08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

91. mál, Kröfluvirkjun

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Mér er alveg ljóst og var ljóst þegar ég gerði þessa fsp., að hún er mjög ítarleg, óvenjulega ítarleg og krefst óvenjulega ítarlegra svara. Ég vil því strax færa hæstv. iðnrh. sérstakar þakkir fyrir þau svör sem hann hefur gefið, sem eru mjög ítarlega og skýr. Ég vil jafnframt vekja athygli á nokkrum staðreyndum sem koma fram í hans máli.

Hann upplýsti að ljóst væri að framkvæmdakostnaður við þetta ævintýrafyrirtæki, Kröflu, væri áætlaður 960 millj. kr. til ársins 1990. Þessi virkjun, verði hún búin þá sem alls ekki liggur ljóst fyrir, mun þá hafa kostað á verðlagi miðs árs 1981 960 millj. nýkr. eða 96 milljarða gkr. Framlag virkjunarinnar sjálfrar til framkvæmda og til fjármagnskostnaðar eru 3.8 millj. í ár, sem er aðeins um það bil 10% af fjármagnskostnaðinum einum, vaxtakostnaðinum einum. Þurfa þá 9/10 fjármagnskostnaðarins á hverju ári að koma úr vasa landsmanna, fyrir utan allar fjárhæðir sem þarf að verja til frekari framkvæmda við Kröfluvirkjun. Til þess að þetta fyrirtæki gæti staðið undir sér á framkvæmdatímanum þyrfti orkuverðið þaðan að vera tæplega 370% hærra en það er. Hvaða 240 þús. manna þjóð annarri skyldi vera gert að borga slíkan reikning fyrir aðra eins ævintýrapólitík og þá sem stóð á bak við gerð þessarar virkjunar? Það er nokkuð ljóst dæmi um ástandið í íslensku þjóðfélagi, að þeir aðilar, sem báru ábyrgðina á og stjórnuðu því, að þessi óskapaframkvæmd varð til, sitja nú við stjórnvölinn á okkar þjóðarskútu. Hæstv. þáv. iðnrh. er nú forsrh. og Kröflunefndarmennirnir eru annar ráðherra vísindamála á Íslandi, æðsti yfirmaður allra vísindamála í landinu, hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason, og hinn æðsti yfirmaður opinberra fjármála, hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds. Ef einhvern tíma hefur verið til réttmætt heiti á ríkisstj., þá ber þessari ríkisstj. heitið Krafla, og ætlar að verða jafndýr mistök þjóðarheildinni og framkvæmdin ætlar að reynast, og mætti þó sjálfsagt bæta við mörgum núllum fyrir aftan þegar reikningarnir verða gerðir upp.

Ég tek enn og aftur fram að hæstv. núv. iðnrh. var enginn aðili að þessari framkvæmd á sinni tíð. Ég býst við því, þó að ég viti það ekki, að hann hafi verið meðal þeirra flokksmanna Alþb. sem voru sammála okkur Alþfl.-mönnum á sinni tíð um afstöðu til þeirrar virkjunar. Ég þakka hæstv. iðnrh. enn og aftur fyrir þær mjög skýru og greinargóðu upplýsingar sem hann gaf við fsp. minni áðan.