27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

62. mál, merkingaskylda við ríkisframkvæmdir

Flm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt með hv. þm. Sigurði Magnússyni svohljóðandi till. á þskj. 67:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að við allar nýbyggingar og meiri háttar framkvæmdir á vegum ríkisins, ríkisstofnana og við framkvæmdir, sem ríkið er a.m.k. helmingsaðili að, verði við upphaf framkvæmda sett upp skilti sem á verði skráðar upplýsingar um framkvæmdina. Slíkt skilti verði uppi allan framkvæmda- eða byggingartíma.

Félmrh. setji reglugerð um gerð slíkra skilta.“

Það er kannske rétt að taka það fram einnig, að þessi till. var flutt áður, á síðasta þingi, en fékk þá ekki afgreiðslu. Þá var meðflm. minn að tillögunni hv. þm. Guðrún Hallgrímsdóttir.

Um efni till. segjum við flm. í grg. m.a.:

„Mikið skortir á það að upplýsingar um það, sem er að gerast á vegum ríkisins, bæði í sambandi við félagslega starfsemi og framkvæmdir, séu fyrir hendi eða séu veittar á eðlilegan og aðgengilegan hátt, án þess að sérstaklega sé eftir leitað. Almenningur á sæmilega greiðan aðgang að upplýsingum um hversu mikið fé er veitt til hinna ýmsu verkefna á fjárlögum hvers árs, en upplýsingar um það, hvernig féð nýtist — í hvað fjármagnið fer, koma sjaldan fram þannig að almenningur hafi aðgang að. Þar sem mannvirki eru reist á vegum ríkisins og kostuð af almannafé er sjálfsagt að þau séu vel merkt, þannig að byggjandinn, þ.e. almenningur, sjái, hvað sé verið að framkvæma á hans kostnað, og geti fylgst nokkuð með hvernig framkvæmdum miðar áfram.“

Og enn segjum við í grg.:

„Með samþykkt þeirrar þáltill., sem hér er lögð fram, væri stigið skref í þá átt að veita á aðgengilegan og ódýran hátt nokkrar upplýsingar um framkvæmdir á vegum ríkisins, auk þess sem samþykki hennar áorkaði því, að aðrar upplýsingar, sem sjálfsagt er að veittar séu við allar framkvæmdir, hvort sem er á vegum ríkisins eða einstaklinga, kæmu fram.“

Við bendum einnig á í grg. hvernig merkingar skyldu eiga sér stað. Þar er sagt:

„Framkvæmdir má merkja með stóru og greinargóðu skilti er komið verði fyrir á áberandi stað. Upplýsingar á slíku skilti væru t.d.: Heiti mannvirkis, byggingaraðili, tilgangur, nöfn verkfræðings, arkitekts og annarra hönnuða, verktaka og stjórnenda. Kostnaðaráætlun þyrfti að sýna og geta um upphafsár framkvæmda og áfangaskipti ef um meiri háttar framkvæmdir er að ræða. Útlits- eða yfirlitsmynd er æskileg þar sem því verður við komið.“

Svo sem fram kemur í þessari grg. er það skoðun okkar flm., að upplýsingar til atmennings um framkvæmdir á vegum ríkisins séu af skornum skammti. Heyrst hefur bæði frá stjórnmálamönnum og fjölmiðlum að ekki sé nógu vel séð fyrir því, að almenningi séu veittar upplýsingar um hvað sé að ske á vettvangi hinna ýmsu stofnana framkvæmdavalds og dómsvalds. Ég man þó ekki sérstaklega eftir því, að sá þáttur, sem þessi till. fjallar um, hafi nokkru sinni verið gerður að umtalsefni á vettvangi fjölmiðla, og að mínu mati er það furðuskrýtið, að svo skuli aldrei hafa verið gert.

Þær upplýsingar, sem till. gerir ráð fyrir að veittar verði, tel ég vera svo sjálfsagðar og aðferðina til að veita þær svo auðvelda að það er reyndar furðulegt að till. sem þessi skuli ekki vera óþörf á því herrans ári 1980. Því er þó ekki að heilsa. Um það er ekki að ræða við ríkisframkvæmdir, að almenningi séu veittar þær upplýsingar sem embættismönnum bæri eðli málsins vegna að veita. Slíkar upplýsingar er þó auðvelt að veita með því að skrá helstu atriði um framkvæmdina á skilti sem sett væri á áberandi stað nærri þeim stað þar sem framkvæmdin væri í gangi.

Upplýsingaskylda og veittar upplýsingar á þessum vettvangi ættu að geta orðið til þess, að embættismenn og stofnanir ríkisins gerðu sér frekar grein fyrir því en nú virðist vera, að það er sjálfsagt og um leið nauðsynlegt að veita sem mestar upplýsingar um athafnir ríkisvaldsins og þá um leið að átta sig á því, að upplýsingar í formi skýrslna, sem stundum koma ekki fyrr en ár eða meira er liðið frá atburðum, eru gagnslitlar ef ekki er jafnframt notuð kynningaraðferð sem hægt er að beita á tímabili framkvæmda og aðgerða.

Þess er getið í grg., að auk upplýsingaskyldunnar, sem er aðalatriði þessarar till. að mati flm., gæti framkvæmd hennar orðið mönnum hvatning til að stilla framkvæmdatíma í hóf. Ef upplýsingaþjónusta er innt af hendi á réttan hátt verður hún alltaf í eðli sínu gagnrýnin. Það hljóta að koma betur fram mistök og rangar ákvarðanir og um leið betur í ljós það sem vel er gert. Menn hafa þá betri aðstöðu til að meta hvort þetta eða hitt er rangt eða rétt.

