07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

129. mál, lokunartími sölubúða

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal viðurkenna fúslega að það, sem að er stefnt með þessum frv.-flutningi, verður vissulega að teljast til bóta fyrir hinn almenna borgara í Reykjavík ef því fylgdi að hægt væri að ná því fram að fólk, sem vinnur langan bundinn vinnutíma, geti komist í þær verslanir, sem það þarf á að halda, og þá að sjálfsögðu ekki síður í þjónustustofnanir hins opinbera, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, en því miður ganga á undan með slæmu fordæmi, vil ég halda fram. Það eru auðvitað engin rök með þessu frv., að fólk, sem vinnur á dagvistarstofnunum, þurfi öðru frekar að fara í verslanir. Auðvitað væri sjálfsagt að taka þar upp breytilegan vinnutíma á þann veg að sumt af starfsfólkinu byrjaði síðar á morgnana, en gæti þá unnið fram eftir á kvöldin og komið á móti vandamáli verslunarfólks og þá um leið eigin og leyst vandamálið þannig. En ég held að það hafi verið af hinu góða að þetta frv. var flutt og þessi umr. er komin inn á hv. Alþingi einnig, en hún hefur raunar fram til þessa verið bundin við borgarstjórnina í Reykjavík og farið fram milli hagsmunaaðila þar.

Það hefur komið hér fram hjá ræðumönnum réttilega að þetta mál þurfi að fara til athugunar og senda þurfi það til umsagnar beggja hagsmunaaðila. Því miður virðist nú vera þannig ástatt, að hagsmunir allra, sem kaupmanna megin standa, fara ekki saman, sem líka er skiljanlegt vegna þess að annars vegar eru þeir, sem eru með stóru verslanirnar og þurfa eingöngu að byggja sína starfsemi á aðkeyptu vinnuafli, hins vegar koma þeir, sem eru kannske einir með sinni fjölskyldu við sinn rekstur og vilja nýta eigið vinnuafl og fjölskyldunnar betur en þeir oft og tíðum telja sig hafa fengið leyfi til. En við skulum ekki gleyma því, að þau vandkvæði, sem hefur verið bent hér á varðandi lengingu vinnutíma, eru auðvitað fyrir hendi. Ég minntist, þegar þessi umr. hófst áðan eða reyndar undir þessari umr. ýmissa vandamála sem aðilar hafa bent á. Hv. 3. þm. Reykv. benti t. d. áðan á aukinn kostnað á vöruna því að unnið yrði í dýrari tíma á kvöldin. Það kom líka fram sá ótti hjá verslunarfólki, að þegar það færi heim eftir venjulegan vinnudag og þá kannske lögboðinn eða lögverndaðan vinnudag væri farið að taka fólk til vinnu sem hægt væri að þvinga til að taka lægri laun, — fólk sem þyrfti vissulega á vinnunni að halda, eins og hér hefur komið réttilega fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal. Kannske verður aldrei meiri hætta á því en í næstu framtíð, ef núv. hæstv. ríkisstj. fær að sitja öllu lengur, að fólk leiti vegna hreinnar neyðar eftir því að ná sér í lengri vinnutíma og þá verði tök á að undirbjóða þá taxta sem stéttarfélagið hefur samið um.

Þá kem ég að þeim orðum um hámarksvinnutíma sem féllu hjá hv. 8. landsk. þm. Það er alls ekki nóg að það séu lög um hámarksvinnutíma. Ég leyfi mér að benda þessum hv. þm. og reyndar öðrum þm. á þá staðreynd, að það hefur verið vakin athygli a. m. k. tveggja ábyrgra ráðh. í hæstv. ríkisstj. á því, að það eru þverbrotin lög og hafa verið árum saman, sem hafa verið í gildi í áratugi, um hámarksvinnutíma sjómanna á togurunum. Þeir hafa ekkert gert í því, og mér er ekki kunnugt um að núverandi stjórnarstuðningsmenn hafi heldur gert nokkurn skapaðan hlut í því. Á okkar raddir er ekki hlustað, sem höfum vakið athygli á þessu, og því miður hafa stéttarfélögin ekki reynst hafa styrk til að hrinda þessum ófögnuði af höndum sér.

Aftur á móti er e. t. v. rétt að vekja sérstaka athygli á þeim orðum hv. 8. landsk. þm., Guðrúnar Helgadóttur, sem hún sagði um lögin um lokunartíma sölubúða, að þau væru frá 1936, gagnslaus með öllu og úrelt. Við höfum eytt miklum tíma í vetur í að ræða önnur lög sem voru sett aðeins fveimur árum síðar og eru því á sama aldursskeiði og þessi, en eru orðin gagnslaus og úrelt vegna aldurs. Það eru lögin um stéttarfélög og vinnudeilur. Hafa m. a. flokksbræður þessa hv. þm. talið það af hinu góða, að þau væru orðin gömul og komin nokkur reynsla á þau og þannig ættu þau helst að standa til eilífðarnóns.