22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Mig tangar aðeins að taka undir þau sjónarmið, sem komið hafa fram hjá hv. þingmönnum Lárusi Jónssyni og Salome Þorkelsdóttur, að eðlilegast sé að fella þennan skatt á börnin niður að þessu sinni. Til þess hníga mörg rök. Sum hafa komið hér fram áður beint eða óbeint. T.d. hugsuðu menn þennan skatt einungis sem staðgreiðsluskatt, skatturinn yrði greiddur um leið og tekna væri aflað. Þá gæti hann verið eðlilegur og eðlilegri en gamla fyrirkomulagið. Nú vill svo til, að þessi skattur kemur fyrst á börnin á versta árstíma og aðeins tveimur mánuðum fyrir áramót. Það eru ætlaðir um tveir mánuðir til greiðslu þessara skatta. Hann kemur á þeim tíma sem börnin eru yfirleitt farin í skóla. Þau hafa alls ekki gert ráð fyrir þessum sköttum, því að ekki hefur verið mikið um þennan barnaskatt rætt. Ég fullyrði að sárafá dæmi munu þess, að börn hafi gert sér einhverja grein fyrir því, að nú ættu þau, um leið og þau byrja á skólabekk, að fara að greiða skatta sem eru svo háir í sumum tilfellum að féð, sem börnin ætluðu sér til framfæris allan veturinn, færi að miklu leyti í þessa skatta sem koma þannig algerlega að óvörum.

Þetta er ekki mikil upphæð fyrir ríkissjóð. Mér skilst að þetta sé innan við 1/2 milljarð, þetta sé örlítið prósentubrot í hítina, þá gífurlegu skattheimtu sem sífellt fer hækkandi, enda skipulega að því unnið að færa fjármagnið frá borgurum þessa lands yfir í ríkishítina, eins og alkunna er. Það munar þess vegna lítið um þessa peninga fyrir ríkið, en það munar gífurlega mikið um þá fyrir börnin. Á því er ekki nokkur minnsti vafi.

Þetta er örlítill dropi í hafið eða kannske sá dropi sem fyllir mælinn samt sem áður, að fólkið geri sér nú grein fyrir því — margt sem áður gerði það ekki — hvert þessi stjórn stefnir í skattheimtu sinni. Hún svífst í því einskis. Svör ráðh. áðan voru nánast hártoganir: Hann gæti eitthvað kíkt á þetta, það gæti verið einhver greiðslufrestur, það kynni að vera að börnin væru færari um það á skólabekknum að greiða þetta í janúar og febrúar og mars, en þó af þeim peningum sem þau kannske eiga núna. — Þetta voru viðbrögð hæstv. ráðh. Og eins og fram kom áðan fylgist hann harla illa með eigin tölum í fjárlagafrv. og kannske ekki víð góðu að búast þess vegna.

Auðvitað á að afnema þessa skatta og gera það strax. Til þess þarf lagabreytingu og við eigum að hafa manndóm í okkur til að standa saman að þeirri lagabreytingu.