Manni býður í grun að tregðan hjá embættismönnum við að veita þær upplýsingar, sem till. okkar gerir ráð fyrir, sé m.a. sú, að þeir óttist gagnrýni eða afskiptasemi umfram það sem er þegar látið er vera að upplýsa mál.

Aðrir þættir sjálfsagðrar upplýsingaskyldu ríkisins, sem þjóna ætti með því að hafa uppi áberandi skilti og merkingar, eru jafnilla ræktir af okkar embættisliði og merkingar framkvæmda og mannvirkjagerðar. Ég á þar t.d. við hinar ýmsu stofnanir ríkisins og fyrirtæki. Ríkisfyrirtæki eða stofnun er eign almennings. Oft er þar einnig um almenna þjónustustofnun að ræða. Það ætti því að vera frumskylda þeirra manna, sem taka að sér að stjórna þessum stofnunum, að sjá um að almenningur, eigendurnir, viti um tilvist þessara stofnana, bæði þeir, sem þurfa að njóta þjónustu þeirra og hafa viðskipti við þær, og einnig þeir, sem eiga að njóta þeirra réttinda einna að vita um tilvist þessara félagslegu stofnana.

Annað atriði, sem að þessum þætti lýtur, er sú staðreynd, að ríkisgeirinn í þjóðfélagi okkar, þjónustu- og atvinnurekstur ríkisins, á ekki að vera í felum. Við eigum að vera stolt af því, hvað við höfum kosið að hafa marga þætti á vegum samfélagsins, og við eigum að hafa fulla einurð á því að láta bera á þessum samfélagslega þætti í þjóðfélaginu, — engu síður að láta bera á honum en þætti einkaframtaksins. En það hefur ekki verið gert, nema síður sé. Þennan þátt, þótt mikilsverður sé, legg ég ekki höfuðáherslu á hér, heldur hitt, að sjálfsagðar upplýsingar séu veittar og séu aðgengilegar um starfsemi og stofnanir ríkisins.

Það þarf ekki langt að fara hér í höfuðborginni til þess að á vegi manns verði ómerkt eða lítið merkt ríkisstofnun. Það er næstum sama hvers eðlis stofnunin er, lítillætið er næstum alls staðar jafnmikið. Þetta bendir til áhugaleysis á viðskiptavinunum eða þeim sem þjónustu skulu njóta frá stofnuninni. Þarna skal þó undanskilja bankana og fáar stofnanir aðrar.

Nokkrar stofnanir hafa sett upp málamyndaskilti í glugga eða útihurð eða við inngang, oftast ólesanleg nema komið sé mjög nálægt. Mætti ég nefna Orkustofnun, Vegagerð ríkisins og sum ráðuneyti. Hitt vill þó verða reglan, að hafa enga merkingu, t.d. aðalstöðvar Pósts og síma. Þar er aðeins merking sem bendir á venjulega símaafgreiðslu. Að þar séu aðalstöðvar eins stærsta, ef ekki stærsta fyrirtækis landsins, miðað við starfsmannatölu, er erfitt að hugsa sér. Ráðuneyti í Arnarhvoli og víðar eru ómerkt, Skipulag ríkisins, húsameistaraembættið og svona má næstum endalaust telja. Ef farið er er upp á Akranes ber þar fyrir augu eitt stærsta iðnfyrirtæki á Íslandi sem er að fullu í eigu Íslendinga. Slíkt fyrirtæki hlýtur að vera merkt. Svo er þó ekki. Á því eru engar merkingar. Ég á þar við Sementsverksmiðju ríkisins. Ef farið er dálitið lengra norður og vestur að Hvanneyri, höfuðmenntasetri á sviði landbúnaðar á Íslandi og ýmissar annarrar landbúnaðarstarfsemi, er engar upplýsingar að sjá um staðinn né starfsemina.

Svona má lengi telja. Ég vona að hv. alþm. séu mér sammála um að þarna þurfi að verða breyting á með því að sett verði upp skilti við eða á ríkisstofnun með heiti stofnunar og í sumum tilfellum upplýsingum um þá starfsemi sem þar fer fram.

En þess ber einnig að geta sem vel er gert. Í þessum efnum tel ég að ein ríkisstofnun sé til fyrirmyndar, en það er Landsspítalinn. Merkingar á lóð Landsspítalans eru mjög greinargóðar, vel staðsettar og auðveldar aflestrar.

Till. okkar fjallar um merkingar nýbygginga og framkvæmda ríkisins. Þegar á annað borð er farið að fjalla um upplýsingaskyldu vakna ýmsar spurningar og í þessu sambandi þessi: Er það ómaksins vert að skylda aðila til upplýsingaþjónustu á þessu sviði meðan vitað er að það er látið ógert á mörgum öðrum sviðum þjóðfélagsins? Till. er flutt í þeirri trú, að svo sé. Hún er jafnframt flutt í þeirri trú, að með samþykkt og framkvæmd hennar komi annað á eftir, sumt af sjálfu sér, annað vegna aukins þrýstings frá almenningi, sem vonandi gerir sig ekki í framtíðinni ánægðan með það, að legið sé á sjálfsögðum upplýsingum um starfsemi ríkisins, t.d. í þeim tilvikum, sem ég hef hér nefnt, og ýmsum öðrum þáttum sem ber að upplýsa um, t.d. réttindi í tryggingalöggjöf o.fl.

Við töldum því ekki rétt að tengja þessa till. skyldumerkingu ríkisstofnana né upplýsingaskyldu á víðara sviði, heldur að sjá hverju fram yndi ef þessi till. yrði samþykkt, sem ég vona að hv. alþm. veiti stuðning til, og þá að sjá hvernig til tækist með framkvæmd hennar.

Herra forseti. Ég hef lokið framsögu minni fyrir þessari till. og legg til að henni verði að lokinni umr. vísað til atvmn.