02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

343. mál, raforka til húshitunar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en vegna orða, sem hér hafa fallið varðandi niðurgreiðstu á olíu, vil ég ítreka að í þessu efni verða menn að fara að með nokkurri gát og hafa auga á verðlagningu á innlendum orkugjöfum og hvað það kostar að koma innlendri orku í gagnið, þ. á m. hitaveitum, jarðvarmaveitum. Það er ekki svo, að orkan fljóti sjálfkrafa upp úr jörðinni þar sem menn þurfa á að halda. Það er a.m.k. óvíða svo. Þar er því um verulegan kostnað að ræða. Það er með auga á þessu sem við hljótum að taka á þeim málum sem varða jöfnun á húshitunarkostnaði.

Samanburður við gamlar og mjög arðbærar hitaveitur er ekki eðlilegur í þessum efnum eða getur ekki verið ráðandi, — mér liggur við að segja: því miður. Ef þarna væri gengið eitthvað til muna lengra en nú er hlyti að draga til þess, að menn yrðu að fara að greiða niður hina innlendu orkugjafa. Það ráku menn sig einmitt á þegar farið var ofan í þessi mál hér, m.a. í hv. fjh.- og viðskn. Nd., í fyrra þegar frv. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar var til meðferðar, að þarna þurfti að gæta sín í sambandi við ákvörðun um þessi efni. Ég held að það detti engum í hug að fara að mæla með því, að við tökum upp allsherjarniðurgreiðslu á innlendum orkugjöfum, þar sem verið er að taka þá í gagnið þar sem verulegur kostnaður er, þó að það geti komið til álita í einstöku tilviki að brúa það bil, ég vil ekki neita því.

Varðandi upphæð olíustyrksins eru menn að tala um að olíustyrkurinn sé allt of lágur, og það er eflaust þannig séð frá sjónarhóli þeirra sem þurfa að greiða olíuna. Hverjum húseiganda eða því fólki, sem undir þessum kostnaði stendur, þykir vissulega nóg um sem eðlilegt er. En sumir þeir, sem hér töluðu áðan, stóðu fyrir því í tíð ríkisstj. 1974–1978, að verðgildi olíustyrks rýrnaði stórlega á þeim tíma. Haustið 1978 var svo komið að olíustyrkur var aðeins 2600 kr., en síðan s.l. vor er hann um 20 þús. og veitti út af fyrir sig ekki af að bæta þar mjög verulega við.

Eitt efni er það sem rétt er að nefna í þessu sambandi, og það er þörfin á orkusparnaði og alveg sérstaklega á einangrun húsnæðis. Sem betur fer hefur Húsnæðisstofnun ríkisins nú tekið upp lán í þessu skyni, að vísu mjög takmörkuð á þessu ári, en við þau verður aukið, að mér er tjáð, verulega á komandi ári og það er alveg sérstök nauðsyn á slíku. Ég vænti að á því verði hert.

Það var fundið að því af hv. fyrirspyrjanda áðan, að orkujöfnunargjaldið skilaði sér ekki í því skyni sem nafn þess bendir til. Það var gert ráð fyrir því með þessum lögum, að þetta gjald rynni í ríkissjóð, og þegar það var samþykkt var ljóst að aðeins hluti þess kæmi til ráðstöfunar í sambandi við þessi efni með beinum hætti. Fyrir utan þann 61/2 milljarð, sem hann nefndi, er auðvitað hægt að rifja það upp, að ríkissjóður stendur undir stórfelldum greiðslum sem lúta að því að koma innlendum orkugjöfum í gagnið. Má þar m.a. nefna fjármagnskostnaðinn af byggðalinunum sem menn geta lesið sér til um hver er áætlaður á næsta ári í fjárlagafrv.