02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér eingöngu hljóðs til að finna að fullyrðingasemi manna, sérstaklega því, að hv. þm. Helgi Seljan sagði að það þyrfti nýjan flugvöll fyrir austan hvort sem er. Það er auðvitað alger misskilningur. En ég vil segja það í þessu máli, að síðan við fengum norður-suður brautina á Keflavíkurvöll hefur þörfin fyrir annan millilandaflugvöll minnkað vegna þess að þar er hægt að lenda í 98 eða 99% tilfellum. Þau tilfelli, sem hindra lendingu þar, eru þegar við fáum sunnan- eða suðaustanátt með þoku og þá er svipuð átt fyrir norðan en þokulaus. Ef menn ætla sér að fara út í að tryggja hér varaflugvöll, þá er bersýnilegt, ef menn eru að hugsa um kostnað, að þessi flugvöllur er til á Sauðárkróki. Það þarf að lengja hann örlítið, kannske um 200 metra, en hann er til. Þar er góð undirstaða, og það eina, sem þarf að gera í raun og veru er að malbika brautina. Þarna eru þegar komin blindlendingartæki og hægt að lenda eftir þeim í báðar áttir. En gera má ráð fyrir því, að í þessum tilfellum yrði eingöngu lent til suðurs. Ég held að það sé tímaeyðsla að vera að rífast um það, hvort völlurinn eigi að vera þarna eða annars staðar, vegna þess að hann er svo gott sem til. Nýr völlur á Egilsstöðum kostar milljarða, jafnvel milljarðatugi, en það kostar 100 millj. að ganga algjörlega frá þessum velli á Sauðárkróki.