02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Kjarni þessa máls er sá, að á þeim tíma, sem nú er liðinn af árinu, og 1979 hefur íslenska þjóðin orðið fyrir stórfelldu áfalli af hækkuðu verði innfluttra olíuvara, og það er auðvitað fásinna og fjarstæða að ætla sér að horfa fram hjá því og segja: Þetta er enginn vandi, þetta er einfalt mál við að glíma. Ástæðan fyrir því, að kaupmáttur launa hefur rýrnað, sem ég dreg enga dul á og dettur ekki í hug, er fólgin í því, að viðskiptakjör þjóðarbúsins, að tekjur þjóðarbúsins hafa rýrnað frá því sem var.

Hv. þm. rakti hér nokkur atriði í þessum efnum og ég vil stuttlega víkja að því.

Hann talaði um kaupmátt þjóðartekna á mann. Það er rétt að kaupmáttur þjóðartekna á mann hefur aukist um 6.3% frá 1976. Það er eitt af heilum valdaárum ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann á sama tíma hefur aukist um 16.5% og kaupmáttur kauptaxta hefur á sama tíma aukist um 13.9%. Það liggur einnig fyrir, að á áratugnum 1970–1980 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna hér í landinu á bilinu 50–60%. Þessar staðreyndir liggja hér fyrir og þær sjá allir heilskyggnir menn sem kunna að lesa sig fram úr talnadálkum.

Varðandi það atriði, hvort Alþb. hafi svikið það loforð að setja samningana í gildi, þá vísa ég því algerlega á bug. Fyrsta verk vinstri stjórnarinnar haustið 1978 með lögum um kjaramál frá 1. sept. 1978 var fólgið í því að afnema lögin frá í febr. og frá í maí 1978. Það var 1. gr. fyrstu laga þessarar ríkisstj. Hún stóð fast við það fyrirheit, að kaupránslögin voru afnumin og samningarnir settir í gildi að öllu öðru leyti en því, að hæstu laun opinberra starfsmanna báru samkv. þessum lögum, eins og menn muna, nokkuð skertar verðbætur. Að öllu öðru leyti voru samningarnir settir í gildi. Síðan gerist það, að teknar eru um það ákvarðanir að breyta nokkuð verðbótaútreikningi með tilliti til áfengis og tóbaks og launaliðar bóndans í vísitölunni, það er tekin ákvörðun um að taka tillit til versnandi viðskiptakjara við útreikning verðbóta á laun og það er tekin ákvörðun um að hækki olíustyrkur með óbeinni skattlagningu af einhverju tagi eigi það ekki sjálfkrafa að hafa í för með sér kauphækkanir í landinu.

Þetta er það sem hefur gerst. Þetta eru staðreyndirnar sem liggja fyrir í málinu.