02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

360. mál, orkuverð til fjarvarmaveitna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hv. þm. Eiður Guðnason spyr hér hver sé stefna ríkisstj. að því er varðar orkuverð til fyrirhugaðra fjarvarmaveitna á þéttbýlisstöðum á Snæfellsnesi. Hann hefur í inngangi gert grein fyrir ástæðum fyrir þessari fsp. sem ég skil ofurvel að er fram borin. Og ég kannast við tilvitnun í bréf frá rn. sem ég sendi varðandi þetta mál, líklega fyrir rösku ári eða sumarið 1979. Svar mitt er á þessa leið:

Fordæmi slíkrar verðlagningar af hendi Rafmagnsveitna ríkisins er til fjarvarmaveitna á Höfn í Hornafirði og á Seyðisfirði. Þar hefur verðið á orku frá kyndistöð verið miðað við 50% af verði til beinnar rafhitunar og að verð til neytenda væri 90% af því verði. Á þeim tíma, þegar samningur milli Hafnarhrepps og Rafmagnsveitna ríkisins var gerður, var fyrrgreind viðmiðun talin eðlileg og átti að tryggja báðum rekstraraðilum viðunandi afkomu, þ.e. Rafmagnsveitum ríkisins vegna kyndistöðvar og Hafnarhreppi vegna dreifikerfis. Verð á raforku til hitunar hefur síðan ekki fylgt verðlagsþróun í landinu. Þess vegna skilar sú verðviðmiðun, sem áður var getið, rekstraraðilum þessara veitna ekki fyllilega nægum tekjum til að standa undir kostnaði nema eitthvað komi til greiðslu á milli.

Stefna stjórnvalda er sú, að fyrst og fremst verði innlendir orkugjafar notaðir til húshitunar og í því sambandi verði stefnt að sem mestum sveigjanleika í vali þeirra. Til lengri tíma litið þarf að stefna að því, að verðlagning á raforku til hitunar standi undir kostnaði við orkuöflun og dreifingu, og þyrfti það raunar að gilda fyrir raforkuiðnaðinn í heild. Ég gat um það fyrr í dag í umræðum í sambandi við aðra fsp., að að mati sérfræðinga, sem hafa verið að líta á þessi mál fyrir rn. nú alveg nýlega, vanti um 17% á það að greiðsla fyrir rafhitun, eins og henni er nú háttað, standi undir kostnaði við öflun og dreifingu orku í þessu skyni. En eins og ég sagði í því sambandi skiptir auðvitað miklu að forsendur séu glöggar, og ég hef ekki lagt sérstakt mat á þær.

Verðlagning á raforku til húshitunar nú tekur mið af kyndingarkostnaði með niðurgreiddri olíu. Verð til beinnar rafhitunar er í dag um 55% af olíukyndingarkostnaði miðað við tilteknar meðaltalsforsendur án niðurgreiðslu, en 77% af olíuverði með niðurgreiddri olíu. Iðnrn. lítur svo á, að ofangreind verðviðmiðun, sem samið hefur verið um til fjarvarmaveitna til þessa, sé í sjálfu sér eðlileg að því gefnu, að raforka til hitunar sé verðlögð í samræmi við tilkostnað. Á það vantar hins vegar nokkuð, eins og ég hef greint frá, og veldur þar mestu að eðlilegt er talið að rafhitunarkostnaður sé lægri en olíukyndingarkostnaður við sambærilegar aðstæður. Nauðsynlegt er að tryggja að valdar séu hagkvæmustu leiðirnar í húshitun litið til lengri tíma, og má niðurgreiðsla á innfluttri orku ekki ganga svo langt að hún raski eðlilegum viðmiðunum og vali í þessum efnum á meðan núverandi átak til að útrýma olíu stendur yfir.

