20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

12. mál, smærri hlutafélög

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir að taka þátt í þessari umr. Ég veit, að hann er mjög kunnugur hlutafélagalöggjöfinni, og met það mikils, að hann taki þátt í umr. Hins vegar er ég ekki á alveg sama máli og hann. Þó skal játað að e. t. v. væri ekkert við það að athuga þótt að lokinni athugun yrðu settir kaflar inn í núgildandi hlutafélagalög sem hentuðu í ríkari mæli smærri hlutafélögum. Hins vegar er það mín skoðun, að slíkt mundi frekar geta valdið réttaróvissu heldur en ef um væri að ræða setningu sérlaga. Ég hef þá skoðun. En það er eins og með öll mannanna verk, að auðvitað þurfa þau endurskoðunar við.

Ég tók það fram í minni framsögu, að þau lög, sem samþykkt voru á Alþingi 1978, eru mjög vönduð. Það skal viðurkennt, að auðvitað er reynslutími þessara laga ekki langur, rúm þrjú ár, og það er ekki langur reynslutími. Sú till. til þál., sem ég var að mæla fyrir, gerir ráð fyrir undirbúningi. Nú efast ég ekki um það, að ef þessi till. verður samþykkt mun þetta fá umfjöllun í þjóðfélaginu. Við vitum ekki um niðurstöðu þeirrar umfjöllunar, en till. er fyrst og fremst ýtt úr vör í þeim tilgangi að fá um þetta umr. — og vonandi jákvæða niðurstöðu, að dómi okkar flm.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. En ég vil að síðustu segja það, að auðvitað þurfum við að kappkosta að hafa alla lagasetningu að því er þetta varðar þannig úr garði gerða að formið laði menn til atvinnustarfsemi. Það er fyrsta og síðasta boðorð sem við eigum að hafa að leiðarljósi í löggjöf sem þessari.

Herra forseti. Ég bað um að þessari till. yrði vísað til nefndar. Ég nefndi ekki nafn nefndarinnar, líklega er það allshn.