08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. hefur gert fsp. um olíustyrki á þskj. 132, svohljóðandi:

„Hverjar ástæður geta verið fyrir því, að ekki sé ráðstafað til olíustyrkja nema um helmingi af þeim 50 millj. kr. sem fjárlög 1981 gera ráð fyrir til olíustyrkja á þessu ári?“

Við ákvörðun um lækkun ríkisútgjalda á s. l. sumri ákvað ríkisstj. að lækka þennan fjárlagalið í 46 millj. kr. Ástæða þess, að olíustyrkur hefur ekki verið hækkaður, er sú, að ekki þykir rétt að greiða olíuna það mikið niður að olíuhitun verði ódýrari en hitun með innlendum orkugjöfum. Olíustyrkur hefur verið 200 kr. á ársfjórðungi. Fyrir síðustu hækkun olíunnar nú í byrjun desember er talið að olíuhitun hafi verið um 10% dýrari en rafhitun, ef olíustyrkur hefði verið 253 kr. á ársfjórðungi. Mér finnst eðlilegt að olíuhitun sé eitthvað dýrari en hitun með innlendum orkugjöfum, þannig að í því felist hvatning til notkunar þeirra. En það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því í sambandi við þessi mjög svo alvarlegu mál, sem varða miklu um afkomu fólks, að það er býsna dýrt að hita upp híbýli og hús í sumum tilvikum með innlendum orkugjöfum.

Fyrirspyrjandi spurði til viðbótar: „Vill ríkisstj. sjá til þess, að greidd verði viðbót við olíustyrkinn 1981, þannig að ráðstafað verði öllu því fjármagni sem fjárlög gera ráð fyrir til olíustyrkja á þessu ári?“

Ég er þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé að úthluta þeirri fjárhæð sem hverju sinni er til ráðstöfunar, en þó verði að gæta þeirra sjónarmiða sem ég gat um hér að framan. Ég skipaði á s. l. sumri nefnd fulltrúa allra þingflokka til þess að endurskoða lögin um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Ég hef óskað þess við nefndina, að hún væri mér til ráðuneytis um olíustyrkinn, og er mér kunnugt um að hún er nú með það mál í athugun, eins og hv. fyrirspyrjandi veit, en hann á einmitt sæti í nefndinni. Árið er ekki liðið og enn færi á því að hækka olíustyrkinn, þannig að ég hef verið að hinkra við eftir niðurstöðum og ráðleggingum frá nefndinni áður en ég eða ríkisstj. tæki endanlega ákvörðun í þessu máli.

Ég get fallist á að það sé eðlilegt að greiða viðbótarstyrk fyrir 1981 ef það þykir ráðlegt með tilliti til framangreindra sjónarmiða, sem ég gerði hér grein fyrir og í raun og veru eru grundvöllur að þeirri stefnu sem mörkuð var í lögunum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, þ. e. að stefnan sé sú, að upphitun með olíu að viðbættum olíustyrk sé yfirleitt ekki ódýrari en upphitun með innlendum orkugjöfum, til þess að hvetja menn til að nýta innlenda orkugjafa til upphitunar. En þeir eru í sumum tilfellum býsna dýrir og það er auðvitað skylt mál, en þó nokkuð annað mál og stærra. Að óbreyttum olíustyrk mundi ég áætla að greiðsla fyrir árið í ár mundi nema allt að 30 millj. kr., þannig að þarna er nokkurt svigrúm.

Það er ástæða til að geta þess, að olíustyrkjum hefur farið mjög verulega fækkandi á undanförnum árum. Þegar fyrri olíukreppan skall á 1973 var lögleitt hér á hv. Alþingi á árinu 1974 að innleiða olíustyrki til upphitunar. Þá voru þeir samtals hartnær 95 þús. að tölu. Á undanförnum árum hefur verið unnið mjög kappsamlega að því að byggja hitaveitur og yfir höfuð raforkuver og auka innlenda orkuframleiðslu í öllum efnum. Niðurstaðan hefur orðið sú, að nú eru olíustyrkir samtals 25 þús., en voru nær 95 þús. 1974. Og þegar búið verður að tengja Akranes, Stokkseyri og Eyrarbakka, sem verður gert bráðlega, fara olíustyrkir niður fyrir 20 þús. Það er því býsna mikill árangur sem náðst hefur í þessum efnum á undanförnum árum, og er ástæða til að benda á það, að við getum fengið olíukreppu hvenær sem er. Þær skullu á í raun og veru án þess að gera boð á undan sér og hafa verið tvær, eins og við þekkjum, aðallega á síðasta áratug. En við getum allt eins staðið frammi fyrir þeirri staðreynd hvenær sem er að fá þriðju olíukreppuna með stórhækkuðu olíuverði. Við skulum vona að svo verði ekki, en um það getur enginn sagt.

Ég vil að lokum segja þetta: Í fyrsta lagi, að ég bíð eftir ráðgjöf frá nefndinni, sem hv. fyrirspyrjandi á sæti í, áður en endanlega verða teknar ákvarðanir um ráðstöfun þess fjár sem er til og er nú heldur meira vegna þess að það hefur miðað hraðar í þessum framkvæmdum en áætlað var þegar ákvarðanir voru teknar um upphæðina í fjárlögum hér í fyrra. En þetta mál allt saman er stórt mál og miklu stærra mál en varðandi olíustyrkina, vegna þess að menn búa við ákaflega misjöfn kjör að því er snertir upphitun með innlendri orku. Það er annað og stærra mál, en engu þýðingarminna en hitt.