08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

340. mál, harðindi norðanlands

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu fyrirspyrjanda var bréf dagsett, ef ég tók rétt eftir, 16. nóv. undirrót þess, að þessi fsp. er borin fram um tjón kartöflubænda við Eyjafjörð. Undir lok október mánaðar hafði ég hins vegar óskað eftir að þetta tjón væri metið. Tilnefndir voru Guðbjörn Einarsson af hálfu Framleiðsluráðs landbúnaðarins og Ævar Hjartarson héraðsráðunautur á Akureyri til að gera úttekt á því tjóni sem orðið hafði á garðlöndum bænda við Eyjafjörð.

Þessir menn skiluðu úttekt og matsgerð vegna skemmda á kartöflum í Eyjafirði, hinn 3. nóv. s. l., eða um einni til tveimur vikum síðar. Í grg. þessari kemur fram að könnunin var framkvæmd dagana 29. okt. til 3. nóv. 1981. Var farið um héraðið og mældir upp garðar á þessu svæði. Sundurliðun var gerð á óuppteknu og uppteknu landi. Þeim til aðstoðar við mælingar á garðlöndum voru ráðunautar Búnaðarsamband Eyjafjarðar. Miðað var við að taka ekki með minni garðlönd en ca. 3 500 fermetra hjá hverjum einstaklingi. Mestur hluti garða var mældur eða stærð tekin samkvæmt túnakortum. Á örfáum stöðum var mæling ekki framkvæmd, en garðstærð tekin niður samkvæmt umsögn bónda. Uppskerutölur og útsæðismagn var tekið samkvæmt umsögn bænda sjálfra. Garðar voru flestir að meira eða minna leyti undir snjó, mjög blautir og var frost víða komið í jörð. Allt bendir til þess, að svo til öll uppskera, sem eftir var, sé mjög skemmd eða nánast ónýt. Meðfylgjandi eru listar yfir upptekin atriði sem að þessu lúta, flokkuð eftir hreppum. Örfáir garðeigendur munu vera eftir, dreift um héraðið, innan við tíu, með lítils háttar magn hver. Nokkrir aðilar óskuðu ekki eftir mælingu á görðum eða athugun varðandi þetta. Voru það aðallega þéttbýlismenn á Grenivík. Nokkrir eru þó á meðfylgjandi listum sem ekki búa á lögbýlisjörðum. Samkvæmt þessum mælingum og athugunum voru garðlönd samtals 225.61 hektari, þar af óupptekið 85.06 hektarar eða sem næst 37.7%.

Það, sem að framan er greint, er úr skýrslu eða greinargerð matsmanna, sem undirrituð er á Akureyri 3. nóv. 1981 af Guðbirni Einarssyni og Ævari Hjartarsyni. Með grg. þessari fylgja skýrslur um hvern einstakling, sem garðland var mælt hjá, og hversu mikið var óupptekið þegar snjór lagðist yfir. Er ekki ástæða til að rekja það nákvæmlega. Erfitt er að meta á þessu stigi hvað afurðatjón hjá kartöflubændum við Eyjafjörð hefur verið mikið og hvort það tjón, sem varð vegna þess að kartöflur náðust ekki upp vegna snjóa, er það tjón sem einvörðungu hefur þarna orðið, eða hvort meta á tjón vegna uppskerubrests af völdum harðinda. Í grg. þessara úttektarmanna er ekki að finna tillögur um hvernig á því máli skuli tekið.

