02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Tilefni þess, að ég leyfi mér ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni að bera fram á þskj. 107 fsp. til hæstv. samgrh. um varaflugvöll fyrir millilandaflug, er að í fréttum dagblaða fyrri nokkru er sagt frá blaðamannafundi sem flugmálastjóri, Agnar Kofoed Hansen, boðaði til mánudaginn 10. nóv. s.l. Þar kom m.a. fram, að nú bæri nauðsyn til að ákveða, hvar varaflugvöllur fyrir millilandaflug skyldi vera, og hefjast án frekari tafar handa um framkvæmdir við hann. Þá er einnig greint frá því, að nefnd hafi verið kosin til að fjalla um málið og hún hafi nú skilað áliti um hvaða flugvöll bæri að velja til að gegna greindu hlutverki. Formaður þessarar nefndar er Jóhannes Snorrason yfirflugstjóri.

Í frétt Tímans 11. nóv. segir orðrétt, með leyfi forseta: „Jóhannes Snorrason sagðist persónulega hafa skrifað bæði Ragnari Arnalds og Steingrími Hermannssyni um nauðsyn þess að ákveða varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Nú væri búið að ákveða völlinn, en ýmislegt þyrfti samt að gera við hann til þess að hann væri gjaldgengur sem slíkur.“

Vegna þess sem hér er sagt frá, að búið sé að ákveða völlinn, án þess að gera nánari grein fyrir ákvarðanatöku, svo og vegna annarra atriða í fréttum þessum höfum við leyft okkur að bera fram svo hljóðandi fsp.:

„1. Hvaða aðila ber að taka ákvörðun um varaflugvöll fyrir millilandaflug, sé þess talin þörf?

2. Hefur slík ákvörðun verið tekin og ef svo er, hverjar eru meginforsendur hennar?

3. Hafi ákvörðun ekki verið tekin, er hennar þá að vænta? Hvaða staðir koma helst til greina og hver eru aðalrökin með og móti hverjum þeirra?“

Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið 23. jan. 1976, skipaði samgrh. nefnd til að gera úttekt á íslenskum flugvalla- og flugöryggismálum í heild. Nefndin skilaði skýrslu um niðurstöður sinar og tillögum til ráðh. 30. nóv. 1976. Nefnd þessi fjallaði nokkuð um hugsanlegan varaflugvöll fyrir millilandaflugið án þess þó að kveða endanlega upp úr um æskilegasta staðinn. Taldir eru upp sex hugsanlegir flugvellir, þ.e. Reykjavík, Sauðárkrókur, Akureyri, Húsavík, Egilsstaðir og Höfn í Hornafirði. Síðar í ályktuninni segir svo, með leyfi forseta:

„Fyrir stórar millilandaflugvélar, t.d. DC-8-63, koma aðeins þrír framangreindra flugvalla til greina, einkum með tilliti til aðflugsskilyrða og þróunarmöguleika flugbrauta. Vellir þessir eru Sauðárkrókur, Húsavík og Egilsstaðir (Snjóholt).“

Þá er í skýrslu nefndarinnar gerð nokkur grein fyrir veðurfarsathugunum á þessum flugvöllum og reiknað út nýtingarhlutfall sem er svo líkt að ekki er gert ráð fyrir að veðurfarsþátturinn muni hafa áhrif á val flugvallarstæðisins. Hins vegar mun áætlaður fjárfestingar- og rekstrarkostnaður flugvallarins verða algerlega afgerandi við ákvarðanatöku. Ég vek sérstaka athygli á því, að í þessari skýrslu er veðurfarsþátturinn ekki talinn skipta sköpum, sem hins vegar virðist valda mestu og e.t.v. ráða úrslitum um þá ákvarðanatöku sem nú er sögð brýn, ef dæma má af áðurgreindum blaðafréttum. Ég leyfi mér enn að vitna til fyrrgreindrar skýrslu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Gerð varaflugvallar fyrir stórar millilandaflugvélar er fyrst og fremst hagkvæmnisatriði við flugrekstur slíkra flugvéla, þ.e. hvort hagkvæmara sé að flytja aukaeldsneytisbirgðir fyrir flug til varaflugvallar í Skotlandi eða reka slíkan flugvöll á Íslandi. Nefndinni er ekki kunnugt um að fyrir liggi beiðni Flugleiða hf. eða annarra flugfélaga um gerð slíks flugvallar. Berist stjórnvöldum slík beiðni, er rétt að gerð verði nánari samanburðaráætlun um fjárfestingar- og rekstrarkostnað hinna þriggja flugvalla og sú lausn valin, sem hagkvæmust teldist.“

Þetta var úr áliti nefndarinnar sem starfaði á árinu 1976. Síðan hafa litlar umræður orðið um þetta mál, a.m.k. opinberlega, og okkur fyrirspyrjendum hefur ekki verið ljóst að málið væri á því stigi sem virðist hafa komið fram á fyrrgreindum blaðamannafundi. Með breytingum á flugvélakosti undanfarin ár hljóðnuðu þær raddir sem mesta ástæðu og þörf töldu fyrir varaflugvöllinn, og nú er útlit fyrir verulegan samdrátt í millilandaflugi, svo sem alþjóð er að sjálfsögðu ljóst eftir allar umræðurnar um vanda Flugleiða. Það kann að vera að sá vandi væri ekki alveg eins stór og raun ber vitni hefði hér á landi verið til vel búinn varaflugvöllur fyrir millilandaflugið og vélar félagsins því nýst betur, en líklegt er þó að slíkt hefði ekki skipt sköpum þar eð lendingargjöld og önnur flugvallagjöld á aðalflugvelli, þ.e. í Keflavík, hefðu orðið að vera hærri til að standa straum af rekstri varaflugvallarins.

En nú telur flugmálastjóri það eitt mest aðkallandi verkefni í flugmálum að koma upp nauðsynlegum varaflugvelli fyrir millilandaflugið. Vissulega ber að fagna því ef svo er í raun. Það hlýtur að fela í sér ákveðin fyrirheit um aukna flugumferð og umsvif í þessari starfsemi og síðan ýmsum þjónustugreinum sem af þessu leiðir. E.t.v. skapar slíkur varaflugvöllur aukna möguleika fyrir og áhuga hjá öðrum flugfélögum til að hafa viðkomu hér á landi á ferðum sínum um heiminn. Ég er ekki nógu fróður um þessi mál til að gera mér fulla grein fyrir slíku, en vissulega væri ánægjulegt ef svo væri.

Ég hef ekki séð tillögur þeirrar nýju nefndar, sem að undanförnu hefur starfað að þessum málum, en sé eitthvað að marka skýrslur nefndarinnar, sem starfaði 1976, og þær niðurstöður, sem sú nefnd komst að og ég hef vitnað til, þá virðist margt þurfa að athuga, sem varðar fjárfestingarkostnað, nýtingu, arðsemi og fleira hvað varðar hinn nýja eða væntanlega varaflugvöll, og því fróðlegt að heyra svör ráðherra.