02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

360. mál, orkuverð til fjarvarmaveitna

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þá fsp., sem hér er til umr., og einnig svar ráðh.

Fyrirspyrjandi lýsti dálítið þróun mála á Snæfellsnesi í sambandi við það að losna við olíuhitun og koma upp fjarvarmaveitum. Þessi mál eru komin á það stig, að báðir staðirnir, Stykkishólmur og Ólafsvík, voru — ef ég man rétt — komnir á lánsfjáráætlun á síðasta ári eða búið að stilla þeim upp til þeirra hluta á síðasta ári, þó að þeir hafi ekki komist inn. Það var í tillögum rn. í fyrra að þessir staðir fengju fjármagn til þessa. Grundarfjörður var ekki kominn eins langt inn í dæmið, og við á Hellissandi höfðum ekki enn þá fengið grænt ljós til þess að undirbúa slíka veitu, kannske má segja núna: sem betur fer. En aðstaða staðanna allra er þá orðin jöfn í dag. Sá umþóttunartími, sem fór til þess að kanna það að koma upp fjarvarmaveitu með hitun aðallega frá raforku. hefur orðið til þess að vissu leyti að frestað hefur verið allri könnun á jarðhita á Snæfellsnesi.

Ég er fyrst og fremst kominn hingað upp til að leggja áherslu á það, að enn verði þeim málum ekki frestað. Ég vænti þess, að staðið verði við þau orð, sem ráðh. sagði áðan um það, að á næsta ári mundi verða borað milli Grundarfjarðar og Stykkishólms, ekki verði látið við það sitja að sú athugun fari fram, heldur verði einnig á utanverðu nesinu gert átak í þessum málum.

Mig langar einnig til að skjóta einni spurningu til hæstv. ráðh., sem er óvíst að hann geti svarað nú. Ég var að frétta í gær að tengivirkikerfið við Ólafsvík eða aðalspennirinn, sem átti að tryggja að við á utanverðu Snæfellsnesi hefðum nægilega orku næsta vetur, hefði komið bilaður til landsins eða væri óvirkur og yrði ekki notaður á næstu mánuðum. Það mundi þýða að það liðu níu mánuðir þar til úr þessu yrði bætt. Ég hefði gaman af — þó að seinna væri, þó að svör um þetta væri ekki hægt að gefa hér — að vita hvort atvik gætu raunverulega verið þessi, að undirbúningur undir verk væri á þann veg, verk sem búin væru að vera í uppsetningu í jafnlangan tíma og spennivirkið sem hefur verið í byggingu við Ólafsvík, að þegar svo á að fara að setja upp lokaverkfærið, þá komi í ljós að það sé bilað og það taki eina níu mánuði að fá þetta mannvirki í lag, frá þeim degi sem það átti að fara í gang.