02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

355. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil segja það í upphafi máls míns, að ég tel ákaflega mikilvægt að ljúka sem allra fyrst þeim framkvæmdum sem hér er spurt um. Er um öryggismál að ræða sem alls ekki má dragast. Og ég vil segja það strax, að þegar ég fór yfir framkvæmdir Pósts og síma í vor lagði ég á það ríka áherslu að þessar framkvæmdir yrðu látnar ganga fyrir eins og frekast væri unnt þrátt fyrir niðurskurð sem varð að gera á framkvæmdum Pósts og síma vegna fjárskorts. Ég hef því í tilefni fsp. óskað eftir því, að Póstur og sími upplýsti hvað þessu liði, og skal svara fsp. með tilvísun til þess.

Fsp. á þessu þskj. fjallar um framkvæmd laga um tilkynningarskyldu íslenskra skipa með því að tryggja metrabylgjusamband fyrir Norðvesturlandi, Vestfjörðum og Breiðafirði, en greinist síðan í þrjár spurningar almenns og sérstaks eðlis.

Um strandstöðvar póst- og símamálastjórnarinnar almennt má segja að unnið hafi verið að endurnýjun og aukningu undanfarin ár eins og fé hefur fengist, og hefur fjöldi metrabylgjustöðva sérstaklega verið aukinn. Í ár mun fjárfestingin nema 170 millj. kr. og á framkvæmdaáætlun 1981 er gert ráð fyrir 380 millj. kr. í þessu skyni. Jafnframt þurfa altar strandstöðvar að vera útbúnar til fjarskipta á einhliða bandi fyrir árslok 1981 samkv. atþjóðasamþykktum. Stefnt er að því að auka og bæta tækjabúnað núverandi strandstöðva m.a. með fjölgun fjarstýrðra senda og viðtækja, en slíkt hefur orðið gerlegt fyrir þá aukningu sem átt hefur sér stað í símalínukerfinu um landið. Þetta má segja um hinar almennu endurbætur á þessu sviði og kemur fram í þessu svari að þær eru víðtækar.

Þörfin á endurbótum er á öllum stöðum og að því stefnt að þeim verði lokið fyrir árslok 1981. En um hin einstöku svæði, sem vikið er að í fsp., skal tekið fram að á framkvæmdaáætlun póst- og símamálastjórnarinnar fyrir 1981 er gert ráð fyrir metrabylgjustöð á Austurnúpi á Skaga, sem þjóna mun Norðvesturlandi frá Almenningum að Horni um Húnaflóa og Skagafjörð. Vegna Breiðafjarðarsvæðisins skal upplýst, að gert er ráð fyrir því og reyndar verið að ljúka við að reisa örbylgjustöð á Kleifaheiði. Hún er hluti af símalínukerfi sem mun stórauka tínufjölda til Vestfjarða. Metrabylgjustöð sú, sem nú er á Patreksfirði, mun alveg á næstunni flutt í þessa örbylgjustöð og þá mun metrabylgjusamband vera tryggt á hafsvæðinu við sunnanverða Vestfirði og á djúpmiðum Breiðafjarðar.

Ég vil jafnframt geta þess, þó ekki sé sérstaklega að því spurt, að lokaverkefnið að mati Pósts og síma í uppbyggingu slíks kerfis umhverfis landið allt, sem er stöð á sunnanverðum Austfjörðum, er einnig á framkvæmdaáætlun 1981 og mun sú stöð verða á Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð.

Í máli fyrirspyrjanda kom fram, að hann óskaði eftir sundurliðun á kostnaði við þessi einstöku verkefni. Því miður er ég ekki með hana hér, en get að sjálfsögðu aflað hennar. Ég var með heildarkostnaðartölur fyrir endurbætur á svæðinu á öllu kerfinu. Jafnframt er þess að geta, að sumt af þessu er tengt almennum endurbótum á símakerfinu, eins og t.d. stöðin á Kleifaheiði, og verður ekki aðskilið frá því. En ef hv. fyrirspyrjandi óskar sundurliðunar á kostnaðartölum er velkomið að útvega þær og get ég gert það fljótt.