02.12.1980
Sameinað þing: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

64. mál, launasjóður rithöfunda

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef ásamt níu þm. öðrum leyft mér að endurflytja till. til þál. um Launasjóð rithöfunda, svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skipuð verði hið fyrsta, að tilhlutan menntmrn., nefnd til að athuga og endurskoða lög nr. 29/1975, um Launasjóð rithöfunda, og reglugerð þeim lögum samkvæmt.

Nefndin skal skipuð eftir tilnefningu þingflokkanna og skila áliti áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.“

Í grg. kemur m.a. fram að till. sama efnis hafi verið flutt á síðasta þingi vegna mikillar óánægju og andmæla fjölmenns hóps rithöfunda út af síðustu úthlutun starfslauna úr Launasjóði rithöfunda í mars s.l. Nú vil ég segja það fyrst, að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ýfingar hafa orðið með mönnum, m.a. listamönnum, út af skáldalaunum eða starfslaunum þeim til handa. Eru af því ýmsar sögur, sumar skemmtilegar, eins og þegar Matthías Jochumsson skáld, — sem að vísu er nú ekki talinn bær lengur til þess að vera í úrvalsbók fyrir unglinga í grunnskólum, hann er meðal þeirra skálda sem þar eru óverðug, þótt menn eins og Einar Bragi eigi þar mörg ljóð eða Dagur Sigurðarson, — en þegar Matthías Jochumsson var prestur á Akureyri vænti hann þess einu sinni að fá frá bæjarsjóði nokkur skáldalaun, en því var synjað. Þá sagði hann þar sem hann stóð uppi á Sigurhæðum:

Þegar ég heyrði þinglokin,

þá hljóp í mig gikkurinn.

Þá sagði ég við hann Manga minn:

„Mígðu nú yfir söfnuðinn.“

Þannig hafa skáld brugðist við með misjöfnum hætti þegar um það hefur verið að ræða að úthluta þeim opinberu fé, annaðhvort sem skáldalaunum eða starfslaunum eða hvað það er kallað. Það er m.a. vegna þess, að í þessum efnum er enginn stórisannleikur til. Viðbrögð ýmissa rithöfunda og skálda, sem fylgjandi eru öllum stjórnmálaflokkum, á öllum aldri, nú sýna það, að ýmsum þykir sem núverandi tilhögun Launasjóðs, Rithöfundasjóðs og skáldalauna sé gagnrýniverð og þurfi endurskoðunar við. Tímarnir hafa breyst, og það er eðlilegt, að þessi mál séu í endurskoðun, eins og raunar er viðurkennt af Rithöfundasambandinu þar sem það hefur sjálft kjörið nefnd til að athuga þessi mál.

Ef fjárlög eru skoðuð sést líka að hér er ekki um lítið fé að ræða. Á þessu ári er gert ráð fyrir að í Launasjóð rithöfunda komi 163 millj. kr. Það er að vísu allmiklu minna fé en undanfarin ár ef verðbólgan er tekin inn í dæmið. Ef þetta fé ætti að fylgja verðbólgunni og borið væri saman við árið í fyrra þyrfti féð að vera 194 millj. rúmar. Það vantar m.ö.o. 31 millj. upp á að Launasjóðurinn haldi verðgildi sínu. En það er nú eins og ýmislegt annað sem rýrnað hefur í verðbólgunni, sumpart vegna skilningsleysis stjórnvalda. Í Rithöfundasjóðinn renna 80 millj. kr. og til listamannalauna 76 millj. Hér er sem sagt um verulegt fé að ræða, auk þess sem starfslaunum til listamanna er úthlutað með ýmsum öðrum hætti, þau koma annars staðar frá líka, dvalarstyrkir og annað.

Ég held þess vegna að varla geti verið umdeilt að um þessi mál þurfi að hugsa og átta sig á breyttum viðhorfum, m.a. vegna þess mikla fjár, sem hér er um að ræða, og líka vegna hins, að ekki hefur verið staðið við fyrirheitið, sem gefið var í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, að viðmiðun skyldi tekin af söluskatti á bókum. Á árinu 1976 var söluskattur á bókum 20%. Nú hefur hann hækkað upp í 23.5%. Þó svo að ekki liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um það, hversu hárri upphæð söluskattur á bókum nemur, held ég að allir séu sammála um að töluvert vanti þarna upp á til að brúa bilið. Þetta þyrfti að fást upplýst og fært til betri vegar.

