02.12.1980
Sameinað þing: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

64. mál, launasjóður rithöfunda

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Á fundi Rithöfundasambands Íslands, sem haldinn var 5. júní 1979 um endurskoðun laga um Launasjóð rithöfunda og sérstaklega var boðað til um þetta efni, var samþykkt að ekki væri ástæða til að breyta lögum eða reglugerð sem nú eru í gildi. Lögin eru frá árinu 1975. Fundurinn var fremur fámennur þó að ég hafi ekki nákvæma tölu.

Á aðalfundi sambandsins s.l. sumar kom fram tillaga um að reglugerðin frá 1977 yrði endurskoðuð, og samþykkti fundurinn það einróma. Á þeim fundi, sem var mjög fjölmennur að vanda — ég hef að vísu ekki heldur nákvæma tölu um fundarsókn þar, þótti eðlilegt að verða við þessari tillögu. Voru þrír rithöfundar kosnir í nefnd sem skila skyldi tillögum fyrir næsta aðalfund að ári liðnu. Í nefndina voru kosnir rithöfundarnir Ingimar Erlendur Sigurðsson, Vilborg Dagbjartsdóttir og Jón Kjartansson frá Pálmholti. Engar tillögur komu fram um að lögin þörfnuðust endurskoðunar, heldur einungis reglugerðin.

Það kemur okkur, sem í Rithöfundasambandinu erum, dálítið spánskt fyrir sjónir að flm. þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, sjái ástæðu til að flytja hana á meðan nefnd á vegum sambandsins sjálfs situr að störfum. Ég held að fæstir rithöfundar telji þingskipaða nefnd færari um að endurskoða reglugerðina eða lögin en fulltrúa rithöfunda sjálfra.

Nokkrar umræður urðu á síðasta löggjafarþingi vegna úthlutunar úr sjóðnum og gerðu nokkrir hv. þm. tilraun til þess að gera úthlutunarnefndina tortryggilega. Sú nefnd er skipuð af menntmrh. til þriggja ára hverju sinni að tilnefningu Rithöfundasambandsins og skulu þeir menn ekki vera félagar í sambandinu né heldur sitja lengur en eitt kjörtímabil. Er það einkum gert til þess að koma í veg fyrir að ákveðinn bókmenntasmekkur hafi hugsanlega áhrif til langframa á úthlutun. Ég lagði þá áherslu á það í umræðunum, að engum væri greiði gerður með þeim málflutningi sem þar fór fram. Rithöfundasambandið er ekkert annað en hagsmunafélag þess fólks sem fæst við ritstörf. Eftir að það var stofnað og allir rithöfundar sameinuðust í eitt samband hefur orðið bylting í samningsaðstöðu rithöfunda. Nægir þar að nefna rammasamning þeirra við útgefendur, við leikhús og útvarp. Að þessum verkefnum hefur sambandsstjórnin einbeitt sér á undanförnum árum, og hafa allir rithöfundar notið góðs af þeim störfum sem mikil vinna hefur verið lögð í.

Sé þessi þáltill. fram komin í framhaldi umræðnanna á síðasta löggjafarþingi, og það heyrðist mér á máli síðasta hv. ræðumanns, tel ég hana til mikils tjóns fyrir sambandið. Sá málflutningur er einungis til skaða þar sem hann fjallar um úthlutun úr sjóðnum. Auðvitað fá ævinlega færri en um sækja, en það er af þeirri ástæðu einni, að of lítið fé er í þessum sjóði. Á fjárl. nú eru áætlaðar 163 millj. 622 þús. kr. og hækkar framlag því aðeins um 49 millj. frá síðasta ári. Vitaskuld hlýtur að vera vandaverk að velja og hafna, þegar úthlutun fer fram, en það er jafnframt ljóst, að menn þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að fá starfslaun. T.d. verða menn, sem ætta að fá starfslaun í meira en tvo mánuði, að leggja niður aðra launavinnu og fæstir rithöfundar geta það.

Ég get ekki varist því, að mér þætti farsælla fyrir sambandið að flm. till., sem sumir sitja í fjvn., einbeittu sér að því að hækka þessa fjárhæð í þágu íslenskrar tungu og menningar — og ég vit taka undir það með hv. flm., að vissulega sér þetta fólk um að viðhalda íslenskri tungu–heldur en vera að leggja til að menntmrn. skipi nefnd til að vinna verk sem þegar er verið að vinna á vegum sambandsins sjálfs.

Hv. frsm. hafði áhyggjur áðan af því, að rithöfundar væru ekki aðilar að lífeyrissjóðum. Ég er ansi hrædd um að fæstir rithöfundar geti sinnt svo skrifum sínum að þeir þurfi ekki nauðsynlega að vera við önnur störf. Og ég hygg að langflestir rithöfundar eigi aðild að öðrum lífeyrissjóðum vegna þeirra starfa, sem þeir hafa unnið, annarra en ritstarfa. Vissulega skal ég taka undir það, að æskilegt væri að menn, sem hafa sýnt að þeir eru til gagns við ritstörf, gætu sinnt þeim eingöngu. En um það má raunar deila. Ég er ekki alveg viss um að það henti öllum rithöfundum að fást við ritstörf eingöngu. Það kynni að vera, að menn teldu sig þurfa að vera í nánara samneyti við atvinnulífið, við fólkið í landinu, og ritstörf þeirra nytu góðs af því. En við skulum ekki fara út í þá sálma hér.

