02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

343. mál, raforka til húshitunar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég ætla að svara fsp. hv. þm. Lárusar Jónssonar varðandi raforku til húshitunar, en eins og fram kom hjá honum er fsp. svo hljóðandi:

„Hefur dregið úr eftirspurn eftir raforku til upphitunar húsa á veitusvæðum RARIK síðustu mánuði? Ef svo er, hver er ástæðan að mati rn.?

Eru dæmi þess, að húshitun með raforku sé dýrari en með olíu eftir að olíustyrkur er dreginn frá upphitunarkostnaði, miðað við núgildandi verð á olíu og rafmagni?“

Til svars við þessari fsp. vil ég upplýsa eftirfarandi um verðlagningu raforku til húshitunar hjá Rafmagnsveitum ríkisins:

Um skeið var við það miðað, að verð á raforku til húshitunar fylgdi verði olíu til húshitunar að frádregnum olíustyrk. Þessu var hins vegar breytt þannig að á raforku til húshitunar var látin koma sama hækkun og á aðra gjaldskrárliði, en raforkan ekki látin fylgja olíuverðshækkunum sjálfkrafa. Gerðist það fyrst á miðju ári 1979. Í framkvæmd hefur þetta verið þannig, að verð raforku breytist ekki á sama tíma og olíuverð og hafa hækkanir á raforkuverði að jafnaði komið til seinna en hækkanir á olíuverði.

Eins og kunnugt er miðast greiðslur olíustyrkja við fjölskyldustærð, en ekki raunverulegan kyndingarkostnað húsráðenda, og er samanburður olíuverðs, að frádregnum olíustyrk, og raforkuverðs nokkrum erfiðleikum bundinn. Hefur verið við það miðað, að kostnaður fjögurra manna fjölskyldu, sem býr í 400 rúmmetra húsi, væri sambærilegur með olíu og raforku. Með samþykkt laga um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar á s.l. vori var olíustyrkur slíkrar fjögurra manna fjölskyldu aukinn nokkuð og var raforkuverð þá sambærilegt við kyndingarkostnað með olíu þegar tekið hafði verið tillit til olíustyrkja. Þegar ég segi „sambærilegt“ er við átt að það var nánast hið sama á þeim tíma þegar þessi upphæð var ákveðin miðað við þessar forsendur. Síðan hafa orðið breytingar á olíuverði og raforkuverði og hefur raforkuverð hækkað minna en olíuverð síðan í vor. Eftir breytingar á verði og gjaldskrám í nóvember er talið að kynding með raforku sé allt að 23% ódýrari en kynding með olíu að frádregnum olíustyrk.

Fyrri liður fsp. var þannig: „Hefur dregið úr eftirspurn eftir raforku til upphitunar húsa á veitusvæðum RARIK síðustu mánuði? Ef svo er, hver er ástæðan að mati ráðuneytisins?“

Samkvæmt upplýsingum frá Rafmagnsveitum ríkisins er talið að dregið hafi úr eftirspurn eftir raforku til upphitunar og á það sínar eðlilegu skýringar. Bent er m.a. á eftirfarandi ástæður:

1) Á ýmsum þeim stöðum, þar sem rafhitun er mikil, er þegar komin rafhitun í 60–70% húsa. Það ræðst af ýmsum ástæðum hvenær þau hin eldri hús, sem eftir eru, sækja um rafhitun. Kostnaður við að breyta kynditækjum yfir í rafhitun er verulegur og ráðast menn helst í slíkar breytingar þegar kynditæki eru úr sér gengin. Flest ný hús á slíkum svæðum sækja um rafhitun. Er raunar gert ráð fyrir að slík skipti verði á orkugjöfum í samræmi við lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, en gert er ráð fyrir nokkrum aðlögunartíma þar að lútandi.

2) Þess er að geta, að á ýmsum þéttbýlisstöðum, þar sem áður var gert ráð fyrir rafhitun, er nú unnið að eða er til athugunar að leggja hitaveitur eða varmaveitur kyntar með raforku og svartolíu, svokallaðar fjarvarmaveitur. Þessir staðir eru m.a. Egilsstaðir, Höfn, Seyðisfjörður, Þorlákshöfn, Hella, Hvolsvöllur, svo og Ólafsvík, Stykkishólmur og raunar fleiri. Þegar framkvæmdum er lokið við varmaveitur á þessum stöðum hafa verið settar á stofn varmaveitur á flestum stöðum á landinu með fleiri en 1000 íbúa og mörgum þar sem íbúar eru færri. Segja má því að þéttbýlisstaðir með rafhitun séu fyrst og fremst hinir fámennari staðir.

