08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Enda þótt búið sé að gera hér á Alþingi og víðar grein fyrir útreikningum á mismun á upphitunarkostnaði eftir því, hvaða orkugjafi er valinn, þá held ég samt sem áður að menn geri sér ekki fulla grein fyrir hvílíkum lífskjaramun þetta veldur. Mér er kunnugt um einstök dæmi þess, þegar t. d. fullorðið fólk á í hlut sem hefur lítið fyrir sig að leggja, að þetta fullorðna fólk, sem hefur þurft að búa við dýrustu tegund kyndingar, hefur þurft að neita sér um allar brýnustu lífsþurftir, eins og við teljum þær vera í dag, til þess eins að geta haft í sig og á. Mér er kunnugt dæmi þess, að gamall einsetumaður hefur orðið að segja upp bæði blaðinu, sem hann keypti, og sjónvarpinu, sem hann hafði, vegna þess að kyndingarkostnaðurinn við húsið hans hafði hækkað svo mikið að hann hafði ekki lengur efni á að standa undir því að fæða sig og klæða og geta veitt sér þessi mannréttindi einnig. Þó svo að búið sé að gera ýmsan samanburðarútreikning, sem m. a. leiðir í ljós að um geti verið að ræða nífalt meiri útgjöld fyrir launþegafjölskyldu að vera búsett vestur á Ísafirði heldur en hér í Reykjavík með tilliti til hitunarkostnaðar, þá held ég samt sem áður að hv. alþm. margir hverjir geri sér ekki grein fyrir þeim gríðarlega lífskjaramun sem hér er um að ræða. Er raunar hneisa að hæstv. ríkisstj. skuli við þessar aðstæður leggja fram fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir að aflað verði sérstakra tekna til orkujöfnunar á Íslandi sem eiga að nema 190 millj. kr. á næsta ári, en af því fjármagni eigi aðeins að ráðstafa 30 millj. kr. í því skyni sem látið er í veðri vaka að verið sé að afla peninganna til, en 160 millj. kr. fara í ríkishítina. Þetta tel ég, herra forseti, vera hreint hneyksli.

Ég vil einnig leyfa mér að vekja athygli á því í lokin, að því miður er því ekki að fagna, að hér sé aðeins svona mikill munur á upphitunarkostnaði annars vegar með olíu og hins vegar með innlendum orkugjöfum, því að því miður hefur tekist svo til að jafnvel þó að innlendir orkugjafar eigi í hlut, þá getur kostnaðurinn við notkun þeirra í einstökum minni sveitarfélögum verið álíka mikill fyrir einstaklingana og heimilin eins og kostnaður af innfluttum orkugjöfum. Það þarf því að líta á meira en bara olíukostnaðinn í þessu sambandi. Rafhitunin og fjarvarmaveiturnar sumar hverjar standa þar ekki langt að baki hvað kostnað varðar.