08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

61. mál, greiðslufyrirkomulag fjárveitinga til opinberra framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í viðræðum við fulltrúa ríkisendurskoðunar hefur komið frama að svo virðist sem ekki séu nægjanlega fastmótaðar reglur um hvernig greiðslu á framkvæmdafé til opinberra framkvæmda samkv. fjárlögum er háttað. Virðist Innkaupastofnun ríkisins taka fjárveitingar til opinberra framkvæmda út án beinna tengsla við raunverulega framkvæmdastöðu, sem ætti að vera í höndum framkvæmdadeildar stofnunarinnar samkv. lögum um skipan opinberra framkvæmda.

Sé þetta rétt verður að álykta að Innkaupastofnun ríkisins hafi þetta fjármagn meira og minna í sínum daglega rekstri, sem hlýtur að vera algjörlega óraunhæft og kynni að valda því, að stofnunin gæti ekki greitt á réttum tíma til þeirra framkvæmdaþátta sem fjármagnið er veitt til í fjárlögum.

Taldi umræddur fulltrúi ríkisendurskoðunar nauðsynlegt að fjárhagur væri algjörlega aðskilinn milli framkvæmdadeildar og almennrar deildar Innkaupastofnunarinnar og ríkisfjárveitingar væru greiddar beint til þeirra framkvæmda sem þær eru veittar til í fjárlögum hverju sinni. Vegna þessa hef ég leyft mér, herra forseti, að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. fjmrh.:

1. Hvernig er háttað greiðslu á framkvæmdafé samkv. fjárlögum til opinberra framkvæmda sem framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins sér um?

2. Hvernig er farið með geymdar eða ónotaðar fjárveitingar til opinberra framkvæmda samkv. fjárlögum milli ára?

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa hér um langt mál. Þetta er mál sem ætti að vera að hægt að skýra hér, og ég vænti að hæstv. fjmrh. veiti skýr svör.