Mér þykir rétt í tengslum við þetta mál að greina frá því, sem raunar hefur áður komið fram, að 20. ágúst s. l. skipaði ég nefnd þriggja manna til þess að kanna heyfeng og fóðurbirgðir á þessu hausti vegna hins erfiða árferðis. Nefndin hefur skilað bráðabirgðatillögum til rn. um nauðsynlegar úrbætur vegna heyskaparástandsins. Ég skal ekki rekja þær bráðabirgðatillögur en með tilliti til þess, að nefndin var að starfi og hefur enn eigi skilað endanlegum tillögum ákvað ég að óska eftir tilnefningu fulltrúa frá Landssambandi kartöflubænda til þess að fjalla um þetta mál ásamt fóðurbirgðanefndinni. Fulltrúi kartöflubænda í þessu verki er Sveinberg Laxdal, og verður fundur um þetta tiltekna málefni væntanlega haldinn á fimmtudaginn kemur. Fóðurbirgðanefnd var á fundum um s. l. helgi og hafði þá hug á að taka einnig þetta mál til sérstakrar athugunar, en því var eigi við komið að Sveinberg gæti sótt fundi nefndarinnar á þeim tíma og varð þess vegna bið á niðurstöðum og tillögum frá nefndarinnar hálfu um þetta efni.

Ég skal ekki á þessu stigi gera því skóna á hvaða lund tillögur nefndarinnar verða, en væntanlega hafa þær í för með sér að gert verði ráð fyrir fjárútvegun til að mæta þessu tjóni af hálfu Bjargráðasjóðs.

Ég get búist við því, að tillögur um fjárútvegun vegna fóðurskorts og vandræða, sem orðið hafa vegna erfiðleika við heyskap á s. l. sumri, verði jafnvel um minni upphæð en búast hefði mátt við, e. t. v. á bilinu 7–9 millj. kr., en enn hef ég eigi fengið neinar tölur um það, á hvern hátt nefndin muni gera tillögur um úrbætur vegna þessa tjóns á uppskeru garðávaxta.

Ég tel að með þessum orðum sé í rauninni meginefni fsp. svarað. Í 2. tölul. er spurt: Hvenær er þess að vænta, að niðurstaða fáist ? Ég vænti þess, að tillögurnar, sem verða teknar til athugunar í ríkisstj., geti legið fyrir alveg á næstunni, e. t. v. í lok þessarar viku, eða þá a. m. k. í næstu viku. Ég mun svo á hinn bóginn í framhaldi af því ítreka það sem rætt hefur verið innan ríkisstj., að nauðsynlegt er að afla Bjargráðasjóði fjármuna til að mæta þessum vanda. Bjargráðasjóður býr nú við þröngan kost, eftir að mæta varð afleiðingum af harðindunum á árinu 1979 og miklu tjóni, sem varð vegna ofviðris í febrúar á þessu ári, með framlögum og lánum úr Bjargráðasjóði. Ég vænti þess að takast megi að bæta það tjón, sem hér hefur orðið, að þeim hluta sem tilkvaddir nefndarmenn gera tillögur um.

Hitt er annað mál, að tjón verður aldrei að fullu bætt og verða aldrei gerðar tillögur um það af minni hálfu að neitt það tjón, sem hlýst af völdum náttúruafla í landinu, verði bætt að fulli. Við búum við þær aðstæður í okkar landi, að við eigum alltaf á hættu að misjafnt tíðarfar geri strik í reikninginn, og við erum vanir því, bændur, að þurfa að mæta því að hluta sjálfir þegar áföll verða vegna tíðarfars. Á hinn bóginn er nauðsynlegt, þegar meiri háttar skakkaföll verða, að hið opinbera komi til aðstoðar. Svo er einnig að vænta að gert verði nú.

Ég vil svo aðeins bæta við þetta svar mitt að ég tel eðlilegt — og að því er unnið — að undirbúa breytingar á lögum um Bjargráðasjóð. Sú vinna verður að minni hyggju að haldast að nokkru leyti í hendur við endurskoðun laga um viðlagatryggingu, en jafnframt hefur verið gert ráð fyrir því, að það kunni að verða nokkur breyting á hlutverkum þessara tveggja sjóða. Hlýtur þess vegna að verða að nokkru leyti a. m. k. að haldast í hendur endurskoðun í lögum um þessa tvo sjóði.

Þessi endurskoðun má þó ekki tefja fyrir því, að sú aðstoð verði veitt sem þörf er á vegna þessa harðæris. Þarf það ekki að fylgjast að.

Ég vænti að með þessum orðum sé fyrirspurn hv. þm. svarað.