20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á hátíðum og tyllidögum er oft það orðalag viðhaft, að Ísland sé eign Íslendinga. Það er ekki síst gert þegar svo háttar til að menn eru t. d. hér á Alþingi Íslendinga að biðja um fé úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar til þess að kosta hinar og þessar framkvæmdir í landinu. Þegar þarf að borga, þá eiga Íslendingar Ísland. Þegar hins vegar kemur að því, að menn ætla að nytja þessa eign sína, þá rísa upp fámennir hópar manna sem segja: Landið er okkar eign. Hinn landlausi almenningur má borga, en ekki nota það land sem hann borgar fyrir.

Við Alþfl.-menn höfum nú um margra ára skeið bent á þennan tvískinnungshátt sem fram kemur í máli manna m. a. hér á Alþingi. Það er bara á hátíðum og tyllidögum sem íslenska þjóðin á landið sem hún byggir. Dagsdaglega telja nokkrir tugir eða hundruð eða kannske örfáar þúsundir manna sig eiga þetta land með öllum gögnum þess og gæðum, hvort sem um er að ræða veiðiréttindi, virkjunarréttindi fallvatna eða djúphita mörg hundruð metra niðri í jörðinni. Þá er það ekki lengur þjóðin sem á landið.

Engu að síður er það nú svo að stærsti jarðeigandi á Íslandi er íslenska þjóðin. Íslenska ríkið á sennilega fleiri bújarðir á þessu landi en nokkur annar aðili. Þessar bújarðir eru samkv. lögum í vörslu jarðadeildar landbrn. og hefur hún alla umsjá umræddra jarða. Sumar þessar jarðir eru leigðar út til búskapar. Er að sjálfsögðu ekkert við því að segja því það eru eðlilegustu not þessara jarðeigna. Hins vegar er það opinbert leyndarmál, að margar af þessum jörðum-sem eru nokkuð kostamiklar og hafa m. a. upp á veiðiréttindi og önnur réttindi að bjóða sem eftirsóknarverð eru talin — eru leigðar út til einstaklinga og hópa manna fyrir harla lítið fé. Hins vegar vitum við a. m. k. fæstir alþm., ef nokkrir, hversu miklar jarðeignir eru hér í húfi, hvaða eignir hér sé um að tefla fyrir utan jarðeignirnar — þá á ég að sjálfsögðu við virkjunarrétt, veiðirétt og annað slíkt, hverjir hafa þessar eignir á leigu og hvað þeir gjalda fyrir.

Stærsti jarðeigandi Íslands má segja að ekki viti aura sinna tal í þessu sambandi. Stærsti jarðeigandi Íslands, sem er íslenska ríkið og á að vera í umsjá okkar alþm., hefur engar upplýsingar um hvorki hvað ríkið á af jarðeignum né heldur hvernig þessar eignir eru nytjaðar og hvaða leigur eru greiddar af þeim sem hafa þetta jarðnæði á leigu. Þetta eru upplýsingar sem alls ekki liggja fyrir, þráfaldar athuganir á því að fá upplýsingar þar um hafa engan árangur borið. Ég hef þó gert tilraun til þess að fá einhverjar upplýsingar um þetta með fsp. sem ég hef beint til hæstv. fjmrh., því ef einhver maður á Íslandi á að vita þetta, þá er það sá maður sem er fjárgæslumaður íslensks almennings, hæstv. fjmrh., sem á að fara með eignir ríkisins og vita um tekjur ríkis og ríkisstofnana. Vænti ég þess, að hæstv. fjmrh., sem er röskur maður, geri sitt til þess að afla upplýsinga um þetta. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt, að stærsti jarðeigandi á Íslandi, sem er íslenskur almenningur sjálfur, skuli engar upplýsingar hafa um jarðnæði það og hlunnindi sem eru í almannaeign, né heldur hverjir nota þessar jarðir og hlunnindi, þar á meðal veiðirétt á ýmsum kostamestu veiðijörðum landsins, né heldur hvað þeir greiða fyrir þetta. Þessar upplýsingar verða að sjálfsögðu að liggja frammi. Þessar upplýsingar eiga ekki að vera feimnismál.

Till. þessi til þál. á þskj. 13, sem flutt er af okkur nokkrum þm. Alþfl., er liður í þeirri baráttu Alþfl. manna, sem hefur verið háð um nokkurra ára skeið, því miður ekki með nægilegum árangir, að íslenska þjóðin sem alltaf er látin borga ef einhverju þarf að kosta til, hvort heldur það er landgræðsla eða eitthvað annað — hún fái í staðinn einhvern aðgang og afnotarétt, þó ekki væri nema af landi sem enginn annar getur eignað sér en þessi sama þjóð. Í stað þess að flytja þetta mál í einu þingmáli, eins og við höfum gert oft á undanförnum þingum, höfum við þm. Alþfl. þess í stað tekið þann kostinn að brjóta þetta stóra og mikla mál upp í mörg einstök þingmál og flytja það hvert fyrir sig og láta á reyna, hvaða þættir í þessari stefnu okkar, að íslenska þjóðin fái aðgang að eigin landi, hljóti náð fyrir augum alþm. Þessi þáltill. er einn þátturinn í þeim málatilbúnaði.

Till. þessi til þál. á þskj. 13 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna nefnd til þess að gera till. um hvernig nota skuli jarðeignir í eigu ríkissjóðs og stofnana ríkisins undir skipulögð orlofsbúða- og útivistarsvæði fyrir almenning.

