02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil ekki efna til neinna deilna um þetta mál hér. Ég tók það fram, þegar ég mælti fyrir fsp., að ég teldi að þetta þyrfti að skoða mjög ítarlega og það væru enn ýmsir þættir í þessu máli sem ekki hafa verið skoðaðir nægjanlega vel. Þar má nefna sumt af því sem þegar hefur komið fram í þessum umræðum.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson taldi að þetta væri svo til búið og gert, ákvörðun hefði átt sér stað með lengingu flugvallar á Sauðárkróki, sem var náttúrlega framkvæmt á þann hátt, að það var yfirleitt framkvæmt fyrir fjármagn sem búið var að úthluta á aðra staði. Þarna var unnið fyrir umframfjármagn, vegna þess — eins og fram kom hjá öðrum hv. þm. hér í umr. — að þrátt fyrir ákveðnar fjárveitingar og markaðar til ákveðinna staða hefur ekki alltaf verið unnið eftir því.

Ég vil aðeins geta um það í sambandi við að farþegatala skuli ekki vera höfð í huga, að ég tel að auðvitað hljóti nýting flugvallanna að hafa mikið að segja og hana verði að skoða ásamt öðru. — Nú hleypur tíminn auðvitað frá, af því ég er búinn að tala áður í þessum umræðum, en það væri margt fleira sem mig hefði langað að geta aðeins um, t.d. í sambandi við veðurfarið, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. Það er ljóst, að það er munurinn á veðurfari sunnanlands og norðanlands sem þarna á að skipta mestu máli. Þó hef ég vissan grun um það og hef heyrt einhvers staðar áður, að oft sé meiri líking með veðurfari á Suðvesturlandi og Norðurlandi vestra heldur en austur í Þingeyjarsýslum. Má þar til marks nefna veðurfar oft á undanförnum árum, eins og óþurrkasumur og fleira sanna. Það er margt fleira sem hefði þurft að koma hér fram, en tími minn leyfir það ekki, því miður.