02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að fagna því, að hv. formaður Sjálfstfl. hefur skilning á vanda þjóðarbúsins eða a.m.k. lýsti hann því yfir áðan. Ég skal til samkomulags við hann láta það koma hér fram, þannig að það sé á hreinu af minni hálfu, að auðvitað var vandi þjóðarbúsins mikill á þeim árum sem hann nefndi. En af hverju stafaði sá vandi á árunum 1974 og 1975? Hann stafaði af stórfelldum olíuverðshækkunum sem rýrðu mjög viðskiptakjör þjóðarbúsins. Hins vegar vil ég minna hv. þm. á það, vegna þess að ég var sæmilega samviskusamur blaðalesandi á þessum tíma, að einkamálgagn hans, Morgunblaðið, hélt því mjög stíft fram á miðju ári 1974, um það leyti sem vinstri stjórnin var að fara frá, að sá vandi, sem þá væri við að glíma vegna olíuverðshækkananna, væri „smámunir.“ Ég man vel eftir þessu orði sem var notað í ákveðnum greinum í Morgunblaðinu á þeim tíma.

Staðan er sú sem ég lýsti hér áðan varðandi Ólafslög, og það er ljóst hverjir bera ábyrgð á þeim. Alþb. var aðili að þeirri ríkisstj. og mér dettur ekki í hug að víkjast undan ábyrgð á þeim stjórnarathöfnum frekar en öðrum. Á það vil ég hins vegar leggja ríka áherslu, að kjarasamningar hafa nú verið gerðir þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að verðbótaákvæði Ólafslaga séu í rauninni í gildi áfram samkvæmt þeim samningum sem nú hafa verið gerðir.