27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

132. mál, bætt nýting sjávarafla

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Það er nú orðinn árlegur viðburður að till. sé flutt um bætta nýtingu sjávarafla hér í Alþingi, og það er sannarlega ekki að ástæðulausu. Þetta er varanlegt vandamál og því ástæða til að athuga það.

Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni, að þetta er mál sem þarf að skoða í heild. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er orðin gífurleg breyting í veiðitækni, t.d. um borð í skuttogaraflota okkar. Þegar þeir fara að veiða með flotvörpu taka þeir hal sem eru kannske allt upp í 30–40 tonn. Það segir sig sjálft, að þeir fáu menn, sem þarna eru um borð, eru ekki búnir að ganga frá þessari veiði fyrr en að alllöngum tíma liðnum. Þá er þess líka að gæta, að það eru takmörk fyrir því, hve mikið þessi skip framleiða af ís á hverjum sólarhring, og af því leiðir einnig, að þau geta ekki gengið frá þessum afla sem skyldi.

Eins er hitt, að enginn vafi er á því, að margir netabátanna nota of mikið af veiðarfærum, þeir eru með of mikið af netum úti. Þar skortir mjög á eftirlit, að fylgst sé með því, hver veiðarfæranotkunin er. Þó að ákveðnar reglur séu settar er þeim ekki framfylgt.

Síðan getum við ekki gengið fram hjá því, að eðli fiskveiðanna er það, að fiskurinn gengur hér í sterkum göngum og aflinn berst á stuttum tíma. Hjá því verður ekki komist að mikið berist á land, svo að ég held að frystihúsin og fiskvinnslustöðvarnar komist seint hjá því að taka heldur meira inn en þær geta afkastað, a.m.k. sama daginn. Og það er óhætt að segja það, að hér hefur orðið gífurleg framför í því að geyma hráefnið í landi frá því að það berst í land og þar til það fer til vinnslu. Ég er því ekki sannfærður um að mesta vandamálið sé endilega hjá fiskvinnsluhúsunum. En þar fyrir ber ekki að gera lítið úr þeirri þróun sem orðin er nú á seinni árunum með uppbyggingu togaraflotans og sérstaklega á minni stöðum þar sem kannske einn skuttogari er og lítið frystihús. Þar hlýtur það að leiða af sjálfu sér, að stefnt er að því að láta aflann af skipinu duga meðan það er úti í næsta túr, svo að síðasti fiskurinn, sem unninn er hverju sinni er orðinn æðigamall í geymslu, fyrst um borð í skipi og síðan í vinnsluhúsinu. Þetta er aftur á annan veg hjá þeim húsum sem þannig eru búin, að þau vinna bæði frystan fisk, saltfisk og skreið. Þau ættu í flestum tilvikum að geta skilað betri vöru.

Við megum heldur ekki gleyma því, að hér við Ísland er misviðrasamt og hjá því verður aldrei komist að fiskveiðarnar verði fyrir talsvert miklum áhrifum af því og veðráttunnar vegna berist hráefnið misjafnlega gott að landi. Mér er sagt af þeim mönnum sem best þekkja til, að loðnubátunum hafi verið settar ákaflega stífar skorður s.l. vetur um veiðar á netafiski. Þeir áttu að gera að fiskinum um leið og hann kom inn fyrir borðstokkinn, ísa hann í kassa og landa honum þannig. En því miður varð reynslan sú, að þetta varð sá netafiskur sem fékk hvað verst mat af öllum þeim fiski sem barst að landi. Sannleikurinn er sá, að við vitum ekki enn þá hvernig á þessu stóð. En það er staðreynd, að það skiptir ákaflega miklu máli hvar fiskurinn er veiddur, í hvernig æti hann er og eins á hvaða tíma ársins. Stundum er fiskur þannig að það er útilokað að koma honum í sæmilegu ástandi til lands. Ég held að flestar tilraunir, sem gerðar hafa verið til að skipuleggja löndun, hafi til þessa mistekist, en þar fyrir er ekki ástæða til að gefast upp.

Það er rétt, að því miður hefur framleiðsla okkar heldur versnað. Gæði hennar eru ekki lengur sem skyldi. Til þess liggja margar orsakir og þá ekki síst einmitt þessi, að fiskurinn, sem er unninn hjá frystihúsum sem byggja fyrst og fremst á einum togara, er alltaf orðinn gamall og því lélegur. Við megum ekki gleyma því, að nú mætum við í flestum tilvikum mjög aukinni og harðnandi samkeppni, ekki síst frá Kanadamönnum og öðrum Evrópuþjóðum. Það þýðir náttúrlega um leið að kaupendur gera mun stífari kröfur en áður var og þess vegna liggjum við miklu betur við höggi frá þeim. Það er alltaf erfiðara að vinna á kaupendamarkaði eins og nú er. Það er staðreynd, að framboð er meira en eftirspurn og því gera kaupendurnir miklu harðari kröfur um gæði en áður var.

Vissulega er ástæða til að skoða þetta mál. Ég held að þurfi að skoða það alveg frá byrjun til enda og gera sér grein fyrir því, hvar veilurnar eru. En ég er ekki viss um að mestu veilurnar sé að finna í fiskvinnslustöðvunum. Ég held að margar þeirra hafi náð þeim árangri í meðferð á fiski og þeirri nýtingu sem við er að búast og til er hægt að ætlast, en það verði að leita að uppruna þessa vanda í mjög mörgum tilvikum annars staðar.