Fjarvarmaveitur á nokkrum þéttbýlisstöðum til viðbótar, m.a. á norðanverðu Snæfellsnesi, eins og hér er til umr., eru taldar þjóðhagslega hagkvæmar, og ekki er útilokað að þar takist að afla jarðvarma. Rn. mun stuðla að því, að unnt verði að móta stefnu um húshitunarmál á þessum stöðum hið fyrsta, og hafa um það samvinnu við viðkomandi aðila, þ.e. sveitarstjórnir og Rafmagnsveitur ríkisins.

Hv. fyrirspyrjandi gat um þann möguleika, að um yrði að ræða svipaða fjárhagsfyrirgreiðslu og tekin hefur verið upp varðandi félagslegar framkvæmdir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins. Um slíkt hafa engar ákvarðanir verið teknar, en vissulega er það einn möguleiki jafnframt því sem ég hef vikið að hér, að verð á raforku verði á einhverju tímabili fært sem næst kostnaðarviðmiðun þannig að endar nái hér saman.

Mér er það fyllilega ljóst, að viðkomandi byggðarlög hafa þörf fyrir að stefna liggi sem fyrst fyrir í þessu máli, og því vil ég stuðla að því, að svo geti orðið.

Hv. fyrirspyrjandi vék að því, að áhugi hefði verið og væri á því, að leitað yrði jarðvarma á norðanverðu Snæfellsnesi, og mér hafa borist á liðnum árum ítrekuð erindi frá þm. kjördæmisins um að stuðla að því, að það yrði gert. Reynt hefur verið að afla fjár í þessu skyni, en það hefur aldrei fengist nægt fjármagn til að ráðast í þessa borun, og óskað hefur verið eftir því að hún yrði gerð á kostnað Orkusjóðs eða á kostnað ríkisins, vegna þess að mikilli óvissu sé háð að árangur náist. Ég er að vænta þess, að hægt verði á komandi ári að standa að borun sem er fyrirhuguð milli Grundarfjarðar og Stykkishólms. Það skiptir vissulega nokkru fyrir tilhögun í uppbyggingu hugsanlegrar varmaveitu á þessum stöðum, sem ég vænti að ráðist verði í hvort sem jarðvarmi finnst eða ekki. Því tel ég að hraða beri þeirri aðgerð þrátt fyrir þá umsögn sem vitnað var til áðan, en hún varðaði hitastigulsholu í upplýsingaskyni.

Ég get getið þess í þessu sambandi, að þeir útreikningar, sem farið hafa fram miðað við núverandi raforkuverð, benda til þess, að ef brúa ætti bilið með tilfærslu í raforkuverði til Rafmagnsveitna ríkisins, þá þyrfti að selja orkuna ekki á 50% af rafhitunarkostnaði, heldur 59.5% og það mundi þá vera hlutur sveitarfélagsins sem á vantaði, 40.5%, sem ekki mundu nægja fyrir kostnaði af þeirra framkvæmdum að óbreyttu. En ég ítreka að ég hef áhuga á að það verði hægt að leysa úr því sem ósvarað er í þessu máli. Það er fyrst nú mjög nýlega að upp hefur komið óvissa í sambandi við verðlagninguna í þessum efnum, eins og hv, fyrirspyrjandi eflaust veit um. Það hefur verið lagt kapp á það af rn., m.a. í tengslum við undirbúning lánsfjáráætlunar, að farið sé ofan í saumana á þessu máli sem engan veginn er einfalt í sniðum. Þurfa þar ýmsir að að koma áður en ákvarðanir eru teknar.

Eitt er hægt að fullyrða nú þegar í sambandi við húshitun á þessum umræddu stöðum á Snæfellsnesi, að það væri óráð annað en sveitarfélögin héldu sig ákveðið við vatnskerfi í sambandi við nýbyggingar á þessum stöðum, þar sem hugað hefur verið að varmaveitu, til þess að loka ekki fyrir þann möguleika. Og það er trú mín, að niðurstaðan verði sú, að í þessar veitur verði ráðist, og ég skil að þm. svæðisins hafa áhuga á að það verði fyrr en seinna. Ég deili raunar þeim áhuga með þeim.