skattalögin voru sett? Ég hygg að mörgum hafi þótt það úrelt kerfi að börnin öfluðu teknanna og eyddu þeim, en foreldrarnir borguðu skattana, og að í þessu landi, þar sem börn vinna fyrir verulegum tekjum, væri löngu kominn tími til að breyta þessu og skattleggja tekjur barna sér á parti. Ég hygg að þetta sé ein helsta undirrótin að þessari breytingu. En þó verður auðvitað að viðurkennast að aðalástæðan er sú, að þessi tekjuskattslög áttu að tengjast staðgreiðslukerfi skatta og mönnum sýndist að það væri nánast óframkvæmanlegt að leggja saman tekjur barna og tekjur foreldra, a.m.k. væri það mjög veruleg einföldun við framkvæmd á staðgreiðslukerfi að taka upp þetta nýja fyrirkomulag.

Í þessum tekjuskattslögum var um tvennt að ræða. Annars vegar er skatthlutfallið orðið miklu, miklu lægra á þessar tekjur en á aðrar tekjur, en jafnframt féll í brott námsfrádráttur. Ég held að það þurfi ekkert að draga í efa, að bæði fyrir gjaldendur og ríkissjóð sé það langtum einfaldara og öruggara kerfi að um sé að ræða tiltölulega lága, flata skattprósentu við launaútborganir og að gamla kerfið hefði orðið ærið þungt í vöfum. Nú skal að vísu viðurkennt að staðgreiðslukerfi skatta hefur enn ekki verið komið á og þessi forsenda, sem ákvæði hinna nýju tekjuskattslaga byggðist að nokkru leyti á, er ekki til á þessu álagningarári. En þetta vissu þm. á s.l. vetri og sáu þó ekki ástæðu til að gera till. til breytinga. Ég hygg að menn hafi haft það í huga, að á stefnuskrá núv. ríkisstj. er að komið verði á staðgreiðslukerfi skatta hið allra fyrsta, og ég held að sú stefna sé örugglega studd af miklum meiri hl. alþm. — Mér er kunnugt um að flokkur fyrirspyrjanda er meðal þeirra sem eindregið vilja að slíku kerfi sé komið á. — Mönnum þótti því eðlilegt að halda þessu fyrirkomulagi áfram.

Það skal hins vegar viðurkennt, að af tæknilegum ástæðum varð að taka þessa hlið álagningarinnar fyrir á eftir álagningu annarra gjalda og álagningin er því óeðlilega seint á ferðinni. Þessi töf á framkvæmdinni getur valdið tímabundnum greiðsluerfiðleikum hjá mörgum sem eiga í hlut. Ég held að það verði að gilda sama regla um þá og gilti í sumar varðandi skattþegnana almennt, að ef greiðslubyrði var sannanlega ónotalega mikil á seinustu mánuðum ársins, m.a. vegna þess að fyrirframgreiðsluprósentan var óvenjulega lág á þessu ári og vegna þess að ýmsir hækka kannske verulega í tekjum milli ára eða hækka í sköttum eftir atvikum, þá var gengið út frá því og rætt um það við innheimtumenn ríkissjóðs, að gerðir yrðu samningar við menn um lengri greiðslutíma skattanna eftir því sem þörf krefði og sanngjarnt virðist. Ég held að þennan þátt vandans verði að leysa með góðu samkomulagi og réttlátri meðferð á óskum og kærum sem berast af þessu tilefni.

Hv. þm. spurði að því, hvort einhverra viðbragða væri að vænta af hálfu ríkisstj. vegna þessa vandamáls, hvort fram hefðu farið sérstakar athuganir á skattlagningu á tekjur barna. Ég held að óhætt sé að fullyrða að engin sérstök athugun hefur enn farið fram á þessari skattlagningu, enda er hún alveg nýlega um garð gengin, og ég hef t.d. sjálfur ekki fengið neina nákvæma skýrslu um þessa skattlagningu. Ég hef þegar sagt að ég tel alveg sjálfsagt og eðlilegt að þar sem þessi skattlagning veldur augljósum greiðsluvandræðum og fólk lendir í vandræðum vegna þess, hversu seint þessi skattlagning er á ferðinni, taki innheimtumenn ríkissjóðs tillit til slíks og semji um greiðslu skuldarinnar, en að öðru leyti verðum við að taka þetta mál til athugunar eins og alla aðra þætti skattalaganna sem við höfum hugsað okkur að endurskoða á komandi vikum og mánuðum.

Ég vil minna á að á miðju sumri ritaði fjmrn. þingflokkunum bréf og fór fram á það í fullu samræmi við yfirlýsingar, sem voru gefnar á s.l. vetri, að tilnefndir væru menn í nefnd til að gera úttekt á álagningu skatta á þessu ári. Það dróst allverulega að nefnd þessi yrði skipuð, vegna þess að beðið var eftir tilnefningum frá flokkunum í æðimargar vikur, og mér skilst að nefndin hafi ákaflega lítið starfað enn. En það á ekki neinu að breyta því að satt best að segja eru upplýsingar að berast nú á haustmánuðum. Það tekur töluverðan tíma að afla þeirra, keyra út í tölvu þær upplýsingar sem menn þurfa á að halda til að geta skoðað þessa hluti. En eitt af því, sem er þá sjálfsagt að láta athuga, er hvort líkur eru á því, að börn greiði meiri skatt samkv. nýja kerfinu en gamla kerfinu. Ég segi fyrir mig að ég á ekki gott með að átta mig á því, hvort svo sé. Mér hefur fundist, eins og sjálfsagt mörgum öðrum þm., að það væru yfirgnæfandi líkur á því, að börn greiddu minni skatta en áður, eftir að skattprósentan hefur lækkað niður í 7%, en þetta má vel vera misskilningur og er sjálfsagt að gerð sé sérstök úttekt á þessu. Ég hjó hins vegar eftir því í síðara dæminu sem fyrirspyrjandi nefndi, að þá virtust vera talsvert miklar líkur á að skatturinn væri hærri í gamla kerfinu en því nýja, en það virtist mjög fara eftir því, hvort foreldrar voru í lægsta skattþrepi eða hæsta skattþrepi.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða frekar um þetta mál. Við hljótum að gefa okkur góðan tíma til að athuga það nánar eins og marga aðra þætti í framkvæmd og álagningu skatta á þessu ári.