02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er enginn sérfræðingur í þessu máli, en ég held að það sé hyggilegt að gerð sé rannsókn, eins og hæstv. samgrh. hefur tjáð okkur, og ákvörðun verði byggð á þeirri rannsókn. Hins vegar á ég heima mitt á milli þessara flugvalla, í Aðaldal og Sauðárkróki, og mér kemur ákaflega á óvart ef það er mat þessara manna, að það séu eins miklar líkur til að hægt sé að lenda á Sauðárkróki og t.d. í Aðaldal þegar er lokað er hér. En málið er fyrst og fremst það, að þetta verði athugað frá öllum hliðum og ákvörðun verði tekin sem byggð verði á þeirri athugun.