Í Þjóðviljanum hinn 29. apríl s.l. er fjallað um þessi mál. Formaður Rithöfundasambandsins, Njörður P. Njarðvík, lætur þar þau ummæli falla, að um persónulegar ofsóknir sé að ræða hjá þeim rithöfundum sem mótmæltu úthlutuninni. Á hinn bóginn komst einn af þeim mönnum, sem fyrir mótmælunum stóðu, svo að orði, að til þess að komast í hæstu flokka í Launasjóði rithöfunda þyrftu menn að uppfylla tvö skilyrði: að styðja núverandi formann Rithöfundasambandsins og vera í eða á Alþb. Þannig gengu fullyrðingarnar á víxl, og eins og ég sagði áðan var síður en svo að þarna væri um einlitan hóp að ræða frá pólitísku sjónarmiði. Jón Óskar skáld skrifaði um þessi mál stutta grein í Morgunblaðið hinn 10. maí þar sem hann segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðal þess, sem birst hefur í blöðunum, hef ég orðið hvað mest hissa á ummælum formanns Rithöfundasambandsins. Hann segir eftirfarandi í blaðaviðtali:

„Í 3. gr. laga Rithöfundasambands Íslands er tekið fram að það taki ekki þátt í baráttu stjórnmálaflokka né hlutist til um listastefnur, stjórnmálaskoðanir eða trúarbrögð. Ég verð þess vegna að líta svo á, að þessi undirskriftalisti feli í sér persónulegar ofsóknir á hendur þeim rithöfundum, sem nú hafa fengið starfslaun í tveim efstu flokkunum.“

Síðan segir Jón Óskar frá sjálfum sér, með leyfi hæstv. forseta: „Það munar um minna. Það eru stór orð frá þeim manni sem á að heita formaður samtaka rithöfunda og vitanlega um leið sá maður sem á að gæta hagsmuna allra félagsmanna Rithöfundasambandsins eða „lima“ þess, eins og einum höfundi þótti betur hæfa að kalla okkur sem höfðum skrifað nöfn okkar undir mótmæli. Og hvernig þykir fólki röksemdafærslan? Sökum þess að Rithöfundasamband Íslands tekur ekki þátt í stjórnmálabaráttu o.s.frv. mega rithöfundar ekki heimta það, að pólitískar skoðanir komi ekki til greina við úthlutun opinberrar nefndar á fé til rithöfunda, þá á það að fela í sér persónulegar ofsóknir á hendur öðrum rithöfundum. Þarna er raunverulega verið að gefa í skyn, að höfundar eigi að þegja, þegar þeim blöskrar það sem þeir telja misrétti. Og ég vil biðja fólk að staldra við þetta orð formannsins: ofsóknir. Það sem af er ævinni hef ég frekar reynt að koma öðrum höfundum til hjálpar, eftir því sem ég hef getað, einnig þótt það hefði í för með sér nokkra tvísýnu fyrir sjálfan mig. Ég get því ekki stillt mig, ef á að fara að telja mig með ofsóknarmönnum íslenskra rithöfunda, að lýsa fyrirlitningu minni á slíku orðbragði forustumanns samtaka okkar. Ég verð að segja: Nú þykir mér nóg komið.

Athyglisverðar eru þær hugmyndir, að gagnrýni á störf nefndarinnar hljóti að merkja það, að höfundarnir í efstu flokkunum séu taldir óverðugir launa sinna. Ætli kröfur verkalýðsins um meiri launajöfnuð í þjóðfélaginu merki það, að hann telji alla þá, sem hærri laun hafa, óverðuga launa sinna? Það vantaði raunar ekki fyrr á árum, að alþýðunni væri borið það á brýn, að allar kröfur hennar um jöfnuð stöfuðu af öfundsýki gagnvart þeim sem lifðu í allsnægtum. Slíkar skoðanir heyrast ekki lengur á vettvangi stjórnmálanna, og er nýlunda að slík „rök“ skuli nú höfð á lofti í deilum rithöfunda. Þó fer manni fyrst að renna kalt vatn milli skinns og hörunds þegar maður les yfirlýsingu frá nýkjörnu rithöfundaráði, yfirlýsingu sem beinist gegn félögum þeirra sem í ráðinu sitja. Þar segir svo m.a.:

