07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

69. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru örfá orð til viðbótar því sem hv. frsm. nefndarinnar sagði. Ég ætla ekki að fara að endurtaka neitt hér, en út af því, að nefndir séu hvattar til að hraða störfum, þá getur það verið tvíeggjað hversu hratt nefndir eigi að vinna. Ég held að meðferð á þessu frv. sé dæmigerð fyrir að nefndir eigi ekki að ryðja frá sér frv. athugunarlítið. Eins og formaður nefndarinnar og frsm. gat um komu strax athugasemdir varðandi niðurfellingu útflutningsgjaldsins á 1600 tonnum af þurrkuðum saltfiski, og þá var ákveðið að ræða við aðila sem þekktu þessi mál vel. Árangurinn varð sá, að sjálft ráðuneytið sem lagði þetta til, tekur sína tillögu aftur. Ef nefndin hefði flýtt sér um of hefði hún vafalaust klofnað í afstöðu til málsins, hluti nefndarinnar hefði verið ráðh. hollur og sagt já og amen við því sem hann lagði til, en meiri hl. nefndarinnar hefði örugglega verið þessu andvígur. En fyrir það að formaður nefndarinnar hafði rétt vinnubrögð á afgreiðslu málsins athugar ráðuneytið sinn gang og kemst að réttri niðurstöðu og sömuleiðis nefndin í heild.