Nefndin skal gera tillögur um landnýtingu í þessu skyni í þágu einstakling, félaga og samtaka, sem áhuga hafa á að koma sér upp orlofsdvalar- og útivistaraðstöðu til eigin nota. Nefndin skal einnig gera tillögur um hvaða reglur skuli settar í því sambandi, hvaða leigugjöld skuli greidd og hvaða jarðeignir ríkissjóðs og stofnana ríkisins komi til greina að nýta í þessu skyni.

Nefndin skal ljúka störfum á árinu 1982 og skila forsetum Alþingis skýrslu um niðurstöður sínar. Kostnaður við störf nefndarinnar skal greiddur úr ríkissjóði.“

Þannig hljóðar till., herra forseti, sem við flytjum á umræddu þskj. nr. 13.

Ég tel ekki þörf á að fara mörgum orðum um efni þessarar tillögu. Hér er ekki lagt til að taka neitt frá neinum. Hér er ekki lagt til að íslenskur almenningur sælist til neins þess lands eða landsréttinda sem aðrir eiga. Hér er ekki gerð till. um að taka frá einstaklingi, samtökum eða öðrum, sem eignar- og afnotarétt hafa á íslensku landi, svo mikið sem einn fermetra. Hér er ekki heldur gerð tillaga um að taka úr ábúð ríkisjarðir, sem leigðar hafa verið út til búskapar fyrir bændur, né heldur að skerða á nokkurn hátt búskaparnot af ríkisjörðum sem hafa verið leigðar út í því skyni. Hér er aðeins gerð tillaga um það varðandi þær ríkisjarðir, sem íslenska ríkið á og jarðadeild landbrn. fer með umsjón með í nafni íslensks almennings, þær jarðir sem eru ekki notaðar til búskapar eða nýttar í slíku skyni, að athugað verði hvort ekki sé unnt að nýta eitthvað af þessu jarðnæði fyrir eigendurna sjálfa, þann íslenska almenning sem m. a. með skattfé sínu hefur á umliðnum árum keypt þessar jarðeignir, en þær eru nú í umsjá landbrn.

Nú vitum við að það hefur stöðugt færst í vöxt á undanförnum árum að fólk, sérstaklega úr þéttbýli, hafi leitað til sumar- og orlofsdvalar út úr þéttbýlinu á vit náttúru landsins. Sumum býðst kannske þriðja, fjórða hvert ár að fá inni um skamma hríð í orlofshúsum stéttarfélaga fyrir ákveðið gjald, sem er misjafnt eftir því hvaða stéttarfélagi menn tilheyra. Aliflestir eiga þess hins vegar ekki kost, utan nokkrir menn í þéttbýli sem hafa haft efni á því vegna sérstakra aðstæðna sinna umfram aðra að kaupa sér við ærnu verði jarðir eða jarðarskika, oft af bændunum sem notað hafa þessar jarðir til búskapar, til þess síðan að setja upp útibú frá einbýlishúsum sjálfra sín í þéttbýlinu. Meginhlutinn af íslenskum almenningi hefur engan rétt, ekki einu sinni til afnota af jarðnæði sem íslenskur almenningur á, en enginn annar nytjar. Nokkrir bændur hafa hins vegar tekið upp á því og er það vel — að leigja hluta landa sinna undir slíka starfsemi. Flestar upplýsingar, sem ég hef um það, eru þó á þá leið, að venjulegur launþegi hefur tæpast efni á því að gjalda þá leigu sem krafist er, né heldur er sú þjónusta í boði svo nálægt ýmsum þéttbýlisstöðum að það séu líkur á að íslenskur almenningur geti nýtt þá þjónustu sem þar er boðin og er að auki mjög takmörkuð.

Nú er rætt um að framlengja svokallaða þjóðargjöf til landgræðslu, m. ö. o. að afgreiða af skattpeningum hins landlausa almennings í þessu landi greiðslur til enn frekari framkvæmda við uppgræðslu á landinu okkar. Við það tækifæri verðum við sjálfsagt minnt á að við eigum landið öll. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að menn leggi nokkuð á sig allir saman til þess að græða upp landið og reyna að bæta þau spjöll sem gengnar kynslóðir hafa unnið á því landi en þá finnst mér ekkert óeðlilegt að á sama tíma taki ríkisvaldið og Alþingi sig til og geri könnun á því, með hvaða hætti íslenskt launafólk geti fengið aðgang að og möguleika á að nýta jarðnæði í eigu íslenska ríkisins, sem enginn annar notar, bæði til útivistar, ef slíkt landsvæði er til sem hentar til útivistar, og eins til að byggja á orlofsbúðir eða sumardvalarheimili eða annað af því tagi, án þess að þurfa að greiða há gjöld fyrir.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þessa þáltill. Ég vek aðeins athygli á því enn og aftur, að það er ekki gerð tillaga um að taka neitt frá neinum. Það er ekki gerð tillaga um að skerða afnotarétt nokkurs manns sem nú hefur þessi lönd á leigu til búskaparnota. Það er aðeins verið að gera till. um að Alþingi láti athuga hvort eitthvað af þessu jarðnæði í eigu íslensks almennings, sem ekki er notað í annarra þágu, verði notað í þágu hins landlausa almennings í landinu.

Herra forseti. Ég vænti þess, að þessari till. verði vel tekið því hún skerðir ekki hagsmuni nokkurs manns, ekki nokkurs bónda, ekki nokkurs sveitarfélags, enda er það ekki tilgangurinn. Ég vænti þess, að hv. Alþingi geti því afgreitt þetta mál, þar sem varla er hægt að segja að þetta skerði einu sinni hagsmuni þeirra manna sem andvígastir hafa verið þeirri stefnu Alþfl. að íslenskur almenningur fengi afnotarétt af eigin landi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.