„Rithöfundaráð átelur þær árásir á skoðanafrelsi rithöfunda, er felast í mótmælaskjali 46-menninganna, og telur þær til þess eins fallnar að vinna gegn hagsmunum rithöfunda.“

Það er rétt svo að maður trúi því, að slík svo heimskuleg ásökun á hendur stórum hópi rithöfunda skuli koma frá rithöfundaráði sem þannig misbeitir valdi sínu, og er vonandi að slíkt dragi ekki langan dilk á eftir sér.“

Þessi ummæli Jóns Óskars skálds sýna ljóslega að skoðanir eru mjög skiptar meðal skálda og rithöfunda um þetta mál og fylkingar öndverðar. Það er á hinn bóginn ljóst, eins og ég sagði áðan, að í þessum efnum sem öðrum er enginn stórisannleikur til. Nauðsynlegt er að gaumgæfa hver reynslan hefur orðið af Launasjóðnum. Ég vil í því efni sérstaklega vekja athygli á því, að í stjórn hans eru einungis þrír menn. Ég tel að hér sé of mikið í húfi til þess að hægt sé að sætta sig við að fleiri sjónarmiða gæti ekki. Ég held að matið á úthlutuninni verði of einhæft og þess vegna sé nauðsynlegt að fjölga í stjórn Launasjóðsins. Ég hef átt viðtal og skipst á skoðunum við fjölmarga menn um það, hversu starfslaunum til rithöfunda verði best fyrir komið, starfslaunum til málara — og listamanna yfir höfuð að tala, og enginn þeirra, sem ég hef rætt þetta mál við, hefur mótmælt því að athuguðu máli, að talan þrír sé hættulega lág, hún bjóði hættunni heim, ýti undir tortryggni, eins og raunin hefur á orðið. Nógu mörg sjónarmið koma ekki fram. Og menn telja sig ekki hafa aðgang að svo fámennri stjórn, svo ólíkur og stór hópur sem hann er, sem við ritstörf fæst.

Ég hef orðið var við það hjá ýmsum, að þeir hafa misskilið þá gagnrýni sem fram hefur komið á úthlutun úr Launasjóði rithöfunda þannig, að við, sem þetta frv. flytjum, séum á móti því að ríflega sé veitt úr sjóðnum til einstakra manna. Það er síður en svo. Vitaskuld er nauðsynlegt að þeim mönnum, sem hafa það að vinnu sinni að sinna ritstörfum, gefist kostur á því að helga sig list sinni. Oft og tíðum kostar það raunar miklar fórnir af hálfu fjölskyldna þessa fólks, sem aftur veldur því, að úthlutun úr Launasjóðnum verður miklu viðkvæmara mál en ella mundi. En einmitt sú staðreynd, að það getur verið kannske ekki aðeins réttlætanlegt, heldur blátt áfram eðlilegt, að sömu menn hljóti starfslaun ár eftir ár, gerir það enn auðsærra en ella, hversu skynsamlegra það væri að sjónarmiðin í stjórn sjóðsins væru víðari og fleiri um að ákveða fjárveitingar úr honum.

