08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

91. mál, Kröfluvirkjun

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það eru orðin allmörg ár síðan umr. um Kröfluvirkjun stóð hvað hæst hér á Alþingi, en ég tel að sú umr. hafi áþreifanlega leitt í ljós að hér hafi verið um að ræða einhverja vanhugsuðustu og verst undirbúnu framkvæmd, sem dæmi þekkjast til úr íslenskri framkvæmdasögu, og jafnframt um einhverja mestu ævintýrapólitík í fjárfestingarmálum sem nokkur ríkisstj. hefur rekið.

Síðan þessar umr. fóru fram hefur það gerst til viðbótar, að saga Kröfluvirkjunar er notuð í erlendum háskólum sem skólabókardæmi um hvernig ekki eigi að standa að virkjun jarðgufu. Íslendingar eru komnir á blað í slíkum sérfræðistofnunum sem dæmi um hvernig ekki á að halda á málum.

Undir lok þessara umr. var lögð fram hér á Alþingi samkv. minni beiðni og fleiri þm. mjög ítarleg skýrsla um Kröfluvirkjun, þar sem m. a. komu fram allar þær áætlanir, sem hafðar hafa verið uppi um virkjunina, og kostnaður henni samfara. Síðan hefur lítið um Kröfluvirkjun verið fjallað hér á Alþingi, nema að jafnan við afgreiðslu lánsfjárlaga og fjárlaga hefur verið gert talsvert veður út af því, að nú stæðu líkur til að virkjunin mundi komast í gagnið ef Alþingi samþykkti að verja verulegum hluta til viðbótar af sameiginlegu fé landsmanna til framkvæmda við virkjunina. Minna hefur hins vegar orðið úr því, að þessar tilraunir hafi skilað árangri.

Herra forseti. Ég tel að nauðsynlegt sé fyrir Alþingi að fá nú enn upplýst hvað hefur gerst frá því að síðast var um Kröfluvirkjun fjallað með þeim hætti sem gert var í hinni ítarlegu skýrslu. Hef ég því leyft mér að bera fram á þskj. 94 svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„1. Hver er orðinn heildarframkvæmdakostnaður við Kröfluvirkjun ásamt fjármagnskostnaði?

2. Hver eru áætluð rekstrarútgjöld og rekstrartekjur virkjunarinnar á yfirstandandi ári? Hvert þyrfti orkuverðið að vera frá Kröflu, miðað við áformaða orkuframleiðslugetu virkjunarinnar í ár, til þess að orkuverðið gæti staðið undir rekstrar- og fjármagnskostnaði? Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir yfirstandandi ár er spurt um hliðstæðar upplýsingar fyrir árið 1980.

3. Hvenær er talið líklegt að Kröfluvirkjun nái fullri orkuframleiðslugetu, hvað er ráðgert að til virkjunarinnar þurfi að kosta miklu fjármagni til þess að svo geti orðið, miðað við þá reynslu sem fengist hefur af borunum, og hvenær má áforma að virkjunin geti sjálf af tekjum sínum staðið undir: a) rekstrarkostnaði, b) rekstrar- og fjármagnskostnaði?“

Ég vil aðeins bæta því við, hæstv. forseti, að nýverið urðu talsverðar deilur um þá ráðstöfun hæstv. ríkisstj. að taka fjármagnskostnað vegna Kröfluvirkjunar út úr ríkissjóði, út úr A-hluta fjárlagafrv. og færa þennan kostnað undir B-hluta fyrirtæki, þ. e. fyrirtæki með sjálfstæðan fjárhag. Á bak við þessa ákvörðun hlýtur að liggja ákvörðun um það, að Kröfluvirkjun sé ætlað að fara að greiða þennan fjármagnskostnað, a. m. k. einhvern tíma í fyrirsjáanlegri framtíð. Einhverjar upplýsingar hlýtur hæstv. ríkisstj. að hafa sem gera það að verkum að hún tekur þessa ákvörðun við gerð fjárlagafrv. nú. Hafi hún engar slíkar ákvarðanir að byggja þessa afstöðu sína á og engar frekari upplýsingar en eru almennt á vitorði alþm., þá er að sjálfsögðu ljóst að sú ákvörðun að flytja fjármagnsútgjöld Kröflu úr A-hluta ríkisreiknings yfir í B-hluta fjárlaga er aðeins til þess gerð að láta lita svo út á pappírnum, að hagur ríkissjóðs sé betri en hann raunverulega er.