Þá er spurt: „Eru dæmi þess, að húshitun með raforku sé dýrari en með olíu eftir að olíustyrkur er dreginn frá upphitunarkostnaði, miðað við núgildandi verð á olíu og rafmagni?“

Því er til að svara, að eins og vikið var að hér á undan miðast greiðsla olíustyrks við fjölskyldustærð, en ekki beint við raunverulegan kyndingarkostnað viðkomandi húsnæðis. Þegar um er að ræða fámennar fjölskyldur í húsnæði sem er tiltölulega dýrt að kynda er kyndingarkostnaður að frádregnum olíustyrk tiltölulega hærri en hjá stórum fjölskyldum í húsnæði sem ódýrt er að kynda. Þessi kostnaður er að sjálfsögðu háður aðstæðum. Þannig er vafalaust hægt að finna dæmi um að verð á raforku og hitaveitu sé hærra en olíukynding að frádregnum olíustyrkjum þegar um óhagstæða fjölskyldustærð er að ræða með tilliti til þessa og óhagstætt húsnæði.

Með samþykkt laga um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar var dregið nokkuð úr áhrifum fjölskyldustærðar á olíustyrki, auk þess sem niðurgreiðslur voru auknar verulega. Þá hafa breytingar á verði olíu og raforku ekki orðið samtímis. Frá ágúst 1979 hefur verð gasolíu hins vegar hækkað um 54%, en verð raforku um 30%.

Eins og af framansögðu sést er samanburður erfiðleikum bundinn og háður aðstæðum einstaklinga. Má raunar segja að það er fyrst og fremst í litlu húsnæði, þar sem íbúar eru tveir eða fleiri, leiða má líkur að því, að slíkir aðilar geti talið sér hagkvæmt að búa við olíukyndingu miðað við núverandi kerfi. Raforkuverð er hins vegar nú til muna lægra en olíuverð að frádregnum olíustyrk, en komið geta til einstaklingsbundin tilvik þar sem innlendir orkugjafar eru dýrari en olíukynding að frádregnum olíustyrk, eins og ég hef getið um.

Að mínu mati er eðlilegt að hafa verðlagningu innlendra orkugjafa þannig að ætíð sé fyrir hendi hvati til að taka þá fram yfir innflutta orku miðað við sambærilegar aðstæður.

Þótt ótvíræð nauðsyn sé á að hlaupa undir bagga með þeim, sem búa við hina dýru olíukyndingu, má ekki ganga of langt í þeim efnum, eins og tillögur komu raunar fram um í þinginu í fyrravetur þegar menn voru með hugmyndir um að fara út í að greiða olíuna niður um allt að 60% eða þar um bil. Segja má að með ákvörðunum um upphæð olíustyrkja samkvæmt lögum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar hafi verið teflt á tæpasta vað með niðurgreiðslu á olíu, en síðan hefur dregið verulega sundur með kostnaði við olíukyndingu og rafhitun þannig að það eitt út af fyrir sig getur verið nokkurt áhyggjuefni af öðrum forsendum. Ef litið er til þjóðhagslegra æskilegra fjarvarmaveitna t.d. kemur í ljós að raforkuverð er nú í lægsta lagi til að þær geti borið sig án meðgjafar, en að því lýtur raunar önnur fyrirspurn sem hét er á dagskrá og ætla ég ekki að fjölyrða um það.

Fyrirspyrjandi vék að því í máli sínu áðan, hvort ekki ætti fremur að gera eitthvað í málefnum Rafmagnsveitna ríkisins en að lækka að tiltölu olíustyrkina, eins og raunar hefur gerst síðan þeir voru ákveðnir á s.l. vori. Ég ætla ekki að fara að lengja mál mitt með því að rekja þær mörgu aðgerðir sem verið hafa í gangi og eru í gangi til að efla og bæta stöðu Rafmagnsveitna ríkisins. Þar er sem sagt unnið að mörgum þáttum, en það hefur komið fram í nýlegri greinargerð, sem ég hef fengið frá til kvöddum aðilum, að sé litið á tilkostnað við orkuöflun vegna rafhitunar sé verðlagning á raforku til húshitunar nokkuð undir þeim kostnaði sem fer í orkuöflunina og hafa verið nefnd 17% í því sambandi — Ég vil benda á að forsendur í sambandi við slíka útreikninga hljóta að vera matsatriði, og ég vil ekki segja að sú tala sé óyggjandi, síður en svo, en þetta vildi ég að kæmi hér fram.