02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan að núverandi hæstv. ríkisstj. hefði foraktað þá sem sóttu Alþýðusambandsþing. Þetta er ekki rétt. Ég er að vísu ekki vanur að taka upp hanskann fyrir ráðh. hæstv. núv. ríkisstj., en ég get ekki gert annað nú því að hæstv. félmrh. kom í þinglok og bauð þingheimi öllum upp á miklar og góðar veitingar. Sjálfur efa ég ekki að gæðin hafi verið að skapi þeirra sem þar voru. Alla vega leyndu áhrifin sér ekki.

En mér þykir það merkileg yfirlýsing sem kom frá ráðh. varðandi þá staðreynd, að í raun hafi verið samið um Ólafslög í síðustu samningum, það hafi í raun verið staðfest af samningsaðilum íslenskrar verkalýðshreyfingar að þau ættu að standa eins og þau eru í íslenskum lögum í dag. Þessari fullyrðingu hæstv. ráðh. ber ekki saman við alla fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar sem komu á síðasta Alþýðusambandsþing. Það voru þó nokkur atkvæði á móti því í þingbyrjun á sínum tíma þegar örfáir voru mættir til leiks og gluggapússarinn franski fékk sín meðmæli og sína áskorun samþykkta. En það var hins vegar samþykkt einróma af nær öllum þingfulltrúum að skora á hæstv. ríkisstj. og Alþ. að fella niður umrætt ákvæði í Ólafslögum.

Hér hefur verið minnst á, að hæstv. ríkisstj. hafi lofað að hafa fullt samráð við verkalýðshreyfinguna, og Alþb. að minnsta kosti og ég held Framsfl. líka hafa jafnframt lofað því að ekkert yrði gert nema rætt yrði við þau samtök og haft fullt samráð. Er það hluti þess samráðs að ætla sér að ganga alveg á móti þeim vilja meginþorra allra launþega á Íslandi sem kom fram í þessari samþykkt þeirra á síðasta Alþýðusambandsþingi? Ég spyr.