Þá hefur einnig komið fram sú gagnrýni, að núverandi fyrirkomulag ýti undir það að skáld og rithöfundar kasti höndum til verka, gefi of fljótt út bækur sínar. Það hefur einnig heyrst, að ýmsir gefi út ómerkilega bæklinga til málamynda, aðeins til þess að koma til greina við úthlutun á fé sem varið er til ritverka eða ritstarfsemi af opinberri hálfu.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins fara út í samanburð á einstökum rithöfundum. Ég vil ekki gera þá að umræðuefni. Það hefur ekki verið háttur manna á Alþingi hin síðari ár að fara út í slíkan samanburð. Ég vil á hinn bóginn vekja athygli á því í sambandi við heiðurslaunin, eins og ég hef raunar oft gert áður, að ég tel það fullmikla íhaldssemi af Alþingi að halda sig þar við töluna 12, gjarnan megi fjölga þeim, sem heiðurslaun þiggja, og vera rausnarlegri á féð og láta það fylgja verðbólgunni, sem ekki hefur verið hin síðari ár.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að rithöfundar og raunar listamenn yfir höfuð hafa litið öryggi í ellinni. Þeir hafa ekki aðgang að neinum lífeyrissjóði og verða oft að búa við mjög bág kjör þegar elli sækir þá heim og þeir eru þrotnir að starfskröftum. Ég held þess vegna að það sé mjög áríðandi mál, mikið réttlætis- og nauðsynjamál og raunar menningarmál fyrir okkur, ef við íhugum hversu mikið við Íslendingar eigum rithöfundum að þakka, sem hafa varðveitt tungu okkar og þjóðararf, að sæmilega sé búið í ellinni um þá, sem halda merkinu uppi. Ég hef ekki á þessu stigi málsins tillögur um það, hvernig ég vilji halda á þessu máli, en ég vek athygli á að brýn nauðsyn er á því, að listamönnum sé gefinn kostur á aðild að einhverjum lífeyrissjóði með viðunandi hætti og þeim þannig tryggðir sómasamlegir ellidagar eftir að verkdeginum lýkur.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að ég lengi mál mitt. Tillagan, sem hér liggur fyrir, er afskaplega einföld. Ég get ekki skilið að um hana geti orðið nokkur ágreiningur. Hér er um mjög verulegt fjármagn að ræða sem úthlutað er af Launasjóði rithöfunda. Till. felur það eingöngu í sér, að nefnd skuli skipuð eftir tilnefningu þingflokkanna til þess að endurskoða lög um Launasjóðinn, og ef þessi nefnd kæmist að þeirri niðurstöðu, að þar væri hvergi hægt að hagga neinum staf til betri vegar, þá mundi álitsgerðin að sjálfsögðu verða á þá lund, þá mundi næsta Alþingi fá það álit frá þessari nefnd. Ef á hinn bóginn niðurstaðan verður sú, að sitthvað megi lagfæra í ljósi reynslunnar, að þetta verk sé ekki fullkomið frekar en önnur verk, — ef mönnum sýnist að rétt sé að sjóndeildarhringurinn sé víðari hjá þeim sem útdeila þessu fé, eða þá ef menn vilja girða fyrir jafnharða gagnrýni og kom fram á s.l. vetri, þá mundi niðurstaða nefndarinnar líka verða á þá lund.

Í grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tillaga þessi felur ekki í sér ákveðnar tillögur um breytingar hér að lútandi, það yrði hlutverk væntanlegrar þar til skipaðrar nefndar. Þó skal á það bent, að vænlegra virðist að stjórn Launasjóðsins, sem fer með úthlutun starfslaunanna, væri fjölmennari en nú er, t.d. fimm eða sjö menn í stað þriggja. Þannig væri tryggð meiri yfirsýn, fleiri sjónarmið kæmu fram og um leið væri dregið úr þeirri hættu, að óeðlilega mikið vald safnaðist á hendur eins eða tveggja manna í sjóðsstjórninni.

Þá bæri einnig að skoða þá hugmynd, hvort ekki væri farsælast, þegar öll kurl koma til grafar, að stjórn Launasjóðsins yrði skipuð af Alþingi, en samkv. núverandi skipan er það stjórn Rithöfundasambands Íslands sem tilnefnir alla stjórnarmenn, þrjá talsins. Til Launasjóðsins var stofnað með lögum frá Alþingi og sjóðurinn nýtur árlega framlaga af almannafé.“

Um þá hugmynd, sem þarna kemur fram, vil ég ekkert segja fram yfir það sem þarna stendur, en greinilegt er, eins og ég vék að áðan, að milli rithöfunda sjálfra ríkir mikil misklíð nú. Gagnrýni á framkvæmd eða úthlutun Launasjóðsins hefur verið mjög óvægin og þess vegna töldum við óhjákvæmilegt að flytja þessa tillögu og freista þess, að meiri friður skapaðist um þessi mál eftir því sem hægt er.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til allshn.