02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka þeim hv. þm. sem lögðu fram þá fsp. sem hér er til umr. Það er sjálfsagt að þessi mál verði skoðuð betur áður en endanleg ákvörðun verður tekin um það, hvar varaflugvöllurinn verði. Hitt er athyglisvert, að hver stuðningsmaður ríksstj. á fætur öðrum stendur hér upp til þess að tala um flugvallarmál, vitaskuld vegna þess að þeir finna sárt til þess, að fé til flugvallargerðar er mjög skorið niður í því fjárlagafrv. sem fyrir liggur. Þar er einungis gert ráð fyrir að gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 30% á sama tíma og fyrir liggur yfirlýsing um það frá hæstv. viðskrh., að verðbólgan á næsta ári verði í kringum 70%. Það liggur því fyrir, að framkvæmdafé verður skorið mjög verulega niður á næsta ári umfram það sem gert var á þessu ári, og það er skýringin á þessum óróleika stuðningsmanna ríkisstj. Menn leita allra bragða til þess að fá aukafjárveitingar til flugvallargerðar í sínu kjördæmi. Mér sýnist á hinn bóginn að áhugi sé nægur fyrir því hér í þingi, eftir þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar, að ná samkomulagi um að auka eitthvað það fé sem varið verður til flugvallagerðar á næsta ári, en hins vegar verði eyðsla minnkuð í staðinn. Það hefur verið höfuðeinkenni núv. ríkisstj. og þeirrar vinstri stjórnar, sem var á undan henni, að þyngja skattana til eyðslu en auka ekki framkvæmdir með ríkisfé heldur verja í sífellt auknum mæli lánsfé til framkvæmda.

Ég vona því, herra forseti, að þessar umræður megi verða kveikja að því, að þm. reyni að koma sér saman um það, hvernig megi draga úr eyðslunni, en á hinn bóginn verja meira fé til þarflegra og nytsamra og nauðsynlegra framkvæmda.