02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, að gerð verði úttekt á því, hvar sé hagkvæmast að hafa millilandaflugvöll. Það er ekki nýtt mál að slíkt sé gert. Það hefur meira að segja verið sett fjárveiting á fjárlögum í einn slíkan flugvöll, við Snjóholt á Austurlandi, og hafa verið gerðar miklar áætlanir um hvað sú uppbygging muni kosta. Mér sýnist hins vegar að það sé einmitt búið að gera þennan varaflugvöll. Það er búið að gera hann á Sauðárkróki, að mestu leyti án þess að ákvörðun hafi nokkru sinni verið tekin um það. Sannleikurinn er sá, að stjórn fjárveitinga í flugmálum á undanförnum árum hefur verið með eindæmum. Fé hefur verið veitt í ýmsar framkvæmdir, m.a. í Snjóholt, flugvöllinn á Höfn í Hornafirði og ýmsa aðra flugvelli. Síðan hefur þetta fé verið notað eftir því sem viðkomandi stofnun hefur þótt sér best henta hverju sinni og án þess að þm. eða Alþingi hafi verið spurt um það. Mér sýnist í reynd, án þess að ég ætli að leggja á það nokkurn dóm — það má vel vera að það sé þjóðhagslega hagkvæmast að byggja þennan flugvöll á Sauðárkróki — að gera verði þá kröfu að slíkar ákvarðanir séu teknar, bæði í þessu tilfelli og öðrum sem snerta fjármál ríkisins, áður en viðkomandi stofnun leyfir sér að vaða út í framkvæmdir, hafandi hvorki samþykki Alþingis né fjárveitingar til.