02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vonast til þess að hv. þm. hafi tekið eftir því, að hæstv. félmrh. sagði að það hefði verið allt í lagi að svíkja kosningaloforðið „samningarnir í gildi“ með Ólafslögum vegna þess að sú skerðing hefði verið staðfest með samningum verkalýðsfélaga og vinnuveitenda nú á dögunum. Þetta var afsökun hans fyrir undangengnu samningsloforðabroti um „samningana í gildi.“

Ég vildi vekja athygli á þessu og leyfi mér, herra forseti, að bæta því við, að hæstv. ráðh. eða félagi hans, hæstv. fjmrh., sagði í upphafi árs að það væri ekki grundvöllur fyrir grunnkaupshækkanir á þessu ári. Nú segir hæstv. félmrh. að hækkanir samkvæmt síðustu samningum eigi að bæta kaupmátt launa frá því sem er í dag. Sannleikurinn er sá, að Þjóðhagsstofnun spáir 5% kaupmáttarrýrnun frá þessum tíma til sama tíma næsta ár. Þessir samningar bæta því miður ekki kaupmáttinn.

Og hvað er ríkisstj. núna að fjalla um? Hún er að fjalla um hvort hleypa eigi út í verðlagið 20% hækkun landbúnaðarvara eða hvort eigi að reyna að blekkja sjálfa sig með auknum niðurgreiðslum. Ég held að hæstv. félmrh. geti ekki sannfært einn eða neinn um að kaupmáttur launa sé aðaláhugamál hæstv. ríkisstj. sem með aðgerðaleysi sínu horfir fram á sífellt rýrnandi hag launþega í landinu.