Ég vil hins vegar í sambandi við fram komna till. til þál. benda á að í dag barst öllum hv. þm. bréf frá Rithöfundasambandi Íslands þar sem þessari till. til þál. er harðlega mótmælt. Í bréfi formanns Rithöfundasambands Íslands segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Rithöfundasambandsins lítur á þessa þáltill. sem beint tilræði við Launasjóð rithöfunda, enda reynsla fyrir því, að fylgifiskur þingkjörinna nefnda, sem úthluta launum og styrkjum til listamanna, sé pólitískt kvótakerfi fremur en listrænt mat. Yfirgnæfandi meiri hluti félagsmanna í Rithöfundasambandi Íslands er andvígur slíkri tilhögun og því til sönnunar fylgir hér yfirlýsing 126 rithöfunda um andstöðu við þingkjörna stjórn Launasjóðsins.“

Þessi undirskriftalisti fylgir hér með, eins og áður segir, og undir hann skrifar ríflegur helmingur félagsmanna Rithöfundasambandsins. Það eru ekki ómerkari rithöfundar en Guðmundur Gíslason Hagalín, Halldór Laxness, Kristján Eldjárn, Tómas Guðmundssón, auk fjölmargra annarra. Ég held að Rithöfundasambandið hafi svarað því, hvern vilja það hefur í þessu máli.

Sannleikurinn er sá, að það sýnist vera eitthvert áhugamál ákveðinna afla að rifta því samkomulagi sem nú hefur ríkt um nokkurra ára skeið innan Rithöfundasambandsins eða meðal félaga í Rithöfundasambandinu. Sú var tíðin, að rithöfundar skiptust í tvö félög sem voru mjög pólitískt lituð. Nokkrir ágætir menn tóku að sér að reyna að sameina rithöfunda í eitt samband og hefur tekist að vinna í þágu rithöfunda án þeirra pólitísku illdeilna sem áður ríktu milli þessara tveggja hópa. Ég held að það sé ákaflega mikið til skaða ef verið er að reka fleyg í þessa samvinnu, því að eins og ég sagði áðan eiga rithöfundar töluvert undir því, að Rithöfundasambandið haldist í heilu lagi.

Ég skal engan dóm leggja á það, hvers vegna þessir 43 rithöfundar komu með sínar undirskriftir við úthlutun á síðasta ári. Ég býst við að það séu alltaf einhverjir sem finnst fram hjá sér gengið. Ég rakti það nokkuð í ræðu á síðasta löggjafarþingi vegna þessa máls, að það er ákaflega erfitt að sjá að menn hafi verið látnir gjalda einnar eða annarrar pólitískrar skoðunar. Ég vil minna hv. þm. á að ég las hér lista yfir þá sem höfðu fengið laun úr þessum sjóði, og ég hygg að flestir hafi séð að þar voru á blaði flestir þeir rithöfundar sem ætla mætti að yrðu fyrir valinu við slíka úthlutun. Ég held þess vegna að Rithöfundasamband Íslands ætti að fá að vera í friði, fá að ákveða sjálft hvort það telur ástæðu til endurskoðunar laga sinna, og a.m.k. væri óhætt að bíða eftir niðurstöðu þeirra manna sem tekið hafa að sér að endurskoða reglugerðina. Hins vegar má benda á, vegna þess sem hv. flm. sagði áðan er hann var að tala um söluskatt af bókum, að það var skrýtinn talnaleikur. Ég held að það sé ljóst, að á síðasta ári hafi söluskattur af bókum numið um 700 millj. kr. Hins vegar er um að ræða 163 millj. sem renna í Launasjóð rithöfunda. Ég held því að við ættum að skilja það í eitt skipti fyrir öll, að rithöfundar eru engir beiningamenn í íslensku þjóðfélagi. Þeir framleiða mikil verðmæti, bæði andleg og fyrir efnishyggjumenn ekki síður efnisleg. Það væri gaman að taka það saman, hversu mörgum einstaklingum í þjóðfélaginu rithöfundar sjá fyrir vinnu við bókagerð, þannig að ég held að það :é alveg ástæðulaust að breiða sig út með einhverri góðsemi yfir starfslaun listamanna. Þeir eru ekki að biðja um neina ölmusu. Þeir vmna miklu meira en fyrir þessum peningum sem þeim er úthlutað. Hitt er annað mál, að þeir hafa svo lengi sem elstu menn muna fengist við sin ritstörf hvort sem þeir hafa fengið starfslaun eða ekki. Hinu er ekki að neita, að samningsréttur rithöfunda hefur orðið allur annar. Þar hafa verið unnir merkir áfangar af núverandi stjórn, og ég vil biðja menn lengstra orða að vera ekki að gera tilraunir til að reka fleyg í þetta samstarf. Ég get einnig bent hv. flm. á, að þó nokkrir rithöfundar, sem í fyrra skrifuðu undir mótmælaplaggið, skrifa einnig undir þann mótmælalista sem hér liggur fyrir.

Ég mun að sjálfsögðu ekki hafa á móti því, að þessi þáltill. fari til n., en ég vil biðja þá nm., sem koma til með að fjalla um hana, ef þeir eru yfir höfuð nokkrir hér, að reyna að koma í veg fyrir að Alþingi Íslendinga fari að blanda sér í innanfélagsmál Rithöfundasambands Íslands.