02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

90. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég tek undir mikilvægi þess að hefjast handa í þeim efnum sem fsp. fjallar um, en ég kveð mér hér hljóðs eingöngu vegna þeirra orða hæstv. ráðh., að hann hafi skipað nefnd til að gera athugun á samgöngumálum Vestfirðinga með tilliti til heilsugæslu. (Sjútvrh.: Meðal annars.) Meðal annars, já.

Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. samgrh., að það er kannske jafnframt og ekki síður mikilvægt að sinna heilsugæslu Vestfjarða en samgöngunum. Heilsugæsluverkefni er þannig sinnt á Vestfjörðum að fullbúin er heilsugæslustöð á Patreksfirði, en vantar að verulegu leyti öll áhöld til hennar, en á Ísafirði hafa framkvæmdir svo að segja verið stöðvaðar. Það hefur verið leikið tvö ár í röð að bjóða út fyrir þau framlög sem eru á fjárlögum þegar árið er næstum því á enda. Þar með er framkvæmdaféð látið brenna upp í báli verðbólgunnar. Og nú er svo háttað þessum málum að engu er svarað, sem fram kemur frá heimamönnum, af Innkaupastofnun ríkisins. Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. samgrh., hvort hann vilji ekki vegna þess að heilbrrh. er ekki við eða fjmrh., taka þessi mál upp í ríkisstj. og spyrjast fyrir um hvað valdi því, að framkvæmdir séu stöðvaðar með þessum hætti. Þriðja heilsugæslustöðin er á Hólmavík. Til hennar hefur ekki fengist byrjunarfé til framkvæmda nú árum saman. Vona ég að menn átti sig á því við afgreiðslu fjárlaga að svo búið má ekki standa lengur.