02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

343. mál, raforka til húshitunar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans sem voru skýr og greinargóð. Í þeim kom fram að það hefur verið á ferðinni visst vandamál í framkvæmd olíustyrkja sem í sumum tilvikum, eins og hann komst að orði, hafa dregið úr eftirspurn eftir innlendum orkugjöfum, en þó einungis í undantekningartilfellum. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta hefur ekki orðið verulegt vandamál þó að í það hafi stefnt á tímabili.

Ég vek enn athygli á því, að hæstv. ríkisstj. hugsar sér á næsta ári að innheimta 13 milljarða kr. í almenna skattheimtu af öllum landslýð með svokölluðu orkujöfnunargjaldi, en ætlar að greiða til baka 5 milljarða í olíustyrki af þessu fé og einungis að leggja 1.5 milljarða í svokallaðar félagslegar framkvæmdir hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Ég vil ítreka þá skoðun mína, að hér hljóti að vera pottur brotinn. Það er augljóst mál að það er ekki réttlætanlegt að taka þannig 8.5 milljarða til almennra þarfa ríkissjóðs í orkujöfnunargjald af fólki, en haga þannig þessum málum að ekki renni nema þessir 6.5 milljarðar til olíuniðurgreiðslu og til að laga rekstrarstöðu Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég held að þarna sé helst pottur brotinn í stefnu hæstv. ríkisstj. á þessum sviðum. Látum vera að það sé réttlætanlegt, að niðurgreiðsla á olíu hækki ekki nema um 25% milli áranna 1980 og 1981 þrátt fyrir yfir 50% verðbólgu. En þá væri heiðarlegra og eðlilegra af hæstv. ríkisstj. að leggja í meira mæli þá fjármuni, sem hún ætlar að innheimta af landslýð í orkujöfnunargjald, til þarfa Rafmagnsveitna ríkisins og gera þannig innlenda orku hagkvæmari fyrir fólk til að hita upp híbýli sín.