02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

355. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir, sem hér hafa tekið til máls, þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli, og ég harma um leið að aðrir, sem ætluðu að vekja athygli á málinu, voru ekki nógu fótfráir. En öll orð, sem hér hafa fallið, ber að sama brunni, að lögin um tilkynningarskyldu eru hin þýðingarmestu fyrir öryggi þeirra, sem stunda fiskveiðar hér í kringum land, og reyndar miklu fleiri aðila. Í þeim lögum var skýrt kveðið á um hvernig ætti að ná þessu markmiði þannig að tilkynningarskyldan yrði virk, og það var með kerfi slíkra stöðva sem hv. síðasti þm. gat réttilega um. Ég tek undir hans orð um það. Ég hef ekki ótrú, slíkt má ekki segja í dag, á þeim framförum sem verða í tæknimálum á hverjum degi, má segja. Það má vera að hægt sé að leysa þetta á þann hátt sem Landssíminn vill leysa það. Ég er hins vegar hræddur um að það náist ekki fyrst um sinn að leysa það sem tillögumaður að umræddri þáltill., sem talaði hér áðan, vill leysa og ætlast var til að leyst yrði með lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa.