02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

360. mál, orkuverð til fjarvarmaveitna

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 129 leyft mér að bera fram fsp. til orkumrh. varðandi orkuverð til fjarvarmaveitna. Spurt er hver sé stefna ríkisstj. að því er varðar orkuverð til fyrirhugaðra fjarvarmaveitna á þéttbýlisstöðum á Snæfellsnesi.

Athuganir hafa leitt í ljós að fjarvarmaveitur eru mjög hagkvæmar í a.m.k. þremur þéttbýlisstöðum á Snæfellsnesi, þ.e. Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi. Raunar hefur þegar verið hafinn nokkur undirbúningur þessa máls, a.m.k. á tveimur stöðum á Snæfellsnesi, og það ekki að ástæðulausu, því að hinn 15. ágúst 1979 skrifaði hæstv. iðnrh., þáv. og núv., þingmönnum Vesturlands bréf varðandi borun hitastigulsholu á Snæfellsnesi, sem leitað var eftir að gerð yrði til að ganga úr skugga um hvort þar væri jarðhita að finna. Í þessu bréfi segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Vekur rn. sérstaka athygli á því mati Rafmagnsveitnanna og Orkustofnunar, að fjarvarmaveitur séu álitlegar í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi, og sé ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa um undirbúning fjarvarmaveitna á þessum stöðum. Telur Orkustofnun enga ástæðu til að bíða með slíkt eftir niðurstöðum hitastigulsholu, þar sem líkurnar á nýtanlegum jarðhita séu mjög litlar.“

Þetta er bréf frá hæstv. iðnrh. til þingmanna Vesturlands.

Nú er skemmst frá því að segja, að á þessum stöðum, a.m.k. í Ólafsvík og Stykkishólmi, hefur þegar verið hafinn undirbúningur að þessu, enda lá fyrir tilboð frá Rafmagnsveitum ríkisins um það, hvert orkuverð til slíkrar fjarvarmaveitu yrði. Nú hefur hins vegar brugðið svo við samkv. þeim upplýsingum sem ég hef bestar, að Rafmagnsveitur ríkisins treysta sér ekki lengur til að standa við það tilboð sem gert var um orkuverð, hið sama og gerður var samningur um á Höfn í Hornafirði, ef mér skjátlast ekki. Með því að Rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki treyst sér til að standa við áður gert tilboð eða umsögn um orkuverð hafa skapast margvísleg vandræði á þessum stöðum. Menn voru farnir að huga að framkvæmdum og höfðu skipulagt sína vinnu með tilliti til þess, að þetta yrði eitt meginverkefni næsta árs. Því er nú spurt: Hver er stefna ríkisstj. varðandi þetta orkuverð? Það má vel vera að þetta orkuverð sé nú ekki hærra en svo að það nægi ekki fyrir kostnaði, en þá hlýtur auðvitað mjög að koma til athugunar að litið verði á orkusölu með þessum hætti til fjarvarmaveitna, a.m.k. til að byrja með, eins og ýmsar félagslegar framkvæmdir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, þannig að hugsanlegt sé að greiða niður með einhverjum hætti orkuverðið í ákveðinn tíma. — En um það er sem sé spurt, hver sé stefna ríkisstj. að því er varðar orkuverð til þessara fyrirhuguðu fjarvarmaveitna á Snæfellsnesi.