07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

129. mál, lokunartími sölubúða

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það hefur oft farið fyrir mér eins og hv. 8. landsk. þm., að ég hef furðað mig á að talsmenn hins frjálsa framtaks skuli endilega vilja fá stjórnun að ofan á þessu sviði.

Hv. 1. flm. kom inn á dæmi utan af landi og ég get sagt frá reynslu okkar úti í Eyjum. Það hafa oft komið fram beiðnir frá kaupmönnum í Eyjum um að beita þessum reglum, að setja reglur eins og þessi lög gera ráð fyrir. Bæjarstjórn hefur alltaf neitað því, alfarið neitað því, með tilliti til hagsmuna þeirra sem við verslanirnar skipta, þ. e. með tilliti til hagsmuna neytenda.

En ég vil undirstrika það, að það hefur aldrei komið ein einasta beiðni frá neinum sem vinna við verslun, þ. e. launþegum. Þeir hafa sín félög í Eyjum. Þeir hafa verið beðnir um umsögn. Þeir hafa aldrei óskað eftir nemum slíkum reglum. Það þarf því ekki að óttast að þeirra hlutur sé svo afskaplega mikið fyrir borð borinn þó að þessar reglur séu ekki notaðar, þó að þessi lög séu afnumin.

Það hefur ekkert öngþveiti skapast. Það hefur verið nokkur sveigjanleiki í þessum málum úti í Eyjum, en öngþveiti er ekkert, alls ekki neitt. Mér finnst sjálfsagt að leggja niður þessi lög, sem eru orðin úrelt, eins og það frv. gerir ráð fyrir sem hér er til umr.