27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

117. mál, undirbúningur almennra stjórnsýslulaga til að auka réttaröryggi

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég var satt að segja farin að hafa samviskubit af því að tala hér yfir svo mörgum tómum stólum, en var jafnframt þakklát þeim fáu hv. þm. sem sitja hér í salnum og voru viðmælendur mínir í þessu sambandi. Hafi mér ekki tekist að koma því til skila, vil ég taka fram að ég var að rökstyðja nauðsynina á því að setja slík lög með tilteknum skýrum ákvæðum. Þá vil ég, um leið og ég þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir undirtektir hans við þá hugmynd sem hér liggur að baki, skýra það fyrir honum og öðrum hv. þm., að ég tel mikla þörf á því að slík lög séu sett hér á landi. Orðalag þessarar till. er, eins og ég vék að í upphafi máls míns áðan, varfærnislegt, og til að segja það berum orðum, þá er tilgangurinn sá að fá hv. alþm. til að samþykkja till. Ég efast ekki um hvað á eftir fer, því að ég hygg að þeir, sem athuga þetta mál, komist æ betur að þeirri niðurstöðu, að það verði að setja viss almenn ákvæði í stjórnsýslulög hér á landi um meðferð máls fyrir stjórnvöldum. Það þarf að setja ákvæði um rannsóknarskyldu stjórnvalda, um andmælarétt aðila, um vanhæfni stjórnvalds, um rökstuðning ákvörðunar. Allt þetta eru atriði sem eru mjög mikilvæg að þessu leyti. Og ég þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir spurningu hans, því að hún gaf mér tækifæri til að draga þessi atriði saman og leggja á það áherslu, að ég er persónulega þeirrar skoðunar, að slík lög séu einstaklingum á Íslandi nauðsynleg.