27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

132. mál, bætt nýting sjávarafla

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið í máli hv. þm. Ólafs Þórðarsonar, að mikið af þeim vandamálum, sem nú eru uppi, stafar af fiskveiðistefnunni.

Það er auðvelt að tala um að samræma veiðar, vinnslu og markað, en það er miklu erfiðara að framkvæma það. Þá hlýtur fyrst og fremst að verða að ganga út frá markaðinum sem byrjunarþætti, og það er oft ansi erfitt að sjá fyrir þær sveiflur og þá þróun sem þar á eftir að verða.

Ég er að vísu sammála honum um það, að æskilegt væri að hætta skæklatogi og átökum. En við skulum gera okkur grein fyrir hvert stefnir í sambandi við fiskveiðarnar og fiskvinnsluna. Við vitum að flotinn er of stór, fiskvinnsluhúsin eru mörg og afkastamikil, en hráefni of lítið, fiskframboðið of lítið. Þess vegna er staðreynd, að við megum einmitt búast við auknu skæklatogi og auknum átökum milli landshluta.

Það kom fram hjá hv. frummælanda, að sjávarútvegurinn væri ekkert vandamál og það væri mikið um það, að skip lönduðu ekki í heimahöfnum. Ef við viljum skoða þetta af sanngirni er það staðreynd, að þetta hefur breyst gífurlega á seinni árum. Það er hreint ekki orðið mikið um það, að skip landi ekki einmitt í heimahöfnum. Ég held að allflestir skuttogarar landi einmitt í heimahöfn, að svo miklu leyti sem þeir landa þá ekki erlendis, en það hefur auðvitað alltaf viðgengist. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að sjómennirnir hafa æðisterk ítök og áhrif um það, hvar skipin landa. Síðasta dæmið er það sem gerðist fyrir fáum dögum, að það átti að snúa við síldveiðibáti, sem var á leið til Danmerkur, og láta hann landa hérna heima. En mannskapurinn neitaði og því hélt báturinn áfram og selur nú fyrir það lága verð sem þar er verið að selja fyrir.

Að það sé feimnismál að athuga ástand frystihúsa í landinu er eins mikill misskilningur og frekast getur verið. Ég hygg að fá fyrirtæki hafi verið eins mikið athuguð af almannavaldinu og einmitt frystihúsin. Það hefur verið gerð hver könnunin og athugunin á eftir annarri einmitt á frystihúsum og ástandi þeirra í landinu. Það eru til stórar og þykkar skýrslur og bækur um þetta frá Framkvæmdastofnun, og þar getur hver einasti maður, sem vill, kynnt sér ástand frystihúsa að segja má hvar sem á landið er litið.

Að fyrsta flokks þorskur eigi frekar að fara í frystan fisk en skreið og saltfisk er svolítill misskilningur. Ég held að fisk verði yfirleitt að vinna í þá afurð sem gefur bestan arð á hverjum tíma og skilar sem bestri útkomu. Að hann skuli endilega fara í einhverja eina vinnslu öðrum fremur er algjör misskilningur. Það hlýtur að byggjast á söluverði og þeirri nýtingu og þeim arði sem hann skilar hverju sinni.